Það eru nú liðin meira en þrjátíu ár síðan að snjórinn ruddist niður Súðavíkurhlíðina og reif skarð í samfélagið og þorpið. Átta börn og sex fullorðnir létust þegar snjórinn braut niður veggi húsanna þar sem þau sváfu. Öll stóðu þau í þeirri trú að þau væru örugg. Þeim hafði verið sagt það. Línan sem skildi á milli þess að vera öruggur og að vera í hættu lá meðfram húsveggjunum.
Það eru þó ekki nema nokkrir dagar síðan að rannsókn á hlutverki stjórnvalda í aðdraganda flóðsins var loksins birt. Tilraun til að svara spurningum sem foreldrar, börn og systkini þeirra sem létu lífið þennan kalda janúarmorgun árið 1995 hafa borið upp, aftur og aftur. Skýrslan er, við fyrsta lestur, góð fyrir það sem hún er. Nefndin virðist hafa tekið hlutverk sitt alvarlega og nálgast það af virðingu að svara þessum spurningum.
Skýrslan er þó ekki lokapunktur umræðunnar eða uppgjörsins. Hún mun heldur ekki græða sár, þó að vonandi verði hún þáttur í því að veita þeim sem hafa kallað svo lengi eftir henni, meiri ró. Árangurinn af skýrslunni og vinnu rannsóknarnefndarinnar verður aðeins mældur með viðbrögðunum sem fylgja. Því þó að áratugir séu nú liðnir er enn nóg til að læra af þeim hræðilegu mistökum og dómgreindarbresti sem átti sér stað í aðdragandanum.
Rannsókninni var ekki ætlað að fella dóma um einstaklinga eða draga þá til ábyrgðar. Það gerir hún enda ekki. En niðurstöður hennar fela í sér þungan dóm yfir kerfinu okkar sem heild. Sumt hefur verið fært til betri vegar en annað ekki.
Því hefur verið haldið fram að enginn hefði getað séð hamfarirnar fyrir og að þekking hafi ekki verið til staðar til að undirbúa samfélagið betur og gera skýrari áætlanir og hættumat. Það stenst þó illa þá mynd sem dregin er upp í rannsóknarskýrslunni. Því svo virðist sem pólitík, fjármál og persónulegar deilur hafi þegar upp er staðið haft afgerandi áhrif á það að byggt hafi verið undir hlíðinni, að snjóflóðavarnir hafi ekki verið reistar, og að fólki hafi verið sagt að það væri öruggt, héldu þau sig réttum megin við þunna línu.
Þetta er ekki á ábyrgð neins eins, en dregur fram hversu viðkvæmt kerfið okkar er.
Að hlusta á sérfræðinga
Gerð hættumats vegna snjóflóða í Súðavík fór fram innan reglugerðarlíkans sem sérfræðingar töldu bæði ófullkomið og óljóst að mörgu leyti. Sérfræðingar sem komu að snjóflóðamálum á þessum tíma bentu á að reglugerðarlíkanið tæki ekki nægjanlegt tillit til óvissu í gögnum og mælingum. Í skýrslunni kemur fram að þekking á snjóflóðum og hegðun þeirra væri enn takmörkuð, einkum hvað varðaði sjaldgæfa en stórfellda atburði. Þrátt fyrir það var krafan um afmörkuð hættusvæði sett fram með þeim hætti að niðurstaðan birtist sem tiltölulega skýr lína á korti, jafnvel þótt forsendurnar væru ótryggar.
Hættumatið í Súðavík er það fyrsta sem unnið var á Íslandi en strax í upphafi hafði mikilvægi þess að endurskoða það eftir því sem þekking myndi aukast og skilningur á aðstæðum myndi dýpka ítrekað. Heildarniðurstaða skýrslunnar er sú að reglugerðarlíkanið hafi skapað þá stöðu að óvissa í faglegum forsendum var ekki gerð sýnileg í niðurstöðunum. Hættumat sem byggði á ófullnægjandi gögnum, óljósum viðmiðum og reglugerð sem var í endurskoðun var engu að síður sett fram sem skýr aðgreining milli hættu og öryggis.
Úr varð að öðrum megin við útvegg húsanna við Túngötu í Súðavík var hætta, en hinum megin ekki. Þá er ónefnd sú staðreynd að fjöldi húsa og nýbyggður leikskóli voru sannarlega innan skilgreinds hættusvæðis.
Umfjöllun nefndarinnar um vinnu við hættumat annars staðar á landinu vekur ekki síður athygli. Verulegur ágreiningur reis til að mynda á Siglufirði og Seyðisfirði, þegar hættumat var fyrst í vinnslu þar. Þessi átök snerust ekki um tilvist snjóflóðahættu sem slíkrar, heldur um hvar hættumörk væru dregin og hvaða afleiðingar það hefði fyrir byggð, fasteignir og fjárhag sveitarfélaga.
