Transkonan Anna Kristjánsdóttir varð annar einstaklingurinn á Íslandi til að brjótast út úr líkama sínum sem karl og verða kona. Anna fæddist sem drengur og fékk nafnið Kristján. Snemma uppgötvaði drengurinn að hann væri í rauninni stúlka. Hann hafði yndi af því að klæðast fatnaði sem stúlka.
Guðríður Haraldsdóttir blaðamaður skráði sögu Önnu í bókinni, Anna, eins og ég er. Þar er lýst bernskuárum Kristjáns og baráttunni við að fá að vera hún. Kristján lærði til vélstjóra og gekk í hjónaband. Börnin urðu þrjú. Kristján var vélstjóri á togara og stundaði sjóinn til að framfleyta fjölskyldu sinni. En undir niðri var alltaf sú vissa að hann, togarajaxlinn, væri í raun kona. Bókin lýsir því þegar hann ákveður loksins að skilja og fara í leiðréttingarferli. Kristján varð Anna og hún settist að í Svíþjóð þar sem áralöng barátta fyrir því að vera af réttu kyni hófst. Eftir að hafa sigrað sænska kerfið sneri Anna heim. Þar beið hennar einelti og ýmsar hindranir. Saga Önnu er einstök. Þetta er baráttusaga einstaklings fyrir þeim rétti sínum að tilheyra réttu kyni.
Bókaútgáfan Hólar gefur Önnu út.
Athugasemdir