Hvernig hrun?
Það hrun siðmenningar sem Snorri Másson og Donald Trump Bandaríkjaforseti tala um í samhljómi snýst um að innflytjendur muni skipta út mannfjöldanum í Evrópu, sem lifir við lága fæðingartíðni. Þetta hefur verið kallað stóra útskiptikenningin, eða Great Replacement Theory. Margir þekkja hana frá því að hvítir þjóðernissinnar undir kyrjuðu slagorði: „Þið munið ekki koma í stað okkar“, eða You Will Not Replace Us, í mótmælum í Virginíu 2017, sem gengu undir nafninu Sameinum hægrið, eða Unite the Right Rally.
Mannfjöldakrísan
Auðvelt er að sjá tölur sem sýna að Snorri Másson hefur rétt fyrir sér um lækkun fæðingartíðni og fjölgun innflytjenda. Á síðustu átta árum hafa liðlega 40 þúsund manns flutt til Íslands umfram brottflutta, sem er mesti aðflutningur í sögu landsins. Fæðingartíðnin hefur frá 1960 fallið úr 4,27 fædd börn á hverja konu í 1,56. Í Bandaríkjunum er fæðingartíðni 1,6. Í löndum eins og Ítalíu er hún fallið niður í 1,11. Í Kóreu 0,7. Það þarf 2,1 börn á hverja konu til þess að viðhalda mannfjöldanum. Meðaltalið í heiminum er núna 2,2.
Þannig hefur fæðingartíðnin í öllum heiminum fallið, en henni er haldið uppi af vanþróaðri ríkjum í Afríku. Vandamálið snýr því ekki að hinum vestræna heimi, enda er fæðingartíðni í Kína það lág, aðeins um 1,0, að þjóðinni fækkar. Í stuttu máli virðist þessi skilgreining á ógn við vestræna siðmenningu vera sú að svörtu fólki í Afríku er að fjölga, á meðan fækkar yfirleitt annars staðar, en það skýrist líklega helst af minni velmegun og síðri stöðu kvenna þar.
Vandamálinu stolið
Annar annmarki við kenningu Snorra Mássonar um yfirvofandi endalok siðmenningar er það sem Sigríður Andersen, þingflokksformaður Miðflokksins, viðurkenndi fyrir tveimur vikum, að verið væri að þrengja verulega að aðflutningi fólks á Íslandi. „Viðreisn er að taka upp málflutning Miðflokksmanna,“ sagði hún og vísaði þar til Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra, sem er að framfylgja harðari útlendingastefnu en áður.
Hvað varðar innflytjendur á Íslandi koma langflestir þeirra þó frá öðrum Evrópuríkjum og leysa þar með ekki upp evrópska siðmenningu með komu sinni, þótt það sé sýnilega komið að þolmörkum með getu landsins og vilja yfirvalda til að tryggja aðlögun og tungumálalærdóm innflytjenda.
Á móti má færa rök fyrir því að mannfækkun, eða lægri fæðingartíðni sem vegin er upp að hluta með lengri lífaldri, muni leysa mörg af helstu óleysanlegu vandamálum Íslendinga.
Hún er líkleg til að leysa húsnæðiskreppu landsmanna, draga úr verðbólgu, stytta biðlista leikskóla, minnka álag á vissa innviði og lækka himinháa húsnæðislánavexti okkar, sem eru vissulega á mörkum siðmenningar. Öldrun og fækkun hefur þó fyrirsjáanlega slæm áhrif á framleiðni og hagvöxt og veldur álagi á heilbrigðiskerfið, þótt sjálfvirknivæðing geti vegið upp á móti.
Hrun mannúðar
Fjölmargir sérfræðingar viðra stöðugar áhyggjur sínar af þróun hins vestræna heim, sem stangast þó alveg á við skoðanabræðurna Donald Trump og Snorra Másson.
Það er að stjórnmálastefnu þeirra hafi víða fylgt valdasamþjöppun, sem sé hin raunverulega ógn við vestræna siðmenningu, enda hafi vestræn siðmenning fyrst og fremst einkennst af lýðræði og tengdum gildum umfram aðra siðmenningu.
Í stuttu máli ganga þær áhyggjur út á aðra skilgreiningu á vestrænni siðmenningu, að hún feli í sér mannréttindi, virðingu, alþjóðareglur, fjölbreytileika, frjáls viðskipti, valddreifingu og opið samfélag, frekar en tiltekinn kynþátt eða þjóðerni, sem skoðanabræðurnir á hægri vængnum setja skör ofar hinu í yfirvofandi tilvistarkreppu.
Í þessari skilgreiningu á vestrænni siðmenningu er hún að taka yfir heiminn með því að fá fólk frá öðrum löndum til að ganga til liðs við sig - fólk sem vill búa í frjálsum og frjálslyndum löndum.
