Ég segi ekki að ég hafi nú þegar hjólað um alla Kaupmannahöfn, en þó hef ég nú á tveimur og hálfri viku farið um miðbæinn mestallan og víða um Nørrebro og Østerbro, ég hef dólað svolítið um Hellerup og niður í Vesterbro.
Alls staðar er ýmislegt að sjá, en þó fór fljótlega að læðast að mér sú tilfinning að eitthvað vantaði.
Og loks rann upp fyrir mér hvað það var.
Bensínstöðvar.
Ég hef ennþá hvergi nokkurs staðar séð bensínstöð.
Fyrir Reykvíking sætir það náttúrlega stórri furðu. Þar heima er varla hægt að snúa sér við án þess að rekast á bensínstöð.
Hér má sjá þær sem umkringja miðborgina.
Hér í Kaupmannahöfn eru - eins og öllum gömlum og grónum evrópskum borgum - víða kirkjur. Þær eru ekki einhvers staðar uppi á hól eða úti á túni eins og tíðast er á Íslandi, heldur bara inni í hverfunum.
Mér sýnist að í Reykjavík gegni bensínstöðvarnar að sumu leyti hlutverki þessara hverfiskirkna. Þetta eru yfirleitt tilkomumikil mannvirki, og þar komum við saman og tilbiðjum í sameiningu guðinn BENSÍN.
Hann er eins og við vitum helsti hjálparkokkur æðsta guðsins sem á Íslandi er tilbeðinn, en það er EINKABÍLINN.
Mikið væri gaman að komast alveg hjá því þær vikur sem ég á eftir hér í Kaupmannahöfn að rekast á bensínstöð.
StartFragmentEndFragment
Athugasemdir