Alls stíga 4.445 konur innan úr sænska réttarkerfinu fram í dag og segjast hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, áreitni og mismunun innan dómskerfisins þar ytra. Yfirlýsing kvennanna var birt í Svenska Dagbladed í morgun. Yfirlýsingin, sem er innblásin af #metoo byltingunni, kemur í kjölfar yfirlýsingar 578 sænskra leikkvenna sem lýstu kynferðisofbeldi innan síns geira í síðustu viku.
Sögurnar eru jafn misjafnar og þær eru margar. Ein konan segir frá því að saksóknari hafi hringt í hana ítrekað að nóttu til og beðið hana að hitta sig. Þegar hún afþakkaði segir hún að hann hafi haldið áfram að hringja, sent henni SMS og lesið inn skilaboð á símsvarann hennar, þar sem hann kallaði hana meðal annars „helvítis hóru“, hann geti eyðilagt feril hennar og að hann muni sjá til þess að hún fái aldrei vinnu sem lögmaður.
Að minnsta kosti ein þessara kvenna segist hafa verið nauðgað af dómara. Önnur segir að dómari, sem var henni sem lærifaðir, hafi beðið hana um að greiða fyrir ráðleggingar og stuðning með því að veita honum munnmök. Enn önnur lýsir því þegar hún var að dæma í nauðgunarmáli og karlkyns samdómari hafi sýnt henni myndir af þremur sakborningum í málinu og spurt hvern af þessum þremur hún myndi helst vilja láta nauðga sér.
Margar lýsa mismunun, áreitni og valdaójafnvægi á sænskum lögmannsstofum. Ein þeirra segir að það hafi til að mynda verið „mikilvæg óskrifuð regla“ að þegar von var á bandarískum viðskiptavinum þá ættu ungu starfsmennirnir að klæðast stuttum pilsum.
Krefjast breytinga
„Kannski er ekki skrítið að ekkert breytist. Þeir sem hafa valdið til að breyta kerfinu, þeir sem hafa völd til þess að veita stöðuhækkanir, atvinnutækifæri, hækka laun og útdeila verkefnum, eru þeir sem sem græða á núverandi ástandi, og það gæti reynst þeim dýrkeypt að tala fyrir breytingum,“ segir meðal annars í yfirlýsingu kvennanna.
Tilgangurinn sé ekki að ráðast á ákveðna einstaklinga, heldur að standa vörð um traust og trúverðugleika sænsk réttarkerfis. „Við höfum sýnt ábyrgð með því að sýna ykkur hvernig raunveruleikinn lítur út. Nú er komið að öðrum að bregðast við. Við krefjumst þess að konur verði ekki lengur kyngerðar, jaðarsettar, niðurlægðar og beittar ofbeldi í okkar geira. Við þörfnumst þess að þið sem hafið völd innan réttarkerfisins - eigendur á lögmannsstofum, dómarar, háttsettir ríkisstarfsmenn og fleiri - takið ábyrgð. Að þið sýnið aðgát, hættið að líta framhjá ofbeldi og látið þann sem ber ábyrgð svara til saka. Við viljum að bæði konur og karlar geti brotist út úr þögninni um þessa menningu og að þeim sem þora að hafa hátt verði ekki refsað,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.
Athugasemdir