Ég hef verið í svolitlum vandræðum með pistlaröðina Glatkistuna sem ég kom mér upp fyrir alllöngu en hef ekki fundið almennilegt hlutverk. Nú ætla ég að prófa að birta hér öðru ýmislegt gamalt efni af blaðamennskutagi eftir sjálfan mig sem ég rekst á á ferðum mínum um Tímarit.is og eftir útför Sigurðar skálds Pálssonar er ekki nema hæfilegt að birta 31s árs gamalt viðtal við hann sem ég tók og birti í Vikunni.
Þá var Sigurður G. Valgeirsson ritstjóri Vikunnar og fékk mig til að skrifa mikla viðtalaröð við ýmsa listamenn, þau voru yfirleitt af léttara taginu, en áttu samt að vera um alvöru mál.
Viðtalið mitt við Sigurð birtist 24. apríl 1986. Myndina tók sá flotti ljósmyndari Ragnar Th., ég vona að hann fyrirgefi mér að nota hana hér eftir öll þessi ár!
En viðtalið var sem sagt svona:
Ég ætla ekki að rekja hér í neinum smáatriðum langan og strangan aðdraganda þessa viðtals. Þó við Sigurður Pálsson hittumst oft á dag á götum eða kaffihúsum Reykjavíkur virtist okkur fyrirmunað að finna tíma til formlegs samtals og þegar við vorum einu sinni sestir niður á Greifanum af Monte Christo með blað og penna til reiðu þögðum við mestanpart í klukkutíma og gáfumst svo upp. Þá var Sigurður - formaður Rithöfundasambandsins - nýkominn af fundi með útgefendum og með hugann við annað; sjálfur var ég ekki með hýrri há af einhverjum ástæðum. Fleiri stefnumót á sama stað fóru út um þúfur hvert af öðru. Loks ákváðum við að hittast á skrifstofu Sigurðar á Laugaveginum og taka þetta föstum tökum og fumlausum - „Við tölum bara,“ sagði Sigurður, „um það sem máli skiptir. Förum um það nokkrum orðum.“
Og svo vorum við samankomnir yfir skrifborðinu hans í lókali Rithöfundasambandsins og Sigurður búinn að afgreiða kollega sína Guðberg og SAM og stórum bunka af samningaplöggum hafði verið ýtt til hliðar. Það kom ýmsum á óvart þegar Sigurður var kjörinn formaður Rithöfundasambandsins fyrir tveimur árum; hann ber einhvern veginn ekki svipmót félagsmálatröllsins utan á sér enda segist hann sjálfur hafa orðið steinhissa þegar hann var beðinn um þetta. Og það sé líka hundleiðinlegt að standa í samningastappi og sumu en ekki öllu sem hafi steypst yfir hann þessi tvö ár og ekki sé enn séð fyrir endann á. Eigi að síður sagðist hann ætla að gefa kost á sér í tvö ár enn og þar með vorum við búnir að afgreiða félagsmál rithöfunda og þóttumst góðir.
„Ég er,“ sagði Sigurður, „prestssonur eins og er svo algengt með leikhúsfólk. Það er grunsamlega stór hluti af leikritahöfundum okkar prestssynir.“
Já, er það? Eru það fleiri en þú og Jökull [Jakobsson]?
„Jájá. Mér dettur í hug Oddur Björnsson. Og Svava [Jakobsdóttir]. En hún er nú vel að merkja ekki prestssonur …“
Djúpstæðar, sálrænar ástæður?
„Ja, ég held að þetta sé bara mjög eðlilegt. Þegar maður er ómálga barn og alvitlaus sér maður föður sinn performera einhverjar undarlegar seremóníur, hann er klæddur grímuballsfötum og það er spenna í loftinu. Þessi kristnu ritúöl - hvort sem um er að ræða skírn, giftingu eða jarðarför - hafa öll til að bera einhverja magnaða spennu sem svipar mikið til spennu leiksviðsins. Þetta er mjög víðtækt og djúptækt sjónarspil þannig að samkvæmt banal-Freudisma þá blasa ástæðurnar við!“
Sigurður hló, hvellum hlátri.
Svo stóð hann á fætur og fór að ganga um gólf.
