Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, segir að stjórnmálamaðurinn Bernie Sanders sé „dæmigerður vinstri lýðskrumari“. Þá gagnrýnir hann réttarhöldin gegn Geir H. Haarde, segir þau vera „eitt versta dæmið um misbeitingu popúlisma í íslenskri pólitík“ og vekur athygli á því að samflokksmenn Geirs hafi „nú leitt fimm af þeim sem stóðu að ákærunni á hendur honum í æðstu valdastóla á Íslandi“.
Þetta kemur fram í harðorðum pistli sem Benedikt birtir í Morgunblaðinu í dag. Þar gerir hann popúlisma og lýðskrum að umtalsefni og setur í samhengi við stjórnmálaástandið á Íslandi. Bendir hann t.d. á að „nánast allir flokkar hafa verið á móti málum í stjórnarandstöðu en tryggja svo innleiðingu þeirra þegar þeir eru komnir í ríkisstjórn eða öfugt“.
Benedikt segir að popúlistanum finnist „ekkert að því að tala um að skattar skuli vera almennir á sama tíma og hann predikar að „góðar atvinnugreinar“ eins og fjölmiðlar eða ferðaþjónusta borgi lægri skatta en aðrir“. Vísar hann þar líklega til umræðu um skattaívilnanir fyrir fjölmiðla og þess að núverandi ríkisstjórn hefur fallið frá áformum fyrri ríkisstjórnar og hans sjálfs um að færa ferðaþjónustu upp í efra þrep virðisaukaskattsins.
Þá segir Benedikt Landsdómsmálið vera dæmi um popúlisma. Sem kunnugt er var Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra dæmdur í Landsdómi árið 2012 fyrir að hafa sýnt stórkostlegt gáleysi í störfum sínum sem forsætisráðherra í aðdraganda bankahrunsins 2008.
Taldi rétturinn að með aðgerðaleysi sínu hefði Geir ekki aðeins brotið gegn formreglu í stjórnarskrá heldur beinlínis vanrækt að marka pólitíska stefnu til að takast á við þann efnahagsvanda sem honum hlaut að vera ljós strax í febrúar 2008 og þannig draga úr því tjóni sem varð við hrun bankanna.
Nýlega úrskurðaði Mannréttindadómstóll Evrópu um að engin mannréttindi hefðu verið brotin í Landsdómsmálinu. Fram kom í dómi MDE að ekkert benti til þess að dómarar við Landsdóm hefðu verið hlutdrægir í störfum sínum, sætt óeðlilegum þrýstingi eða haft óeðlileg tengsl við stjórnmálamenn. Þá hefði skipun dómstólsins ekki veirð á skjön við kröfur Mannréttindasáttmála Evrópu um sjálfstæðan og óvilhallan dómstól.
Benedikt gerir bandaríska forsetaframbjóðandann Bernie Sanders að umtalsefni og segir hann eiga það sameiginlegt með Donald Trump að vera lýðskrumari. „Þverstæðan er sú að stundum er málpípan hluti af hinum útvöldu, hópnum sem hún talar gegn. Menn sem segjast vera rödd guðs eru yfirleitt taldir galnir, en þeir sem segjast vera rödd fólksins, eins og Trump, tala oft með svipuðum hætti. Bernie Sanders og fylgismönnum hans fyndist eflaust afleitt að vera líkt við Trump, en Sanders er dæmigerður vinstri lýðskrumari,“ skrifar Benedikt.
Athugasemdir