Að því marki sem ég hef haft skoðun á Litlu hafmeyjunni í Kaupmannahöfn í gegnum tíðina, þá hefur mér ævinlega fundist hún heldur fáfengilegt og hallærislegt verk.
Og ótrúlegt að svona lítil og umkomulaus stytta skyldi einhvern veginn ná því að verða táknmynd heillar þjóðar, þeirrar dönsku.
Eða alla vega táknmynd stórborgarinnar Kaupmannahafnar.
Hlægilegt! Og er það rétt að hún sé ekki nema 60 sentímetra há!
Ég hef oft komið til Kaupmannahafnar en aldrei farið að sjá Litlu hafmeyjuna, og var raunar löngu búinn að lofa sjálfum mér að það ætlaði ég aldrei að gera.
Maður lætur nú ekki hafa sig í hvaða túristastöff sem er!
En áðan átti ég erindi í Tollbúðina á Löngulínu og vissi að Litla hafmeyjan var í næsta nágrenni.
Og þar sem ég hjólaði burt, þá ákvað ég að brjóta nú þetta loforð - og líta aðeins á Hafmeyjuna.
Og svei mér þá, þar sem ég horfði á hana umkringda ferðamönnum sem voru að taka myndir af henni - eins og ég - þá fannst mér hún allt í einu bara svo ágæt.
Örlítið undirleit, kurteis og kyrrlát situr hún þarna á steini.
Ekki með gassagang, læti, belging eða hroka.
Bara hyggelig.
Og yfirlætislaus.
Er nú ekki bara betra og mannúðlegra og fallegra að eiga svoleiðis lítilþægt, friðsælt tákn heldur en táknmyndir sumra annarra þjóða og borga?
Til dæmis okkar?
Athugasemdir