„Jújú,“ hélt hann áfram, „ég er fæddur einhvern tíma og svo kom ég hingað til Reykjavíkur þegar ég var þrettán ára og fór í landspróf og síðan í menntaskóla og þaðan til Frakklands þar sem ég lærði fyrst frönsku í einn vetur og svo leikhúsfræði í fjögur ár og svo kom ég heim og var viðloðandi Leiklistarskólann auk þess að skrifa og síðan fór ég út aftur og lauk magistersprófi og meira að segja hálfudoktorsprófi sem fjallar aðallega um ýmis vandamál nútímaleikritunar með hliðsjón af frönskumhöfundi sem heitir Michel Vinaver og jafnframt lauk ég prófi í kvikmyndaleikstjórn og hér heima hef ég verið frá 82. Þetta er nú ferillinn í stuttu máli.“
Jips! En skriftirnar og þetta dót...
„Já, það liggur við að ég muni varla eftir mér öðruvísi en skrifandi. Ég varð fljótt bæði læs og skrifandi - eða skrifandi og læs - og ég á til dæmis ennþá dagbækur sem ég hélt á hverjum degi frá því ég var fimm ára og til svona tólf ára aldurs. Nú, maður skrifaði aðallega skáldsögur á þessum árum,“ glottandi, „en um tólf þrettán ára aldur lagðist ég í eitthvert stefnuleysi eins og algengt er á þeim aldri og vissi ekkert hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur. Þegar ég fór aftur að skrifa í MR var það allt í ljóðformi og ég hef einhvern veginn aldrei náð sambandi við prósann aftur, ekki enn sem komið er að minnsta kosti og hef þó gert fáeinar tilraunir í þá átt. Það eru ljóðin sem henta mér best - og svo leikritunin, sem á náttúrlega meira skylt við ljóð en prósa ef út í það er farið.“
Þegar Sigurður lagði skáldsagnaritun á hilluna snemma á gelgjuskeiðinu voru nýir tímar í veröldinni. Bítlarnir höfðu slegið í gegn og á hæla þeirra The Rolling Stones. Þessum tímum er lýst bráðskemmtilega í nýjasta leikriti Sigurðar, Húsið á hæðinni eða hring eftir hring, sem hann samdi sérstaklega fyrir Herranótt MR nú í vetur. Eitt fyndnasta atriði þess ágæta leikrits var þegar ungpiltur einn er nýkominn af Stóra-Bretlandi með nýjar og æsandi rokkplötur og hringir í vini sína. Atriðið er endurtekið fjórum sinnum - orðrétt:
„Hey, komdu yfir, maður - já, ég er kominn, maður – algert æði, maður - ég er með tryllingslegar plötur með mér - nú skal gamli Dúalinn fá að sýna hvað hann getur - komdu yfir!“
„Þetta er tekið svo til orðrétt eftir einum félaga mínum frá þessum árum, manni sem nú er helstil virðulegur lögfræðingur hér í bæ. Ég kom auðvitað yfir eins og skot og við læstum okkur inni í herberginu hans og gamli Dúalinn fékk að sýna hvað hann gat. Platan var Around and Around með Stóns og við hækkuðum alltaf meira og meira þangað til Mikjáll og félagar endurómuðu um alla blokkina, nágrönnunum til mikils ama. Mamma þessa verðandi lögfræðings var sífellt að koma og banka varlega á dyrnar og biðja okkur um að lækka en við hækkuðum bara meira og fíluðum þetta alveg í botn. Á meðan sat pabbi hans frammi í stofu og las Tímann hinn rólegasti - hann var nefnilega ekki bara framsóknarmaður heldur líka ansi heyrnarsljór.
Þessi ágæta skemmtun okkar endaði þegar einn nágranninn lagði það á sig að klifra upp á svalirnar og brjótast þaðan til inngöngu til okkar.“
Á þessum árum voru miklar væringar með aðdáendum Bítlanna og Stóns og Sigurður sagði að hann hefði iðulega mátt þola það að vera hengdur upp á snaga í Hagaskólanum eins og hver önnur úlpa fyrir dálæti sitt á Stóns.
Það er líka greinilega stutt niður í gamla Stónsfríkið þrátt fyrir snyrtilegt yfirbragð Frankófílsins - Sigurður sagði mér frá því allshugar glaður að nýja Stónsplatan væri til stakrar prýði og mikillar fyrirmyndar: „Þetta er svona Exile On Main Street-fílingur,“ sagði hann og þá vita allir Stónsaðdáendur hvað við er átt. Keith Richards í fínu formi.
