Ég vann einu sinni með blaðamanni sem taldi með öllu ómögulegt að blaðamaður gæti verið hlutlaus og hlutlægur í skrifum sínum. Þetta staðhæfði hann ítrekað: Hlutlæg, hlutlaus - því sem næst - og þar af leiðandi fagleg blaðamennska var óraunhæft markmið.
Svar þessa blaðamanns við þessari staðföstu og einörðu sannfæringu sinni um eðli blaðamennskunnar var einfaldlega að blaðamenn ættu að hætta að þykjast vera hlutlægir og hlutlausir. Blaðamenn áttu bara að skrifa skoðanadrifnar fréttir, afstæðar fréttir ef svo má segja, því að hugmyndin um hlutlæga blaðamennsku var draumsýn. Hann sagði stundum við mig að blaðamenn ættu að kasta hlutleysisfeldinum.
Þannig má segja að þjóðfélagsumræðan eigi að vera með öllu afstæð og ekki markast af neinum tilraunum til að ná utan um „sannleikann“ og „staðreyndirnar“ þar sem þetta er hvort sem er ómögulegt. „Sannleikurinn“ er ekki mögulegt markmið nema sem túlkun einhvers einstaklings eða persónu á honum og þar sem túlkanir á sannleikanum eru alltaf persónubundnar þá verður sannleikurinn alltaf afstæður.
Ég tek fram að þessi maður er alinn upp í andrúmslofti kalda stríðsins, hann er vanur að skörp skil séu á milli tveggja póla í samfélaginu þar sem veruleikinn og túlkanir á honum eru svart-hvítar. Þegar hann var að vaxa úr grasi og fram á miðjan aldur hans var Morgunblaðið á öðrum vængnum í íslenskri samfélagsumræðu og Þjóðviljinn á hinum. Auðvaldssinnar öðrum megin og Rússadindlar hinum megin.
Ég held að þessum manni hafi fundist þetta gott og öruggt umhverfi. Sjálfur er hann hægrisinnaður og íhaldssamur, dró taum Morgunblaðsins og gerir enn. Davíð Oddsson er að hans mati einhver beittasti og skemmtilegasti penni sem Ísland hefur alið af sér. Hann er svo fyndinn og hnyttinn og Staksteinar hans eru konfektmolarnir í Mogganum. Sem dæmi um skopskyn Davíðs sagði hann brandara í nýlegri afmælisveislu sinni í húsakynnum Morgunblaðsins sem tengdist fjarveru Friðriks Sophussonar. Davíð sagði Friðrik vera að „leggja sig í Líma“ þar sem Friðrik var á ferðalagi í Perú. Og Davíð ritstýrir einmitt nákvæmlega svona fjölmiðli núna, miðli sem var keyptur til að vera flokkspólitískt og fjárhagslegt vopn ùtgerðarmanna í afar matskenndri baráttu um kvótakerfið og Evrópusambandið, miðli sem örugglega á upp á pallborðið hjá kollega mínum fyrrverandi því hann er með réttlætingu á Mogganum á reiðum höndum í afstæðishyggju sinni um fjölmiðla.
Þessum blaðamanni fannst örugglega gott og hughreystandi þegar Styrmir Gunnarsson og Matthías Jóhannesson ritstýrðu Mogganum og Árni Bergmann og Svavar Gestsson stýrðu Þjóðviljanum því hann vissi nákvæmlega fyrir hvað blöðin þeirra stóðu og að þau voru rammflokkspólitísk. Svipað er með Davíð nú: Hann veit nákvæmlega fyrir hvað Davíð stendur.
Á dögum kalda stríðsins þurfti blaðamaðurinn aldrei að lesa neitt sem mögulega gat breytt afstöðu hans um eitt né neitt í samfélaginu eða í lífinu. Ef Mogginn sagði eitthvað þá var hann yfirleitt sammála því og ef Þjóðviljinn sagði eitthvað þá gat hann gefið sér að það væri bara kommalygi eða rangtúlkun á sannleikanum sem væri ætlað að þjóna tilgangi í stéttabaráttunni eða koma höggi á Valhöll. Með sama hætti gat vinstri maðurinn afgreitt skrif Morgunblaðsins sem „Moggalygi“ eða eitthvað frá satan sjálfum, auðvaldinu.
„Sjálfur sakna ég gamla Þjóðviljans.“
Ég nefni þetta hérna af því Brynjar Níelsson þingmaður talar einnig með sams konar hætti og þessi gamli kollegi minn í orðsendingu um vefmiðilinn Kjarnann undir fyrirsögninni „Þjóðviljinn var hlutlausari en Kjarninn“. Brynjar segist sakna Þjóðviljans. „Held að gömlu flokksblöðin, sem við sem eldri erum munum eftir, hafi verið hlutlausari í fréttaskýringum sínum. Sjálfur sakna ég gamla Þjóðviljans.“
Þjóðviljinn var flokkspólitískt málgagn stjórnmálaflokks sem Kjarninn er ekki. Þeir sem hugsa svona eins og Brynjar virðast ekki hafa mikla trú á því að hægt sé að stunda „almennilega“ blaðamennsku, það er að segja frjálsa og óháða blaðamennsku sem ekki er flokkspólitísk. Samfélagsumræðan er bara barátta afstæðra, pólitískra sjónarmiða, staðreyndir og sannleikur skipta ekki máli, og allir fjölmiðlar eru með flokkspólitískt agenda eða bara hreinlega ljúga.
