Þúsund kossar er að mörgu leyti einstök bók. Þar ber fyrst að telja að þar skrifar Jón Gnarr sögu Jógu, konu sinnar. Það út af fyrir sig hlýtur að hafa verið snúið verkefni fyrir svo nákomið fólk að skrifa saman bók um svo persónulega reynslu sem raun ber vitni. En þetta heppnaðist vel og úr verður sterk saga sem lýsir konu sem fer ótroðnar slóðir í lífinu og hrekst inn í aðstæður sem eru líkari mögnuðum og úthugsuðum söguþræði í glæpasögu en raunverulegri upplifun ungrar konu sem í sakleysi sínu treystir fólki.
Alvarlegt bílslys
Jóga hefur lítið sem ekkert gert af því að koma fram opinberlega; hálfgerð huldukona. Í borgarstjóratíð Jóns, manns hennar, var hún sveipuð dulúð. Hún virtist ekkert kæra sig um athyglina sem fylgdi því að vera maki borgarstjóra. En nú kveður við nýjan tón. Jón taldi hana inn á það að segja sögu sína og þá sérstaklega af alvarlegu bílslysi sem Jóga lenti í í Bandaríkjunum og eftirmálum þess. Jóga stórslasaðist og þurfti að berjast fyrir bótum alla leið upp í Hæstarétt Bandaríkjanna.
Þúsund kossar lýsir barnæsku Jógu í Kópavogi. Hún fór gjarnan í heimsóknir á Kópavogshælið til að heimsækja vistkonurnar í því skyni að gleðja þær. Þessi hluti bókarinnar lýsir mikilli manngæsku sögupersónunnar sem finnur upp á alls konar skemmtilegheitum til að gleðja konurnar sem dvöldu á heimilinu við dapurlegar aðstæður. Hún kenndi þeim að dansa og söng fyrir þær og spilaði á píanó. Svo datt henni í hug að koma upp bókasafni fyrir þær. Hún sótti bunka af bókum á bókasafnið í Kársnesskóla og kom þeim haganlega fyrir í hillu á Kópavogshæli. Vistkonurnar urðu himinlifandi.
Þarna er lýst algjörlega einstakri atburðarás.
Ein kvennanna hafði einlægan áhuga á brúðkaupum og safnaði úrklippum tengdum þannig viðburðum í möppu. Önnur átti kærasta, Jóa á hjólinu, og þráði ekkert heitar en að giftast honum, sem var óhugsandi. Jóga fann til með konunni og fann leið til að gleðja hana. Kærastinn var kallaður til og Jóga gaf þau saman með pomp og prakt sem endaði með stóru amen. Svo settu þau upp gardínuhringa og brúðguminn hjólaði sína leið; einn.
11 milljónir í bætur
Merkilegasti hluti bókarinnar fjallar um dómsmálið í Bandaríkjunum sem stóð um árabil. Jóga vann málið að lokum, Henni voru dæmdar 110 þúsund dollarar í bætur, eða rúmlega 11 milljónir íslenskra króna. En þá hófst atburðarás sem reyndist henni dýrkeypt. Jóga dregur ekkert undan í þeirri frásögn sinni. Lesandinn verður gjörsamlega agndofa. Þarna er lýst algjörlega einstakri atburðarás. Í eftirmála bókarinnar rifjar Jóga upp atburðinn og reynir að varpa ljósi á ástæður þess að svona fór.
Huldukonan Jóga
Þúsund kossar er hlý og góð bók. Huldukonan Jóga gefur fólki fágæta innsýn í líf sitt. Það er ekki einfalt að opna mál eins og það sem kemur fram í lok bókarinnar. Þessu máli fylgir skömm, þótt Jóga sé þolandinn. Það þarf svo sannarlega kjark til að lýsa því sem gerðist í lífi hennar eftir að Hæstiréttur hafði dæmt henni í hag. Einstök frásögn og opinská.
Þúsund þakkir, Jóga og Jón, fyrir sterka sögu.
Þúsund þakkir, Jóga og Jón, fyrir sterka sögu. Hún er ein þeirra bestu sinnar gerðar í jólabókaflóðinu. Það verður enginn svikinn af því að lesa sér til ánægju og betrunar um Jógu sem varpar af sér huliðshjúpnum með eftirminnilegum hætti.
Kápa bókarinnar er í senn sérstök, látlaus og falleg. Titillinn hittir beint í mark. Bókin er öllum aðstandendum til sóma.
Athugasemdir