„Ég sá þá einu sinni,“ hélt Sigurður áfram, „það var 82, minnir mig, á risastórum íþróttaleikvangi í París og þeir ollu mér engum vonbrigðum. Gamla Stónsfríkinu hlýnaði um hjartarætur þegar þeir tóku öll gömlu lögin. Keith var bókstaflega að springa af heilbrigði - þeir höfðu reynt að mála á hann einhverjar heróínrúnir en þegar maður komst nálægt sviðinu sá maður að það var bara eins og hver önnur blekking.
Svo varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að þegar ég skrapp á krá um kvöldið, krá sem er fjölsótt af alls konar listamönnum, blaðamönnum og svoleiðis fólki, þá mætti Keith þar á svæðið með vinum sínum og settist á næsta borð við mig. Þjónarnir létu vitaskuld eins og þjóðhöfðingi væri kominn í heimsókn og komu og sprengdu kampavínsflöskur í gríð og erg og svo sat Keith þarna og þjóraði ósleitilega lengi nætur og var í hinu besta skapi. Hann var meira að segja svo vinsamlegur að skrifa stutta kveðju handa gömlu Stónsfríki sem sat á næsta borði og það þótti mér vænt um. Ég vildi náttúrlega ekkert vera að trufla hann sjálfur - hann var þarna með vinum sínum! - en það vildi svo vel til að þjónninn, sem færði mér drykkina, var líka Stónsfrík og tók að sér með ánægju að fá gamla manninn til að skrifa nafnið sitt á pappírsblað fyrir mig. Svo bætti hann við „With Love“, eða einhverju álíka huggulegu. Aftur á móti hefur mér enn ekki tekist að rekast á Mikka sjálfan á Polly Magoo …“
Eftir þennan útúrdúr um rokktónlist fórum við aftur að tala um skáldskap og einkum og sér í lagi skáldskap í MR.
„Jájá, ég var menntaskólaskáld, að vísu ekki einn af sextán heldur einn af tólf. Það varð eins konar sprenging í listalífi MR á árunum 64, 65 - furðuleg sprenging. Ég held til dæmis að enginn hafi ennþá bent á þá sögulegu staðreynd að íslenska kvikmyndavorið - sem að vísu leið hjá og nú er komið haust en úr því árstíðirnar virðast líða svona hratt treysti ég á að það fari að vora von bráðar aftur - en sem sé, að íslenska kvikmyndavorið var búið til af fólki sem stóð að Kvikmyndaklúbbi MR á árunum 64 til 67.
Þetta fólk kom sér í samband við danska Cinematekið - sem er það næstbesta í heimi og einmitt í miklum tengslum við það besta, sem er í Frakklandi - og gerði þá einföldu uppgötvun að það gat fengið lánaðar þaðan myndir sem kennslugögn án þess að borga tolla eða svoleiðis. Það voru sýningar tvisvar þrisvar í viku og af því danska Cinematekíð átti hér um bil allt, var hægt að horfa þar á alla kvikmyndaklassíkina eins og hún lagði sig. Í stjórn þessa klúbbs eða í kringum hana voru Ágúst Guðmundsson, Hrafn Gunnlaugsson, Kristín Jóhannesdóttir, Þorsteinn Jónsson, Þráinn Bertelsson - og svo framvegis.
Allt þetta lið fékk þarna gífurlega þjálfun, því það er álíka mikið út í hött að kvikmyndaleikstjóri geti gert góða mynd án þess að þekkja kvikmyndasöguna eins og að rithöfundur, sem aldrei hefur lesið neitt, geti skrifað almennilegt verk.
Svona var þetta á öllum sviðum í MR á þessum árum - það er miklu nær að líkja þessu við sprengingu en einhvers konar þróun. Aktevítetið var allsráðandi. Auðvitað hafði alltaf verið áhugi á listum í skólanum en í árgöngunum á undan okkur hafði verið áberandi svona gáfumannagengi sem hafði megnustu andúð á athöfnum - ég tala nú ekki um ef í því fólst að dreifa listinni til hins óvitandi pöpuls. Það voru hinsvegar okkar ær og kýr. Við gáfum til dæmis út Menntaskólaljóð árið 1965 eða 66 og ritstjórar voru, í stafrófsröð að sjálfsögðu, Hrafn Gunnlaugsson, Ingólfur Margeirsson, ég og Vilmundur Gylfason. Við vorum tólf póet í skólanum og svo ætluðum við að velja tólf gömul skáld - eitt á svona fimm ára fresti.
