Forsenda farsældar okkar er að hvatarnir í samfélaginu séu heilbrigðir. Þannig má ekki fylgja því persónuleg umbun að gera eitthvað sem skaðar aðra eða samfélagið í heild.
Til þess að hægt sé að meta hvort hvatarnir séu heilbrigðir þarf að ríkja gagnsæi. Við þurfum að geta vitað – og þau þurfa að vita að við vitum. Það er í eftirlitsleysi sem spilling þrífst helst.
Til þess eru meðal annars fjölmiðlar og eftirlitsstofnanir, sem eru misvinsælar hjá ráðamönnum.
Hættulegir hvatar á Alþingi
Eins og Stundin fjallar um í nýjasta tölublaði sínu geta þingmenn fengið verulegar greiðslur, sem eru fyrir utan þær föstu endurgreiðslur og hækkað þingfararkaup, sem fjallað hefur verið um eftir að þingfararkaup var hækkað um 44 prósent án vitundar kjósenda á kjördag. Ef þingmaður keyrir fram og til baka um kjördæmið sitt einu sinni getur hann fengið 100 þúsund krónur skattfrjálst. Við fáum ekki að vita hvaða þingmenn nýta sér þessa heimild og upp að hvaða marki, því skrifstofa Alþingis hefur ákveðið að halda því leyndu, þrátt fyrir þrýsting okkar á að fá upplýsingarnar til að deila með kjósendum.
Vandamálið er ekki bara að þetta býður upp á að þingmenn taki sér óhóflegar greiðslur úr ríkissjóði. Það sem þetta gerir er að kenna þingmönnum að þeir geta tekið peninga úr ríkissjóði án afleiðinga. Þeim er umbunað fyrir óhófið og komið er í veg fyrir eftirlit kjósenda þeirra.
Þingmaður getur mjög auðveldlega aflað sér milljóna króna á ári í skattfrjálsar greiðslur, sem jafngildir því að fá um 1,8 milljóna króna launauppbót, fyrir akstur sem teldist eðlilegur hjá meðalmanneskjunni og hún fjármagnar sjálf með launum sem greiddur er skattur af. Í raun er hægt að tala um að þeir sem nýta sér ekki þessa opnu heimild verði fyrir fjárhagslegum skaða. Þegar hegnt er fyrir heiðarleika en umbunað fyrir óhóf og óheiðarleika skapast lærdómur sem er afar hættulegur, sérstaklega í stétt sem við viljum síst af öllu að fái þann lærdóm, treystum á að skapi reglur fyrir samfélag okkar og veiti framkvæmdavaldinu aðhald.
Opinn en leynilegur tékki til að færa fé úr ríkissjóði í eigin vasa er ekki aðeins möguleiki á spillingu, heldur líka hvatning til spillingar.
En ábyrgðin liggur hjá Helga Bernódussyni, skrifstofustjóra Alþingis, og þingmönnum sjálfum, sem setja lög.
Slæmir hvatar í fjölmiðlum
Þegar fjölmiðlar eru í svo miklum rekstrarvanda að þeir treysta á hagsmunaaðila til að fjármagna reksturinn brenglast hvatarnir. Í stað þess að treysta eingöngu á að almenningur noti miðlana verður hluti hvatans að hagsmunaaðilarnir sjái hag sinn í umfjöllunum. Hvati eigendanna verður að ráða ritstjóra sem vinnur að hagsmunum þeirra, og hvati þess ritstjóra verður að ráða blaðamenn sem sinna sömu hagsmunum. Þessir hagsmunir eru ekki algildir, en þeir eru engu að síður virkir og að verki.
Þannig hafa farið saman hagsmunir og stuðningur hagsmunaaðila í þeirri ákvörðun útgerðarfélaga sem eiga Morgunblaðið að gera helsta leiðtoga mesta valdaflokks landsins að ritstjóra yfir stærstu ritstjórn landsins.
Fjárhagslegt sjálfstæði fjölmiðla er forsenda ritstjórnarlegs sjálfstæðis, sem er forsenda þess að fjölmiðlar starfi almennt í almannaþágu.
