Það er nánast óðs manns æði að reyna að spá fyrir um framvindu mála í Mið-Austurlöndum. Það eina sem mun ekki koma á óvart á árinu 2026 er að stjórnmál þessa svæðis munu koma á óvart. Íbúar og stjórnmálamenn Mið-Austurlanda eru sífellt að finna nýjar leiðir til að koma málefnum svæðisins á forsíður fjölmiðla. En þó svo að þetta svæði sé þekkt fyrir óstöðugleika og sveiflukennd stjórnmál er það margt sem breytist ekki. Þegar atburðir nýliðins árs eru settir í ramma og reynslu sögunnar er hugsanlega hægt að sjá fyrir einhverja þróun og hægt er að setja einhver viðmið. Hér fyrir neðan eru þrír þættir sem þarf að huga þegar við horfum fram til ársins 2026.
1. Er sól bandaríska heimsveldisins farin að setjast?
Ef við förum 100 ár aftur í tímann, eða til ársins 1926, þá voru Frakkar og Bretar allsráðandi í Mið-Austurlöndum. Veldi þeirra fór að hnigna eftir heimsstyrjöldina síðari. Þá tóku Bandaríkin og Sovétríkin við töglum og högldum. Í byrjun 21. aldar voru Bandaríkin hins vegar nánast allsráðandi og beittu valdi sínu í hvíetna í þeirri von að breyta til muna menningu og stjórnmálum Mið-Austurlanda. Nú er pólitísk staða Bandaríkjanna tvíræð og ekki ljóst hvort þeir koma til með að vera í eins áberandi hlutverki og á síðastliðnum 70 árum. Spurningin er því hver tekur við. Er það Kína? Rússland? Indland? Þýskaland? Eða er ólíklegt að erlend ríki spili eins stórt hlutverk og áður?
„Spurningin er því hver tekur við. Er það Kína?
Þó að Kína sé langlíklegast að taka við keflinu af Bandaríkjunum, er sennilegast, sérstaklega miðað við þróunina síðastliðin ár, að ríki Mið-Austurlanda muni ekki sækjast eftir skjóli og stuðningi stórveldanna. Þau hafa brennt sig of oft á þeim eldi og þess vegna eru þau ákveðnari í að vera sjálfstæð og óháð. Auk þess eru þau að mynda valdablokkir og bandalög innbyrðis til að stuðla að sameiginlegum hagsmunamálum. Til dæmis eru arabísku Súnní-ríkin Sádi-Arabía, Egyptaland, Furstadæmin og Jórdanía í nánu samstarfi til að stemma stigu við uppgang Tyrklands og Íran. Tyrkir eiga góða bandamenn í Katar meðan að Íranir hafa fram til ársins 2025 unnið statt og stöðugt að því að efla tengsl þeirra við Líbanon, Jemen og Sýrland. Írakar eru eins konar Finnland Mið-Austurlanda þar sem nærvera þeirra við Íran og Sádi-Arabíu gerir það að verkum að þeir hafa stundað eins konar hlutleysisstefnu. Það er því líklegt að á þessu ári munum við sjá áhrif Bandaríkjanna minnka og þeir munu hafa takmörkuð völd til að hafa áhrif á málefni Mið-Austurlanda. Þess í stað munu stjórnmál í Mið-Austurlöndum einkennast af valdabaráttu þessara bandalaga.
2. Er borgarastyrjöld í vændum í Íran?
Ayatollah Ali Khameini, æðstiklerkur Íran, verður 87 ára í apríl en hann hefur verið við völd síðan 1989. Heilsu hans fer hrakandi en þrátt fyrir það er hann enn með puttana á öllum helstu valdastoðum Írana. Síðastliðið sumar, þegar Bandaríkjamenn og Ísraelar gerðu árás á Íran, var Khameini hvergi sjáanlegur fyrst um hríð og í fyrstu stefndi allt í að Íranir myndu gjalda afhroð. En Íranir náðu að svara fyrir sig og þegar upp var staðið má segja að öll þrjú ríkin gátu hrósað sigri. Þetta var eins konar stórmeistarajafntefli. En þegar staðan var hvað alvarlegust í Íran í þessu stutta stríði og þegar ringulreiðin var hvað mest, steig enginn fram á sjónarsviðið til að lægja öldurnar og til að hvetja Írana – enginn úr hernum, þinginu, klerkastéttinni, viðskiptalífinu eða úr menningarlífinu. Það var til marks um að það er enginn augljós eftirmaður Khameini. Því er afar líklegt að margir hugsi sér til gott til glóðarinnar ef dagar Khameini verða taldir, sérstaklega þeir sem standa utan við klerkastéttina.