Við vorum samt ekki nógu ánægðir með það, fannst vanta einhvern stíl yfir þetta, og þegar við ætluðum að taka viðtal við Tómas Guðmundsson benti hann bara á samtalsbók sína og Matthíasar Johannessen svo ekkert kom út út þvi. Þá stakk einhver upp á því sem brandara að tala við Halldór Laxness og fá hann til að skrifa formála og það er til marks um æsinginn í okkur og framkvæmdagleðina að við hentum þetta strax á lofti og töluðum undireins við Halldór. Hann varð svo hissa að hann sagði bara já og þegar við höfðum fengið Hannes Pétursson til að skrifa eftirmála þóttumst við harla góðir og gáfum þetta út í stóru upplagi, 1500 eða 2000 eintókum, minnir mig. Og vitaskuld rann bókin út eins og heitar lummur. Þetta var allt í þessum dúr - einhver athafnaorgía.“
Og svo var það Tómas Jónsson Metsölubók [eftir Guðberg Bergsson].
„Já, Tommi var hreinasta himnasending fyrir okkur sem vorum að fást við ritlist. Það er skrýtið hvernig hlutirnir gerast - það er svo oft eins og menn fari að fást við svipaða hluti hver i sínu horni og án þess að vita hver af öðrum. Fáeinum árum á undan okkur í skólanum voru þeir Þórarinn Eldjárn og Ólafur Torfason og þeir voru farnir að fást við ýmislegt sem var í raun og veru furðulega líkt Tómasi Jónssyni. Svo kom Tommi og var eins og staðfesting á öllu því sem við vildum sagt hafa; þessi bók Guðbergs varð okkar bókmenntalega ritning og allt að því heilög.“
Sigurður hnyklaði brúnir.
„Þetta var ansi ótrúlegur tími og geysileg gróska - það voru haldnar málverkasýningar í Casa Nova og ég veit ekki hvað og hvað. Svo upp úr 68 til 70 kom önnur bylgja sem var fremur tengd þjóðfélagsmálum, eða pólitik eins og það heitir, en þá var ég farinn úr skólanum og varð lítið var við hana. Alltso: Þá hafði ég líka öðlast mína fyrstu pólitísku reynslu og hana heldur óvenjulega - í París í maí 68.“
Drottinn minn! Þú hefur þó ekki verið í París í maí 68?!
„Jújú. Ég varð nefnilega stúdent 67 þó ég væri fæddur 48 - skólagangan var svolítið óregluleg á tímabili, ég hef til dæmis aldrei lokið unglingaprófi ef út í það er farið, og ég endaði ári á undan í skóla. Það stóð bara þannig á spori og þess vegna var ég búinn að vera úti í París í heilan vetur að læra frönsku þegar maí-uppreisnin braust út.“
Og hvernig upplifðir þú maí 68?
„Maí 68,“ svaraði Sigurður varlega, „var miklu nær því að vera draumur en veruleiki. Ég er ekki einn um það að hafa upplifað atburði þannig - mér sýnist það vera reglan fremur en undantekningin. Þetta var svo óvenjulegt og óvænt að slagorð eins og „Færum út landamæri hins mögulega!“ voru ekki bara innantómt raus heldur var þeim hrint í framkvæmd! Andi maí 68 var einhvers konar ljóðrænt stjórnleysi - þetta var alger tjáningarsprenging og auðvitað dálítið unglingsleg á stundum; það var mikið um vígorð gegn boðum og bönnum og hvers konar valdi og það má heldur ekki gleyma því hversu rosalega staðnað franskt skólakerfi var á þessum árum.