Það er líka á einhverjum svona forsendum sem Donald Trump notar hugtakið „fake news“ til að reyna að skjóta niður þær fréttir í vönduðum bandarískum miðlum eins og CNN, New York Times og Washington Post sem koma sér illa fyrir hann. Brynjar veit ekki hvar hann hefur ákveðna fjölmiðla, hann veit ekki hvernig hann á að skilgreina þá á flokkspólitískri línu og þess vegna finnst honum þeir vera verri en Þjóðviljinn var af því hann vissi alla veganna fyrir víst að Þjóðviljinn var flokkspólitískt málgagn sem hægt var að lesa og afskrifa með ákveðnum gleraugum.
Brynjar kunni líklega vel við fjölmiðlalandslagið á Íslandi í kalda stríðinu af því það var svart-hvítara, hann vissi hvar hann hafði Moggann og hann vissi hvar hann hafði Þjóðviljann. Hann var kannski oft sammála Mogganum og ósammála Þjóðviljanum. Þetta var þægilegt líf, heimurinn var svart-hvítur en ekki grár, enda þarf heimurinn ekki að vera grár þegar allt er flokkspólitískt og afstætt. Þá getur heimurinn bara verið skýr, svartur eða hvítur eins og hjá Donald Trump sem segir yfirleitt bara eitthvað út í loftið þegar hann ber af sér staðreyndir úr bandarískum fjölmiðlum.
Margir fjölmiðlar í dag eru loðnari og margræðari í roðinu og það getur verið erfiðara að hengja á þá einhvern merkmiða en á fjölmiðlana í kalda stríðinu. Er Kjarninn áróðursvopn fyrir VG, Framsóknarflokkinn, Samfylkinguna, Miðflokkinn, vogunarsjóðina, Viðreisn eða er hann kannski ekki áróðursvopn fyrir einn né neinn?
Nú verður seint sagt að íslensk fjölmiðlun sé á mjög háu plani í alþjóðlegum samanburði enda er Ísland pínulítið land með stutta fjölmiðlasögu sem öðrum þræði var dómíneruð af stríðandi flokksblöðum í kalda stríðinu um áratuga skeið. Ísland á eðlilega ekkert New York Times, The Guardian, Washington Post og ekki einu sinni neitt blað sem kemst í nágrenni við norræn blöð eins og Dagens Nyheter í Svíþjóð með tilliti til gæða. Fjölmiðlalandslagið á Íslandi er eiginlega samansafn dvergvaxinna héraðsfréttamiðla sem berjast flestir í bökkum rekstrarlega og hökta á milli mánaða móta. En auðvitað þarf að reyna að stunda frjálsa og óháða blaðamennsku á Íslandi og horfa til bestu blaða og fjölmiðla í heimi eftir fordæmum og ekki til Moggans eða Þjóðviljans.
Hvorki Mogginn né Þjóðviljinn eru eða hafa nokkurn tímann verið slík fordæmi enda ekki yfirlýst markmið þessara miðla að reyna að stunda frjálsa og pólitískt óháða blaðamennsku. Ég held að Brynjar Níelsson sé bara hræddur við þannig blaðamennsku í grunninn af því hún stefnir að því markmiði að reyna að vera ópólitísk og byggir á þeirri forsendu að reyna að segja einhvern sannleika sem er ekki flokkspólitískur og afstæður.
Ef þess konar afstæðishyggja um fjölmiðla og ég held að Brynjar aðhyllist ágerist þá getur hún leitt til þess, eins og raunar gerðist í tilfelli sonar vinnufélaga míns, að afstæðishyggjan verður hömlulaus. Nú má ekki gera ráð fyrir því fyrirfram að afkvæmi fólks hugsi alveg eins og foreldrar sínir en sonur blaðamannsins sem aðhylltist afstæðishyggju í blaðamennsku tók sig einu sinni til á fyrsta degi sínum í starfi á nýjum fjölmiðli og skrifaði frétt um mömmu sína sem var að hefja framboðsbaráttu sína í tiltekinni sveitastjórn á Íslandi. Er eitthvað verra að blaðamaður skrifi jákvæða framboðsfrétt um mömmu sína, sem hann er of tengdur og getur ekki fjallað um með hlutlægum hætti, en einhvern annan frambjóðanda sem hann getur heldur ekki haft hlutlausar og hlutlægar skoðanir á af því það er hvort sem er ekki hægt að vera hlutlægur um neitt sem viðkemur heiminum?
Einhvern veginn svona er hugarheimur Brynjars Níelssonar og Donalds Trumps reyndar líka. Þessi heimspeki er kannski góð fyrir mæður í framboði og stjórnmálaflokkinn sem maður elskar en hún er afleit fyrir samfélagið.
Athugasemdir