Íslensk menning getur vel hugsanlega farið halloka innan vestrænnar siðmenningar, með því að þróast í takt við alþjóðavæðingu eða breytast við óheftan aðflutning fólks.
En þeir sem ógna vestrænni og evrópskri siðmenningu, frá þessum sjónarhóli séð, eru ekki innflytjendur, sem byggðu upp Bandaríkin og hafa einkennt vestræn ríki síðustu áratugi, heldur þeir sem brjóta gegn þessari skilgreiningu: Ala á andúð gegn fjölbreytileika fólks, hindra frjáls viðskipti, svipta fólk réttindum og virðingu og ganga jafnvel svo langt að drepa það, oft á grundvelli þjóðernis eða kynþáttar.
Eitt af orðum síðustu ára er „mannúðarkrísa“, þegar aflokað fólk er svelt, heimili þess jöfnuð við jörðu og margt þeirra drepið með loft- og skotárásum, undir stjórn helsta bandamanns Bandaríkjanna.
Verðugur verðlauna
Bæði formaður Miðflokksins og þingmaður hafa notað ræðutíma sinn á Alþingi í að benda á þann möguleika að Íslendingar veiti forsetanum „einhvers konar verðlaun“, eins og framkvæmdastjóri FIFA gerði á föstudag, eða tilnefni hann til friðarverðlauna Nóbels.
Donald Trump hefur engu að síður færst fjær nánast öllum þeim atriðum sem einkenna vestræna siðmenningu, samkvæmt fyrrgreindri skilgreiningu.
Hann er byrjaður að láta drepa fólk, vinnur að valdasamþjöppun, dregur úr vægi alþjóðalaga og brýtur gegn þeim, leggur til dæmis viðskiptaþvinganir á dómara Alþjóðasakamáladómstólsins, dregur úr stuðningi við og beitir sér í meiri mæli gegn Úkraínu sem verst innrásarstríði, stundar fjöldahandtökur á fólki frá Rómönsku Ameríku, hótar innrásum norður og suður og sýnir fólki, sérstaklega konum í fjölmiðlum, djúpstæða vanvirðingu með því að kalla þær „heimskar“, „ljótar“, „svínku“ og segja þeim að þegja.
Og nú er hann, í samræmi við nýja þjóðaröryggisstefnu sína, með herlið í nálægð við Venesúela, sem hann segist ætla að nota til að „drepa fólk“ á láði og legi.
„Við ætlum bara að drepa fólk sem kemur með eiturlyf til landsins,“ sagði hann. Sömuleiðis hefur hann víkkað út skilgreiningu á hryðjuverkum þannig að það innifelur andfasisma og þau sem styðja þá, hvernig sem andfasisti skilgreinist öðruvísi en andstæðingur hans.
Andfasísk siðmenning Vesturlanda
Ef eitthvað hefur skilgreint vestræna siðmenningu umfram annað er það ekki bara Seinni heimsstyrjöldin heldur áfallið sem varð þegar hersveitir bandamanna komu inn í útrýmingarbúðir fasista 1945, þar sem tekin voru myndbönd af fjöldagröfum og horuðum föngum, sem höfðu ekkert gert annað en að vera fólk af ákveðnum uppruna eða kynhneigð eða andstæðingar stjórnvalda. Þessi myndbönd af afmennskun nasista voru síðan sýnd í kvikmyndahúsum á Vesturlöndum.
Þetta hefur orðið svo algeng tilvísun í þjóðfélagsumræðu Vesturlanda að orðið hefur til skilgreining á rökvillu þess að vísa stöðugt til þess, reductio ad hitlerum.
En þarna var hún, skilgreiningin á vestrænni siðmenningu næstu áratugina á eftir, í ljósi þess sem hún vildi aldrei verða. Tilgangsyfirlýsing hennar var að berjast gegn vondum, árásgjörnum mönnum sem drepa aðra til að yfirbuga þá eða útrýma þeim, vegna þess að fólk af ákveðnum uppruna teljist óæskilegt og óæðra.
Ekki að þetta sé algild skilgreining í sögunni, hjá vestrænni siðmenningu sem var oft sek um hræsni og hafði einmitt nýtt getu sína í útþenslu og valdbeitingu með því að gera margt það versta sem hún skilgreindi sig síðar gegn.
Margir drepa
En hann er drápari, sagði fréttamaðurinn Bill O'Reilly við Trump 2017, um Vladimír Pútín Rússlandsforseta.
„Það eru margir dráparar. Heldurðu að landið okkar sé svo saklaust?“ svaraði Trump.
„Mörgum var illa við hann,“ sagði Trump um sádíska blaðamanninn og gagnrýnandann Khashoggi sem krónprinsinn af Sádí Arabíu lét myrða, sundurlima og farga þegar hann sótti brúðkaupsvottorð sitt í sendiráðið í Tyrklandi.
„Ég gæti skotið einhvern á Times Square og myndi ekki missa neina kjósendur,“ sagði Trump 2016. Og nú er eitt helsta umræðuefnið orðið hvort Trump megi láta drepa grunaða fíkniefnasmyglara án dóms og laga.