Svo varð þetta náttúrlega þjóðfélagsmál þegar verkalýðsfélögin lýstu yfir stuðningi við stúdentana og fóru í allsherjarverkfall, en mér fannst það mjög merkilegt þegar einhver félagsfræðingur tók sig til og taldi höfunda þeirra tilvitnana sem málaðar voru á veggi Latínuhverfisins í maí. Sá sem átti metið var hvorki Lenín né Marx heldur André Breton, súrrealistapáfinn. Marx var auðvitað víða og einkum þó Maó enda hafði þá nýlega verið hrint af stað stórfurðulegri byltingu í Kína - það var áreiðanlega í fyrsta sinn í sögunni sem stjórnvöld hafa hvatt lýðinn „to bombard the headquarters“!
Menningarbyltingin endaði, eins og við vitum, í andstyggilegum terror en á þessum tíma vissu menn lítið um það og þetta var óvenjulegt og spennandi. Hugmyndin að maí 68 var svo „svikin“ af verkalýðsfélögunum þegar þau sömdu um verulegar kauphækkanir á gömlu nótunum og Kommúnistaflokkurinn og stjórnvöld sameinuðust um að láta þessari tilraun lokið. Það var raunar athyglisvert að meðal stúdentanna, sem höfðu sig mest í frammi í maí 68, var gífurleg andstaða gegn Kommúnistaflokknum og Sovétríkjunum - eiginlega meiri andstaða en gegn stjórnvöldunum sjálfum. Tíminn hefur líka leitt það í ljós að Kommúnistaflokkurinn í Frakklandi, með alla sína Sovéthollustu, er orðinn eins og hver annar sérvitringaklúbbur“.
Svo þetta var ekki venjuleg vinstrimennska?
„Nei. Ég held að ef menn reyna að tengja maí 68 þessari klassísku vinstrihreyfingu séu þeir á villigötum, að minnsta kosti ef miðað er við Frakkland. Hvert land kallar auðvitað á sinn eigin mai 68 eins og sést best af því að þegar þessi hreyfing barst hingað til lands tveimur þremur árum síðar þá var hún á mun hefðbundnari vinstrinótum en í París. Annars ættu menn að varast að alhæfa um þetta fyrirbrigði - menn eru alltaf að reyna að sjá kynslóðirnar sem einlitan massa en ef það er til eitthvað sem heitir 68- kynslóðin þá held ég að hún sé álíka skrautleg og símaskráin. Þessi kynslóð á það eitt sameiginlegt að hafa verið á táningsaldri þegar Bítlarnir slógu í gegn og hafa svo hlotið sína þjóðfélagslegu eldskírn um og upp úr tvítugu - í umrótinu frá maí 68.“
Við skulum halda okkur í París. Hvað varstu að gera í maí 68?
Sigurður hló.
„Ég skal segja þér að ég reyni jafnan að hlýða á innra eyrað og fara eftir því sem því heyrist. Þannig vildi til að seinni partinn í apríl keypti ég mér handboltaskó, ágætis apparöt, þó ég ætlaði mér alls ekki í handbolta né heldur að fara að stunda skipulögð hlaup. Satt að segja veit ég ekki hvers vegna ég keypti þessa skó en þeir komu sér vel í maí - þá þurfti oft að spretta úr spori til að komast út úr táragasþykkninu! Ég var náttúrlega útlendingur og varð þess vegna aldrei meira en áhorfandi að þessum atburðum en maður varð alltaf að vera viðbúinn því að króast ekki inni um nætur í Latínuhverfinu. Það brutust yfirleitt út óeirðir eftir kröfugöngu dagsins og þegar líða tók á nóttina náði lögreglan oftast yfirhöndinni og táragasið fór að súrna í augum. Þá reið á að ná góðri spyrnu á handboltaskónum!
Þetta var auðvitað alveg makalaus tími,“ hélt Sigurður áfram, steinhissa á svipinn. „Ég hafði verið að læra frönsku heilan vetur en á þessum eina mánuði þjálfaðist ég meira en allan tímann fram að því, bara á því að hlusta á endalaus ræðuhöldin og lesa graffitíið á veggjunum og öll þau óteljandi dreifibréf sem að manni voru rétt á degi hverjum - og svo með samræðum við fólk. Parísarbúar eru annálaðir þursar, sérstaklega í samskiptum sínum við útlendinga, svo það er stundum sagt að í landinu búi tvær þjóðir: Parísarbúar og rest, en það átti svo sannarlega ekki við í maí 68. Parísarbúar - þessar elskur! - létu eins og þeir hefðu mannkærleikann að sérgrein og voru bæði opnir og vingjarnlegir við mann. Metró gekk ekki og þá fór maður bara á puttanum milli hverfa - meðan bensín entist. Í maí 68 náði ég loks þokkalegum tökum á frönsku.
