Ég var að lesa í dönsku blaði viðtal við lögreglumann sem sérhæfir sig í málum er snerta barnaníðinga.
Hann sagði svo sem ekki margt sem ég vissi ekki áður en þarna voru áréttingar á ýmsu sem gagnlegt er að muna.
Hann lagði til dæmis þunga áherslu á að barnaníðingar væru alls staðar - þá í merkingunni í öllum stéttum og öllum þjóðfélagshópum og öllum starfsgreinum.
Barnaníðingar hafa fundist meðal blaðamanna jafnt sem lögfræðinga og dómara, háskólamanna, embættismanna, bankamanna, listamanna, búðarmanna, lögreglumanna, kennara og svo framvegis.
Mér skilst að fólk sé enn í dag ótrúlega tregt til að horfast í augu við að barnaníðinga sé að finna í svokölluðum „æðstu stéttum“ samfélagsins.
En hlutfall þeirra þar er nákvæmlega hið sama og í öðrum þjóðfélagshópum.
Barnaníðingar eru sem sagt ekki bara subbukallar á subbustað.
Þetta ættu menn að hafa í huga á Íslandi.
Ég man ekki til að margir svokallaðir „fínir menn“ íslenskir hafi verið ákærðir fyrir níðingsskap gegn börnum.
Í fljótu bragði man ég aðeins eftir tveimur.
Einum prófessor og einum lögfræðingi.
Prófessorinn var sýknaður, lögfræðingurinn hefur nú fengið „uppreist æru“.
Ennfremur vildi danski lögreglumaðurinn líka leggja áherslu á að barnaníðingar væru einkar gjarnir á að leita í félagsskap hver annars.
Bæði til að dreifa „efni“ hver til annars („efni“ af öllu mögulegu tagi) en ekki síður til að hafa stuðning hver af öðrum.
Telja hver öðrum trú um að það væri allt í lagi sem þeir væru að aðhafast, og hjálpast að ef einhver lenti í vandræðum.
Barnaníðingar eru sem sagt ekki alltaf - og raunar í minnihluta tilfella - „bara“ einn maður fálmandi í myrkri.
En hvar eru hinir íslensku barnaníðingahringir?
Af hverju höfum við aldrei frétt af neinu slíku? - nema í hinu hræðilega tilfelli Thelmu Ásdísardóttur og systra hennar fyrir áratugum.
Eru íslenskir barnaníðingar öðruvísi en þeir útlensku að þessu leyti?
Eða hvað?
Það allra merkilegasta sem mér fannst koma fram í viðtalinu við danska lögreglumanninn var samt hve alvarlega danska lögreglan virðist taka þessi mál.
Þarna var greinilega maður sem vann við það allan daginn að þefa upp, finna og handtaka barnaníðinga.
Hann veit að þeir eru þarna - og hann veit að þeir eru að níðast á börnum - og hann ætlar að finna þá áður en þeir gera af sér meiri skaða.
Og hann tók starf sitt greinilega mjög hátíðlega.
Hann ætlaði sem sé ekki að bíða eftir því að það kæmi brotin manneskja eftir ár eða áratugi og væri þá kannski til í að tala.
Hann ætlaði ekki að mæta þeirri manneskju með þungum andvörpum um hvað sönnunarbyrðin sé nú erfið í svona málum.
Hann ætlaði ekki að fleygja henni fyrir fætur yfirlætisfullra hákalla sem skipuðu henni að gleyma helst og fyrirgefa allt.
Hann ætlaði að finna níðinginn og láta hann svara til saka.
Athugasemdir