Ríkisstuddur innflutningur þjóðernishyggju
Miðflokkurinn hefur ekki áhyggjur af þessu falli siðmenningar, heldur tekur undir söguþráð Trumps um útskiptin og reynir að vefa hann inn í íslenska stjórnmálamenningu, í stað þess að láta sér nægja að tala fyrir þjóðrækni og raunverulegum aðgerðum til að vernda íslenska menningu.
Það gæti þó borgað sig, virðist vera, nú þegar Bandaríkin ætla að beita afli sínu til að rækta upp andstöðu í Evrópuríkjum við Evrópusamvinnu. Það gæti til dæmis birst í því að hafa áhrif á vellauðuga eigendur samfélagsmiðlanna, sem þurfa á náð Trumps að halda, til þess að breyta ógagnsæjum algóriþma þeirra og lyfta fréttum af glæpum innflytjenda og boðskap Snorra Mássonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, samhliða niðurfærslu á gagnrýnendum þeirra og pólitískum andstæðingum.
Í nýju þjóðaröryggisstefnu Trumps er ekki einangrunarstefna, heldur fjölpóla heimssýn. Hún gengur út á að Bandaríkin hætti að reyna að breiða út lýðræði og byrji að gæta hagsmuna sinna með því að stjórna áhrifasvæði sínu í Norður- og Suður-Ameríku. Þetta ber keim af því að Bandaríkin muni vera til í að skipta heiminum í auknum mæli milli sterkra hervelda, enda munu þau líka geta notið góðs af því.
Annað í nýju þjóðaröryggisstefnunni er aukinn samruni viðskipta og pólitíkur í Bandaríkjunum, þar sem Bandaríkin munu minna einbeita sér af því að halda aftur af einræðisríkjum og þess meira líta á þau sem uppsprettu fjármagns. Strax á fyrsta degi varð ljóst að Bandaríkin vilja brjóta niður regluverk Evrópusambandsins, sem hefur sett skilyrði um samkeppni og gagnsæi tæknifyrirtækja.
Daginn eftir kynningu þjóðaröryggisstefnunnar kallaði Elon Musk, ríkasti maður heims, eftir því á samfélagsmiðlinum X, sem hann á, að Evrópusambandið yrði leyst upp, eftir að X var sektað af sambandinu fyrir að brjóta gegn reglum um gagnsæi. Aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna sendi sama dag frá sér færslu á Facebook, sem sendiráðið í Brussel deildi, þar sem Evrópusambandsríki voru gagnrýnd fyrir að óska eftir aðstoð Bandaríkjanna sem NATO-ríki en ynnu á sama tíma að stefnu, sem ESB-ríki, sem „er algerlega öfug við hagsmuni Bandaríkjanna“.
Íslendingar þurfa því að búa sig undir aðgerðir Bandaríkjanna ef almenningur kýs með því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Á síðustu vikum hefur Trump hótað almenningi í Argentínu og Hondúras neikvæðum afleiðingum ef hans frambjóðandi yrði ekki kjörinn.

Endalok sögunnar – Endalok siðmenningar?
Undir aldarmótin vorum við komin að „endalokum sögunnar“, með endanlegum sigri lýðræðisins, samkvæmt frægum úrskurði Francis Fukuyama.
Það var eftir að Sovétríkin féllu, í kjölfar þess að Gortbatsjov hafði reynt á tvær áætlanir: „Glasnost“ og „perestrojka“, eða opnun og breytingu.
Núna er unnið að lokun og afturhaldi, í orði kveðnu, en á borði er valdasamþjöppun og valdbeiting mikilvægasta breytingin.
Það er áhyggjuefni fyrir Íslendinga ef innflytjendum fjölgar meira en svo að hægt sé að aðlaga þá að samfélaginu. En við getum brugðist við því á eigin forsendum.
Meira áhyggjuefni er að Bandaríkin hafi tekið upp stefnu sem felur í sér að hafa áhrif á kosningar í Evrópulöndum, eins og Íslandi, til að koma flokkum til valda sem eru eins og Miðflokkurinn, sem nú þegar er byrjaður að daðra við Trump.
Enn meiri áhyggjur þurfum við að hafa af því að Bandaríkin líti ekki lengur á hornstein vestrænnar siðmenningar, lýðræði, sem neitt forgangsmál, og að hornsteinn íslenskrar öryggisstefnu sé að treysta á þau, á meðan þau yfirgefa alþjóðalög í skiptum fyrir rétti þeirra sterku.
Það er rétt hjá Snorra Mássyni að vestræn siðmenning í núverandi mynd gæti liðið undir lok.
En hann er öfugum megin sögunnar.



















































Athugasemdir