Og ræðurnar - svona ræður hélt ég að ekki væri hægt að halda! Þetta voru sannkallaðir málfrelsisdagar og enn hef ég ekki heyrt í ræðumönnum sem jafnast á við stúdentana í maí 68. Ég prísa mig til dæmis sælan að hafa verið staddur í Sorbonne af einhverri tilviljun 3. maí þegar 22. mars hreyfingin með Daniel Cohn Bendit og félaga í fararbroddi mætti til leiks. Þeir voru allir jafn-brilljant! - Daniel kannski mest áberandi af því hann var raddsterkastur. 22. mars hreyfingin var annars mjög merkileg því hún var aldrei skipulögð - hún var lifandi dæmi um anarkisma í framkvæmd. Cohn Bendit og félagar rifust linnulaust við Kommúnistaflokkinn og Sovétríkin og það var einkenni hreyfingarinnar að allir voru tilbúnir að taka forystuna. Einu sinni var Cohn Bendit og helstu samstarfsmönnum hans stungið inn og hreyfingin var aldrei sterkari! Samt var hann alveg ótrúlegur - þurfti til dæmis aldrei míkrófón, sama fyrir hversu stóran hóp hann var að tala.
Fyrir aðra tilviljun var ég staddur í Odeon-leikhúsinu þegar það var tekið af stúdentum - aðgerð sem endaði því miður heldur leiðinlega því sá merki leikstjóri, Jean-Louis Barrault, sem þar réð húsum, var á endanum rekinn fyrir að hafa ekki farið eftir skipun menningarmálaráðuneytisins um að taka rafmagnið af húsinu - skipun sem var alveg fáránleg og stórhættuleg.
Það var reyndar mjög algengt að alls konar byggingar væru teknar herskildi eða okkúperaðar. Það ríkti eiginlega okkúperingaæði í Frakklandi - það var aðalmálið að setjast að í skólum, verksmiðjum og öðrum álíka lókölum, og á hverjum morgni heyrði maður í morgun- útvarpinu samviskusamlegar fréttir af því hvaða byggingar höfðu verið okkúperaðar daginn áður og um nóttina. Þetta gekk svo langt að einu sinni okkúperaði einhver tólf ára bekkur skólabílinn sinn og neitaði að fara út! Kennararnir voru læstir úti eða beðnir um að fara ef þeir vildu ekki taka þátt.“
Ræðurnar þeirra Rauða Danna [Cohn-Bendit] og félaga - um hvað snerust þær?
„Þær snerust nú aðallega bara um spurningar dagsins. Þær voru tengdar hita leiksins. Eins og ég var að segja átti maí 68 ekki mikið skylt við klassíska vinstribaráttu - þetta var umfram allt tjáningarsprenging, draumur …“
Og svo eftir á, haustið 68? Hvernig var að setjast þá á ný á skólabekk?
„Það var á ýmsan hátt voðalega skrýtið. Að vísu var skipaður gagnmerkur ráðherra, Edgar gamli Faure, og hann setti að mörgu leyti ágæt lög um háskóla en fyrstu árin á eftir var ótrúleg ringulreið í skólakerfinu. Um haustið voru margar skoðanir á lofti - sumir vildu gefa skít í skólana alveg, aðrir skipulögðu eins konar and-fyrirlestra gegn fyrirlestrum prófessoranna.
Ég var svo heppinn að leikhúsfræðideildin, sem ég settist í, var lítil og þar tókst fljótt að koma á góðri skipan mála. Leikhúsfræðideildin við Sorbonne var, og er vonandi enn, mjög góð deild og þar var afskaplega harðsnúið lið kennara. Teórían var tekin mjög hátíðlega en um leið fékk maður nauðsynlega praktíska þjálfun. Við þessa deild kenndi samhentur hópur ungra leikstjóra sem nú má segja að stjórni frönsku leikhúslífi. Ég sótti til dæmis tíma hjá Arianne Mnouchine, prímus mótor Sólarleikhússins sem sló í gegn 1970 eða 71 með mikilli sýningu um 1789 og er enn leiðandi afl í Frakklandi. Þarna var líka Jean-Pierre Vincent sem nú er leikhússtjóri Comédie-Francaise, og þarna var Jacques Lassalle sem stjórnar núna einu merkasta leikhúsinu utan Parísar; það er í Strasbourg. Og svo framvegis.