Stjórnvöld á Íslandi hafa fylgt stefnu sem heldur fjölmiðlum í landinu veikum, og afleiðingin er að hagsmuna helsta valdaflokksins er gætt á stærstu ritstjórninni. Það mætti kalla þetta tilviljun, en það mætti líka horfa á það sem skipulegt að íslenska ríkið, undir þeirra stjórn, leggur einna hæsta virðisaukaskatt Evrópu á sölu dagblaða, veitir fjölmiðlum engar skattaívilnanir, ólíkt löndum eins og Noregi, og brýtur stöðugt gegn tjáningarfrelsi blaðamanna með meiðyrðadómum, sem byggðir eru á meiðyrðalögum sem fyrir löngu síðan er búið að leggja fram heilbrigðar breytingartillögur á. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd yfir 80 prósent tímans frá árinu 1974 og niðurstaðan er að formaður flokksins til margra ára stýrir stærstu ritstjórninni og hefur þar með lykilvöld yfir umfjöllunum. Hvað myndum við kalla þetta í öðrum ríkjum?
Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, hefur gagnrýnt fjölmiðla fyrir að vera bara skel, og varpa fram skoðunum starfsmanna þeirra, eins og Facebook-síða. Sjálfur neitaði hann að svara spurningum Stundarinnar fyrir síðustu alþingiskosningar um stefnu og fyrri verk flokksins, einn flokksformanna.
Brenglun hvata fyrir fræðimenn
Háværasti stuðningsmaður ritstjóra stærstu ritstjórnar landsins og fyrrverandi formanns mesta valdaflokksins hefur fengið umbun sem felst í vel launuðum verkefnum á vegum ríkisins og ríkisfyrirtækja, jafnvel í kvikmyndagerð, en hann er æviráðinn stjórnmálafræðiprófessor. Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins valdi hann til að gera viðamikla rannsókn á ástæðum íslenska bankahrunsins. Aðrir fræðimenn, sem ekki fengu verkefnið, hljóta að velta fyrir sér hvort þeir hefðu fremur átt að vera háværir stuðningsmenn valdaflokksins til að uppskera tækifæri og lífsgæði sem felast í þeim verkefnum sem flokkurinn útdeilir hugmyndafræðingi sínum með fjármögnun úr sameiginlegum sjóðum okkar.
Þegar klíka frekar en verðleikar ræður framgangi fólks eru hvatarnir brenglaðir í samfélaginu. Skaðinn af því er óháður skaðanum sem möguleg úttekt á orsakavöldum efnahagshruns verður fyrir þegar höfundurinn er yfirlýstur stuðningsmaður þeirra sem helsta ábyrgð bera.
Viltu græða milljónir eða bæta þjónustu?
Söluræða þeirra stjórnmála- og athafnamanna sem styðja einkarekstur í heilbrigðiskerfinu innifelur gjarnan að með einkarekstri verði þjónusta almennt betri. Á dögunum seldu tveir læknar fyrirtæki sitt á heilbrigðissviði, Art Medica, sem starfar við tæknifrjóvganir til handa fólki sem er í þeirri neyð að ná ekki að eignast börn. Fyrir mörgum er tilgangur lífsins að eignast börn og því er mikið misvægi milli aðstöðu þess og þeirra sem starfrækja þjónustu sem fullnægir þessum tilgangi, rétt eins og þegar fólk missir heilsuna, sem er forsenda allrar lífsvirkni fólks.
Niðurstaðan var að læknarnir tveir höfðu samtals 600 milljónir króna upp úr arðgreiðslum og söluverðmæti fyrirtækisins, en skildu við fyrirtækið vanbúið að tækjabúnaði. Þegar búnaður hafði verið endurnýjaður batnaði árangurinn fyrir fólkið sem þurfti á heilbrigðisþjónustunni að halda. Persónulegir hvatar þeirra voru hins vegar að fá sem hæstar greiðslur og fjárfesta minna í þjónustunni á móti.