Á Siglufirði dróst verulega að samþykkja hættumat fyrir bæinn, þar sem bæjarstjórn taldi hættumatslínuna setta neðar en tilefni væri til, með þeim afleiðingum að stór hluti byggðar félli innan skilgreinds hættusvæðis. Í gögnum sem rannsóknarnefndin skoðaði kemur skýrt fram að fjárhagsleg sjónarmið voru höfð mjög í frammi. Bæjaryfirvöld lögðu fram skrár yfir fasteignir sem lentu innan hættusvæðis, þar sem samanlagt verðmæti var metið á yfir 576 milljónir króna, og bentu á að slíkt hættumat hefði verulegar fjárhagslegar og samfélagslegar afleiðingar fyrir bæinn.
Ágreiningurinn varð langvinnur. Hann stóð yfir í nokkur ár og leiddi til þess að bæjaryfirvöld leituðu ítrekað til félagsmálaráðherra og kröfðust þess að staðfestingu hættumatsins yrði frestað.
Að hlusta á hvert annað
Rannsóknarskýrslan dregur svo líka upp mynd af öðru: samskiptum þeirra sem voru í ábyrgðarhlutverki nóttina fyrir snjóflóð.
Samkvæmt rannsóknarskýrslu Alþingis virðist nefnilega ekki hafa ríkt upplýsingaskortur í Súðavík kvöldið og nóttina áður en snjóflóðið féll. Þvert á móti áttu sér stað samskipti milli þeirra sem báru ábyrgð á almannavörnum, bæði innan sveitarfélagsins og við ríkisaðila. Vandinn var sá að samskiptin leiddu ekki til sameiginlegrar niðurstöðu eða ákvörðunar um aðgerðir.
Samskipti milli snjóathugunarmannsins Heiðars Guðbrandssonar og forystu sveitarfélagsins hafi verið erfið, bæði fyrir og eftir snjóflóðið. Þessir samskiptaörðugleikar virðast hafa haft áhrif á það hvernig ábendingar hans voru metnar í aðdraganda flóðsins. Því skal haldið til haga að þar stendur orð gegn orði, eins og formaður nefndarinnar sagði þegar skýrslan var kynnt á þriðjudag, um hvað hefði farið manna á millum.
Nokkuð óvænt staðfesti Össur Skarphéðinsson, sem þá var umhverfisráðherra, þær áhyggjur sem Heiðar hafði haft af snjóflóðahættunni, en hann kom fyrir rannsóknarnefndina og gaf skýrslu. Þar kom meðal annars fram að eftir að snjóflóð féll úr Súðavíkurhlíð að bænum Saurum árið 1994, hafi Heiðar hringt í hann tvisvar og borið upp við hann „mjög miklar áhyggjur sínar“. Össur hefði í kjölfarið sjálfur skoðað hættumatið fyrir Súðavík og „ekki þurft annað en að líta á það til að sjá að það var eitthvað skrítið við það“. Hann hafi því farið vestur ásamt ráðuneytisstjóra til að skoða aðstæður með eigin augum.
Í þeirri heimsókn hafi Heiðar farið með hann á svæðið við leikskólann, sem þá var nýbyggður, bent upp í gilið og sagt: „Snjóflóðið mun koma þaðan.“ Össuri var hins vegar líka ljóst í þessari ferð að hreppsnefndin tæki almennt ekki mikið mark á Heiðari og skoðunum hans. Fyrir nefndinni sagði Össur það „algjörlega klárt“ að hreppsnefndin hefði verið „mjög framstygg“ gagnvart Heiðari og hann verið „kominn með svolítið sigg því þau voru búin að vera að höggva í hann“.
Lærdómurinn
Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis er ekki sú að einn tiltekinn aðili hafi brugðist skyldum sínum af ásetningi. Þess í stað er dregin upp mynd af óskýrum samskiptum, óskýrri ábyrgð, og því sem varla verður lýst öðruvísi en persónulegum ágreiningi.
Stjórnmálafólki er falið það hlutverk að taka ákvarðanir fyrir samfélagið. Lærdómurinn sem verður að draga af skýrslu rannsóknarnefndarinnar hlýtur meðal annars að þurfa að vera sá að hlusta á sérfræðinga þegar þeir vara við hættu, og að vinna saman að ákvörðunum, hlusta hvert á annað og sýna því virðingu þegar fólk á annarri skoðun reynir að vara þig við.
Snjóflóðavarnir eru komnar víða og unnið er að því að klára loks þær sem áætlað er að reisa. Snjóflóð eru hins vegar ekki eina hættan sem steðjar að, það sjáum við til að mynda í eldsumbrotum við Grindavík. Það hefur líka orðið afturför þegar kemur að þeirri sjálfsögðu kröfu að fram fari óháðar rannsóknir í kjölfar almannavarnarástands.
Við ættum að læra að láta það ekki hjá líða í þrjá áratugi að veita þeim sem kalla, réttilega, eftir svörum áheyrn.



















































Athugasemdir