Ég held að þetta hafi verið, og sé, örugglega ein besta leikhúsfræðideildin í Evrópu og þó víðar væri leitað - maður veit að vísu svo lítið um Ameríku.
Það vill oft brenna við að í leikhúsfræði sæki fólk sem langar í raun og veru til þess að verða leikarar en hefur ekki komist inn í leiklistarskóla og afleiðingin verður sú að margar deildir enda milli tveggja elda - þær verða eins og lélegir leiklistarskólar af því fræðin sitja á hakanum. Í Sorbonne var passað upp á þetta sem betur fer.
Ég á því láni að fagna að hafa aldrei langað vitund til þess að verða leikari en þó neyddist maður til að leika eitt og annað. Ég er sannfærður um að ég sé kolómögulegur leikari en af einhverjum ástæðum ganga þeir félagar mínir úr skólanum með þá grillu í kollinum að ég sé góður kvikmyndaleikari og þess vegna hef ég leiðst út í það að leika í einum fjórum fimm kvikmyndum. Ég hef reynt að vara þessa drengi við en þeir hafa ekki látið sér segjast og troðið hlutverkunum upp á mig - og það meira að segja aðalhlutverkum!“
Þetta munu vera skólamyndir?
„Já, lokaverkefni, en sumar þeirra allt upp í hálftíma langar. Mér finnst það furðuleg firra að ímynda sér að ég geti leikið en þetta er náttúrlega ágæt reynsla og ég hef einu sinni leikið í leikhúsi hér á landi, þvert ofan í öll prinsipin mín. Það var þegar Brynja Benediktsdóttir fékk mig til þess að leika í ágætu leikriti eftir Guðmund Steinsson, Sólarferð. Þar var ég spænskur þjónn.“
Þú ert til þess að gera hámenntaður í alls konar fræðum jafnframt því að skrifa sjálfur. Hvað þykir þér skemmtilegast að fást við?
„Ja, mér þykir afskaplega gaman að stjórna leikritum en vildi samt ekki vinna að því stöðugt, það getur verið ótrúlega slítandi. Draumur minn er jöfn blanda ritunar - þessarar einmanalegu vinnu - og svo leikstjórnar, sem er svona rosalegt fjöldaátak. Þegar maður er búinn að sitja lengi einn og basla við skriftir fer maður að þrá annað fólk en svo þegar maður hefur lokið við að setja upp heila leiksýningu þá hafa samferðamennirnir iðulega misst vænan hluta af ljóma sínum!
Maður getur náttúrlega ekki ráðið vinnu sinni að öllu leyti í þessum free-lance bransa, eins og þú veist; stundum hellast yfir mann fjögur fimm verkefni í einu en daginn eftir er ekkert framundan. Í fyrra æxlaðist það til að mynda þannig að ég hafði varla undan – fyrst var það Piaf norður á Akureyri, síðan vinna í sjónvarpinu og svo fór ég að skrifa leikritið fyrir Herranótt í árslok. Ég hafði raunar mjög gaman af því að setja upp leikritið um Piaf – hún hefur alltaf verið mikil vinkona mín.“
Þú minntist á Herranæturstykkið. Það er eftirtektarvert að öll leikritin þín hingað til hafa verið skrifuð eftir pöntun og með sérstakan hóp í huga.
„Já - öll þau leikrit sem ennþá hafa verið sýnd. Það er engin sérstök skýring á þessu – nema hvað það er erfitt að skrifa leikrit og það hefur virkað ágætlega á mig að hafa tímamark. Takmarkanir eru að sjálfsögðu alltaf fyrir hendi þegar skrifað er fyrir ákveðinn hóp - svo ég taki Hlaupvídd sex [sem sýnt var af leiklistarskóla SÁL] sem dæmi þá þurfti ég að skrifa fyrir tvo karla og sjö konur - en ég held þær hafi aldrei verið jafnþröngar og fyrir Herranæturleikritið; ég hef ekki skrifað fyrir amatöra áður. Nemendaleikhúsið hefur á hinn bóginn marga kosti sem sérhvert atvinnuleikhús ætti að hafa, einkum og sér í lagi gífurlega einbeitingu og metnað. Krakkarnir eru búnir að stefha að þessu marki í þrjú ár - þetta er skurðpunkturinn - það er flugtak eða ekki.“
Öll þau leikrit sem ennþá hafa verið sýnd?
