Bandaríkin hafa verið hornsteinninn í öryggisstefnu Íslands frá Seinni heimsstyrjöld, með Norður-Atlantshafssáttmálanum árið 1949 og tvíhliða varnarsamningi árið 1951, en helsti sérfræðingur Íslands í smáríkjafræðum varar nú við því að helsti bandamaður Íslands geti reynst ógn.
Alþjóðastjórnmálafræðingurinn Baldur Þórhallsson fjallar um „hættu úr óvæntri átt“ í færslu á Facebook, þar sem hann segir að umpólun í alþjóðamálum hafi „aukið hættustigið hér á landi“.
„Staða Íslands í alþjóðasamfélaginu breyttist árið 2025. Vá steðjar að landinu úr austri og vestri. Hættan er þó með ólíkum hætti,“ segir Baldur og undrast að margir íslenskir stjórnmálamenn horfist ekki í augu við þá breytinguna. „Flestir þeirra þegja þunnu hljóði yfir stöðu Íslands í breyttri heimsmynd. Þögn þeirra um þá ógn sem steðjar að Grænlandi – okkar næsta nágrannaríki – er æpandi.“
Árás á NATO-ríki frá Bandaríkjunum?
Baldur bendir á að Donald Trump Bandaríkjaforseti virðist ekki „líta á innrás Rússlands í Úkraínu og skemmdarverk þeirra á innviðum í Evópu sem ógn við öryggi Bandaríkjanna“ heldur hafi hann og Vladimir Pútín Rússlandsforseti „enn á ný hafa sæst á yfirráð hvors annars yfir næstu nágrannaríkjum landanna.“
Þannig falla ítrekaðar yfirlýsingar Bandaríkjaforseta um „þörf“ á að ná yfirráðum yfir Grænlandi að slíkri skiptingu.
„Nánasta bandalagsríki Íslendinga í öryggis- og varnarmálum stefnir leynt og ljóst að því að taka yfir næsta nágrannaríki okkar. Markmið forsetans og erindreka hans ætti ekki lengur að vefjast fyrir neinum. Eini vafinn er hversu langt forsetinn er tilbúinn að ganga til að ná markmiðinu. Danska leyniþjónustan telur að Danmörku stafi hernaðarleg ógn af Bandaríkjunum,“ segir Baldur.
Hann veltir því upp hvort NATO-ríki stafi meiri hætta af Bandaríkjum Trumps en Rússlandi Pútíns. „Spurningin sem kemur upp í hugann í upphafi árs 2026 er hvort að Rússland sé ekki ólíklegra til að ráðast á NATO-ríki en Bandaríkin á NATO-ríkið Grænland.“
Þá varar hann við því að Ísland geti orðið aðili í slíkri sviðsmynd. „Þróist mál með þeim ólíklega hætti að Bandaríkin hertaki Grænland má allt eins gera ráð fyrir því að Ísland verði stökkpallur í þeirri aðgerð. Hvaða afleiðingar myndi það hafa í för með sér fyrir Ísland - bæði gagnvart vinaþjóðum okkar í Evrópu og Bandaríkjunum – ef innrásin yrði gerð frá Íslandi? Hafa íslensk stjórnvöld dregið upp þá sviðsmynd hvernig bregðast ætti við ef önnur eins ósköp myndu eiga sér stað?“
Bandaríkin vanvirða alþjóðalög
Baldur telur að ógnin frá Bandaríkjunum sem steðjar að Íslandi sé óbein og stafi af fyrrgreindri stefnumörkun. „Í fyrsta lagi veikir virðingarleysi Bandaríkjanna gagnvart alþjóðalögum og fullveldi ríkja, eins og Danmörku og ríkjum Suður-Ameríku, stöðu lítils ríkis eins og Íslands,“ segir hann.
Þá segir hann viðskiptahindranir Bandaríkjanna rýri viðskiptakjör Íslands og lífskjör almennings. Lítil ríki eigi allt undir því að stór ríki virði alþjóðalög og frjáls viðskipti.
„Í þriðja lagi boða stjórnvöld í Washington afskipti af innanríkismálum ríkja Evrópu,“ segir Baldur og vísar þar til Evrópukafla nýrrar þjóðaröryggisstefnu Donalds Trump. „Sú var tíðin að Bandaríkin studdu dyggilega við bakið á lýðræðishreyfingum í Evrópu - nú er boðaður stuðningur við andlýðræðisleg öfl – hreyfingar sem vilja takamarka frelsi og mannréttindi.“
Baldur bendir á að ríkisstjórn Íslands hafi styrkt varnartengslin við Bandaríkin, samhliða því að taka virkari þátt í öryggis- og varnarmálasamvinnu ríkja Evrópu. Þannig séu byggðar brýr bæði til Ameríku og Evrópu.
„Íslensk stjórnvöld frestuðu hins vegar undirritun á samstarfsyfirlýsingu um öryggis- og varnarmál við ESB eftir að í ljós kom að landið var ekki undanþegið verndaraðgerðum framkvæmdastjórnar ESB vegna kísiljárns. Hvort ætli sú frestun hafi nú verið meira högg fyrir Evrópusambandið eða Ísland?“
Evrópusambandið styðji alþjóðalög og lýðræði
Baldur lýsir því að Evrópusambandið hafi tekið breytingum og að það standi nú „upp í hárinu á rússneskum stjórnvöldum og leggur ofuráherslu á alþjóðalög, frjáls viðskipti, lýðræði og mannréttindi. Málefni sem skipta sköpum fyrir framtíð smáríkja eins og Íslands.“
Baldur, sem var varaþingmaður Samfylkingarinnar árin 2011 og 2012, hefur sem fræðimaður fjallað ítarlega um smáríkjakenningu og þörf smærri ríkja til að sækja sér skjól hjá stærri ríkjum.
Hann vísar nú til Evrópusambandsins sem valkosts fyrir Ísland, í samhengi við að Svíþjóð og Finnland hafa gengið í NATO og löndin tvö, ásamt Austurríki, gengu í Evrópusambandið eftir fall Sovétríkjanna.
„Ætli íslenskir jafnaðarmenn átti sig á umpólun alþjóðakerfisins árið 2026 og taki frumkvæðið í utanríkismálum?“ spyr Baldur.
Ríkisstjórnin hefur boðað þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið „eigi síðar en árið 2027“, en Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, dró árið 2015 aftur aðildarumsókn frá tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna frá árinu 2010. Í janúar í fyrra kom fram sú túlkun talsmanns stækkunarstjóra Evrópusambandsins að aðildarumsókn Íslands hefði aldrei verið „formlega“ dregin til baka, þrátt fyrir tilkynningu utanríkisráðherra.






















































Athugasemdir