Margir í Íran, ekki síst konur, hafa fengið sig fullsadda af klerkastjórninni. Mun dauði Khameini þar af leiðandi líka marka endalok hins Íslamska lýðveldis? Þar sem íbúar landsins hafa háð mótmæli með reglulegu millibili, meðal annars nú í janúar 2026, er ekki ólíklegt að fráfall Khameini komi til með að auka á mótmælaölduna. En það eru margar öflugar valdastoðir innan öryggiskerfis landsins sem munu ekki gefa upp sín völd auðveldlega. Þar sem engin arftakaáætlun er augljós og þar sem það ríkir svo mikil ólga og óánægja í Íran er ekki ólíklegt að borgarastyrjöld eða mikil átök brjótist út í Íran á árinu.
3. Eru dagar Netanyahu taldir?
Benjamín Netanyahu er sá Ísraeli sem hefur setið hvað lengst í forsætisráherrastólnum, eða í um 18 ár samtals. Þrautseigja hans er með ólíkindum og hann virðist hafa meira en níu pólitísk líf miðað við öll þau hneykslismál sem hann hefur staðið af sér. En væntanlega mun draga til tíðinda á þessu ári.
„Fram undan eru kosningar í Ísrael og samsteypustjórn Netanyahu stendur höllum fæti
Fram undan (í október) eru kosningar í Ísrael og samsteypustjórn Netanyahu stendur höllum fæti. Ef hann tapar kosningunum eru pólitískir dagar hans taldir. Auk þess stendur hann enn frammi sem sakborningur í réttarhöldum þar sem hann er sakaður um mútur, trúnaðarbrot og svik. Enn fremur hefur stríð og þjóðarmorðið í Gaza verið umdeilt í Ísrael og hefur einangrað Ísrael á alþjóðavettvangi og veikt því stöðu hans enn frekar. Sömuleiðis eru margir rétttrúnaðar (orþódox) gyðingar reiðir yfir nýrri löggjöf sem veitir þeim ekki undanþágu frá herskyldu.
En Netanyahu er með nokkur spil á hendi, ekki bara „Trump“-spil, sem hann getur notað til að bæta pólitíska stöðu sína. Hann hefur verið að senda inn hersveitir og gert árásir á bæði Sýrland og Líbanon. Ísraelar hafa náð yfirráðum yfir töluverðum landsvæðum í Sýrlandi í skjóli nætur og hafa færst nær og nær Damaskus. Netanyahu-stjórnin hefur ekki slakað á að veita frekari byggingarleyfi fyrir ný hverfi gyðinga á Vesturbakkanum. Árásir á Palestínumenn hafa stóraukist á Vesturbakkanum og oft eru það óbreyttir landnemar sem eru þar í fararbroddi. Ísraelski herinn gerir lítið sem ekkert til að stöðva þessar árásir. Með þessu er Netanyahu að reyna að höfða til íhaldssamra afla innan Ísrael sem enn dreyma um stórríkið Ísrael sem nær langt út fyrir núverandi landamæri landsins. Síðast en ekki síst er spurning hvað Netanyahu gerir ef ástandið í Íran verður óstöðugra og ef Ísraelar nýti tækifærið og taki þátt í að veikja eða steypa klerkastjórninni af stóli. Ef Netanyahu getur hrósað sigri í Íran og sýnt fram á enn frekari landvinninga á Vesturbakkanum getur hann hugsanlega náð að framlengja sitt pólitíska líf um nokkur ár.
Í nýjasta tölublaði Heimildarinnar lýsa sérfræðingar og álitsgjafar sinni sýn á árið sem framundan er, og rýnt er í lykilatburði á vettvangi stjórnmála, hagfræði, umhverfis og menningar.


























































Athugasemdir