Kona sem reyndi að slíta sambandi við sambýlismann sinn varð fyrir alvarlegum og langvarandi hótunum mannsins, sem nú hefur verið dæmdur í skilorðsbundið fangelsi, án þess að þurfa að afplána dóminn.
Dómsmálið sýnir hversu langt andlegt ofbeldi getur teygt sig og svo hversu takmörkuð refsing er við athæfinu.
Langvarandi hótanir
Það var skömmu fyrir jólin 2023 sem konan fór að fá alvarlegar hótanir frá manninum, sem hún vildi slíta sambandi við.
Hann hótaði í smáskilaboðum bæði henni dauða og svo sjálfsvígi.
„Ég er að hóta þér. Þú munt ekki yfirgefa mig. Bara dauð eða dauður, ég,“ skrifaði hann.
Sama dag endurtók hann hótanir sínar. „„Ég drep þig [...], ég drep þig [...],ég drep þig.“
Hann víkkaði síðan út hótanirnar. „Ég er að hóta þér, A, fjölskyldu þinni og öllum. Þú munt ekki yfirgefa mig svona, nei.“
Lýsingar ofbeldis
Nokkrum mánuðum síðar, í maí í ár, fóru hótanirnar yfir á næsta stig. Hann sendi konunni, sem hafði slitið samvistum við hann, hljóðskilaboð með ítarlegum lýsingum á fyrirætlunum sínum.
„Þú munt sjá, sjáðu, ef ég ekki ríf þig í tvennt, opna ég magann á þér, tek magann þinn út. Spýttu framan í mig, bíddu bíddu svo þú sjáir endalok þín, og sjáir hvernig ég ætla að gera það.“
Fimm dögum síðar héldu hótanirnar áfram. „Ég næ í fjölskyldu þína lifandi eða dauða,“ sagði hann í hljóðskilaboðum. „Þú færðir mig hingað aftur, ég ætla að drepa þig tík,“ bætti hann við.
Aðferðir hans til að reyna að kúga konuna til fylgilags við sig snerust þannig ekki aðeins að hótunum heldur tilraunum til að setja hana niður og smána með orðum.
Hótaði að grafa upp afa hennar
Þegar ekki gekk hjá manninum að ná stjórn á konunni með fyrrgreindum hótunum, bætti hann í þær og reyndi að smána fjölskyldu hennar. Hann fór að smána fjölskyldu hennar og gekk svo langt að hóta henni að svívirða lík afa hennar, þegar konan lét ekki að stjórn.
„Ef þú ert alvöru, komdu út og segðu það við andlitið á mér tík, [...] Komdu út tík, komdu út, helvítis tík. Mamma þín er tík. Þú ert tík eins og hún,“ sagði hann og hét áframhaldandi hótunum.
„Sjáðu, ég ætla að grafa upp afa þinn.“
„Ég ætla ekki að gefast upp. Nú er stríðið hafið. Nú ætla ég að segja þér aðeins, nú ætla ég að tala um móðurina sem fæddi þig. Ef ég lem þig ekki, ef ég brýt ekki hausinn á þér. Ég brýt hausinn þinn þegar ég sé partana úr afa þínum. [...] Af hverju kemurðu ekki út, tík ? Hóra! Það var gaur sem reið systur þinni. Fjórir gaurar sem riðu mömmu þinni. [...]Sjáðu, ég ætla að grafa upp afa þinn. Heyrðu. Þú munt hringja grátandi eftir að ég geri það, þú ert að neyða mig núna. Ég lofa þér, áður en þetta klárast, ætla ég að stinga þig og fara í fangelsi. [...] Ég ætla að stinga þig.“
Játaði og iðraðist
Eftir að yfirvöld gripu inn í samskipti hans við fyrrverandi sambýliskonuna kaus maðurinn að játa og iðrast. Hann hafði ekki verið dæmdur fyrir brot áður.
„Ákærða til málsbóta er litið til þess að hann játaði brot sitt skýlaust og iðraðist háttsemi sinnar,“ segir í dómnum við Héraðsdóm Reykjavíkur, sem féll 8. desember.
Konan hafði farið fram á bætur upp á 2,5 milljónir króna vegna áreitisins og hótananna. „Verður skýrt ráðið að hún upplifði mikla vanlíðan og óöryggi vegna háttsemi hans,“ segir í dómnum. „Þykir fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðin, með hliðsjón af atvikum, 400.000 krónur,“ segir svo.
Sem fyrr segir mun maðurinn ekki þurfa að afplána 90 daga fangelsisdóm sem hann fékk, brjóti hann ekki af sér á ný.
Langvarandi áhrif andlegs ofbeldis
Samkvæmt sérfræðingum hefur andlega ofbeldið jafnvel verri áhrif á líf og sálarheill þolenda heldur en sár sem gróa því áhrif þess eru svo lúmsk, langvarandi og víðtæk. Stundin, forveri Heimildarinnar, fjallaði ítarlega um áhrif andlegs ofbeldis með viðtöl við þolendur þess árið 2021.
Tölfræði Kvennaathvarfsins sýnir að 94% þeirra sem þangað leita hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi. Samkvæmt tölum Evrópusambandsins um kynbundið ofbeldi hafa 18% af konum, sem hafa verið í sambandi, upplifað líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi. Hlutfallið hækkar í 32% ef andlegt ofbeldi er tekið með inn í myndina. Þannig hefur þriðjungur kvenna í ESB átt maka sem beitir ofbeldi.
Hægt er að kynna sér mynstur og aðferðir í ofbeldismálum og leiðir til að losna, í ofbeldisgátt á vefnum 112.is. Þar er hægt að fá upplýsingar um muninn á slæmum samskiptum og ofbeldi og fá beina aðstoð.
„Ef þú ert alvöru, komdu út og segðu það við andlitið á mér tík, [...] Komdu út











































Athugasemdir (1)