Við þekkjum þessa hvata líka í rekstri einkarekinna skóla, sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður menntamálanefndar Alþingis, þrýstir nú á að fái aukið vægi. Eigendur menntaskólans Hraðbrautar tóku 82 milljónir króna í arð árin 2003 til 2009, og tóku sér síðan 18 milljónir króna í arð út úr skólanum árin 2012–2013 og veittu sjálfum sér 7 milljónir króna í lán 2014 á sama tíma og ríkið sleit samningi sínum við skólann. Opinber framlög höfðu því verið nýtt til þess að fullnægja þeim hvötum eigendanna að taka sjálfum sér sem hæstan arð.
Þar sem einkarekstur í heilbrigðis- og tryggingakerfinu er mestur, í Bandaríkjunum, fer langhæst hlutfall þjóðarframleiðslu til heilbrigðismála, án þess að það endurspeglist í betri heilsu eða meiri ævilengd en annars staðar á Vesturlöndum. Yfir 17 prósent af þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna renna í heilbrigðisútgjöld, en um 9 prósent á Íslandi.
Óflekkað mannorð án iðrunar
Í Stundinni er fjallað um að stjórnvöld og forseti Íslands veittu nýverið manni uppreist æru sem var dæmdur fyrir að misnota stjúpdóttur sína „nánast daglega“ í tólf ár. Hann gerði það frá því hún var fimm ára gömul. Hann iðrast ekki, segist dæmdur án sannana, þótt brot hans hafi þótt fullsönnuð á tveimur dómsstigum, en er núna kominn með vottorð upp á óflekkað mannorð.
Forsenda fyrirgefningar er í fyrsta lagi að taka ábyrgð á gjörðum sínum og í öðru lagi að iðrast og hugsanlega gera yfirbót. En kerfið, ráðherra og forseti framkvæma uppreist æru til handa manninum sameiginlega, án þess að nokkur taki á því ábyrgð, hvorki þau né hann.
Hluti ástæðunnar er að stjórnarskráin gerir ráð fyrir að forseti hafi völd, sem hann þó raunverulega hefur ekki og því álítur hann sig áhrifalausan til að hafna því að framkvæma slíkan gjörning.
Samt höfum við samþykkt nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu, fyrir tæpum fimm árum. Staðan er sú að ríkisstjórnin hefur ekki einu sinni skipað í nefndina sem lofað var að myndi sinna endurskoðun stjórnarskrárinnar, eftir að þingmennirnir ákváðu að samþykkja ekki óbreytta stjórnarskrá óflokksbundins stjórnlagaráðs.
Rétturinn til að nálgast þolendur
Aftur er áherslan meiri á rétt geranda í heimilisofbeldismálum. Kona greindi nýlega frá því að hún fær ekki nálgunarbann á mann sem hefur verið handtekinn fyrir að beita hana ofbeldi.
Réttur heimilisofbeldismanna til að nálgast þolendur sína er ríkari en réttur þolendanna til að losna við samskipti við þá. „Núna er ég fangi. Frelsi mitt er lítið sem ekkert. Stöðugur ótti,“ sagði konan í ákalli um breytingar.
„Núna er ég fangi. Frelsi mitt er lítið sem ekkert.“
Heimilisofbeldismenn vita því að þeir geta haldið áfram að beita andlegu ofbeldi þótt þeir hafi verið staðnir að líkamlegu ofbeldi. Það ætti að snúa taflinu við. Ofbeldismaðurinn ætti að eiga í vandræðum að þessu leyti. Hann ætti frekar að verða fyrir frelsisskerðingu en þolandi hans, og þannig myndast heilbrigðari hvatar til hegðunar, hvati til að láta annaðhvort strax af ógnandi samskiptum eða verða fyrir nálgunarbanni.
Lög og reglur þarf að nálgast út frá þeim áhrifum sem þau valda á hegðun fólks, út frá hvötunum. Það er síðan á valdi okkar sem kjósenda og almennra borgara að veita alþingismönnum og ráðherrum þá hvata sem þeir þurfa til að laga brenglaða hvata íslensks samfélags, ekki síst sem viðkemur því að koma í veg fyrir að þeir sinni eigin hagsmunum á kostnað hagsmuna okkar allra.
Nýjasta tölublað Stundarinnar má finna hér eða í helstu matvöruverslunum.
Athugasemdir