Ég elska dýragarða. Þegar ég var sex ára fór ég í fyrsta sinn í dýragarð, það var dýragarðurinn í Kaupmannahöfn. Ég geymi ennþá í höfðinu mynd af ljónastíunni og ísbjarnarbúrinu. Ég man líka að strax þá fannst mér eitthvað einmanalegt við dýrin.
Var ekki ljónið á svipinn eins og það vissi ósköp vel að það byggi á póstkorti? Og ísbjörn átti auðvitað alls ekki heima í Kaupmannahöfn, meira að segja ég barnið vissi það.
En samt var hrífandi að horfa á styrk þeirra og fegurð, jafnvel þótt þau gerðu nánast ekki neitt.
Og þrátt fyrir þessa óljósu tilfinningu um einmanaleik dýranna hef ég samt elskað dýragarða og geri enn.
Áðan fór ég í dýragarðinn í Kaupmannahöfn, og hálfri öld seinna hrífst ég enn af dýrunum.
En tilfinningin fyrir einmanaleik þeirra er sterk.
Og það er að verða heilmikið siðferðilegt vandamál að fara í dýragarð.
(Þótt ég hafi passað mig á að segja ekki afakrökkunum það.)
Höfum við rétt til að loka inni dýr af öðrum tegundum?
En líka - höfum við rétt til að ímynda okkur að þau hugsi eins og við?
Sem sagt: Hef ég einhvern rétt til að loka inni ísbjörn? Og: Hef ég einhvern rétt til að gera ísbirninum upp einmanaleik, bara af því ég ímynda mér að mér liði þannig í hans sporum?
Gríðarstórt dýr synti með sínum ógnarstóru hrömmum framhjá glerrúðu þar sem fólk stóð og horfði á.
Fram og aftur synti björn, fram og aftur.
Þetta var tignarleg sjón en líka dapurleg.
En svo sá ég að það átti að fara að gefa honum að éta. Og þá mundi ég að flestir ísbirnir úti í náttúrunni deyja að lokum úr hungri.
Ef þeir eru þá ekki skotnir til bana á Íslandi.
Athugasemdir