„Já. Ég er til dæmis núna að reyna að ganga frá verki sem ég ætla að skila inn til Þjóðleikhússins. Ég fékk starfslaun frá leikhúsinu og þó því hafi að vísu ekki fylgt neinar kvaðir finnst mér það vera mórölsk skylda að sýna einhvern afrakstur launanna. Ég réðst í stórt verkefni á sínum tíma og var bjartsýnn á að það gengi upp en sprakk svo á limminu. Nú er ég með í gangi áform um að klára þetta og tekst það vonandi sem fyrst.“
Bíddu við - um hvað ertu að tala? Ef ég má spyrja?
„Hm.“ Sigurður hugsaði málið. „Ég held ég verði að ganga frá þessu áður en ég fer að tala um það.“
Þú hefur líka þýtt talsvert mikið?
„Já, og reyndar meira en hefur komið fyrir almenningssjónir. Ég hef sennilega ekki beitt mér sem skyldi í því að fá útgáfu á ýmsu því sem ég hef þýtt. Í mörg ár hef ég átt tilbúna þýðingu á heilli ljóðabók eftir Jacques gamla Prévert en eins og þú getur ímyndað þér þá hlaupa útgefendur ekki beinlínis upp til handa og fóta þegar minnst er á þýdd ljóð við þá.
Ég hef líka þýtt bók eftir mjög dularfullan höfund sem heitir Georges Bataille en held að það væri vissara að eiga flugmiða úr landi tilbúinn þann dag sem sú bók kemur út. Hún heitir Madame Edwarda og er geysimerk en … ja, hún er satt að segja ansi gróf. Þannig að ég hef þýtt vænan slatta en þýðingar eru eins og leikrit að því leyti að það er varla unnt að skrifa út í loftið; maður verður eiginlega að hafa útgefanda til reiðu, rétt eins og leikhús sem vill setja upp leikritið. Þýðingar eru djöfulsins puð og ekki til þess að leika sér að - ekki þá fyrr en kannski á elliheimilinu þegar maður hefur ekkert betra að gera.“
Strúktúr er mikilvægur hlutur í skáldskap, segja kenningar, og þá ekki síður í viðtölum ef vel á að vera. Nú, þegar við vorum að ljúka viðtalinu, var það allt í einu komið í hring og beit í skottið á sjálfu sér.
Prestssonurinn Sigurður Pálsson sagði hugsandi:
„Líklega hef ég lent í kröppustum dansi við þýðingar þegar ég þýddi mellubókina fyrir Iðunni 78. Það var svakaleg törn; ég hafði nefnilega alls ekki áttað mig á því hvað það voru margar blaðsíður í þessari bók! Svo var afskaplega snúið slangurmál á bókinni - Þegar vonin ein er eftir - og sumt skildi ég bara alls ekki. Ég þurfti stundum að fara á vettvang og spyrja portkonur Parísarborgar hvað hitt og þetta þýddi, og þó var ég enginn nýgræðingur í mellumáli.
Fyrsta árið mitt í París var ég oft niðri á St. Germain des Prés, við hliðina á Latínuhverfmu. Þarna voru tveir býsna dularfullir staðir og vændiskonur af öllum stærðum og gerðum. Þeim þótti það alveg ótrúlega fyndið þegar þær komust að því að ég væri prestssonur og þegar ég var á leiðinni heim til mín var oft æpt að mér: „Le fils de pasteur!“ - af alveg tryllingslegri gleði! Ég var náttúrlega barnungur, bara nítján ára, og það leið ekki á löngu þangað til þær voru farnar að segja þessum sakleysislega prestssyni ævisögu sína. Þannig komst ég inn í talsmátann, þegar vændiskonurnar röktu raunir sínar fyrir le fils de pasteur ...“
Athugasemdir