„Við eyðum óvissu um framtíð Reykjavíkurflugvallar en hann verður festur í sessi og rekstraröryggi hans tryggt,“ sagði Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra á blaðamannafundi í dag þar sem hann kynnti nýja samgönguáætlun fyrir árin 2026-2040.
Sagði hann að strax á næsta ári yrði hafist handa að undirbúa byggingu nýrrar flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli. „Sem mun leysa af hólmi þá sem er komin til ára sinna.“ Þá yrði tekinn í notkun nýr fjarðstýrður flugturn á vellinum á sama ári auk þess sem ráðist verði í endurbætur á aðflugsljósum.
Í samgönguáætluninni segir að rekstraröryggi flugvallarins verði tryggt a meðan annar jafn góður, eða betri, kostur er ekki fyrir hendi.
Staðsetning Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri í Vesturbæ Reykjavíkur er mjög umdeilt pólitískt mál. Virðist ríkisstjórnin vera með þessum áætlunum vera að festa staðsetningu hans í sessi í trássi við vilja meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkurborgar. Á fundinum sátu innviðaráðherra og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra fyrir svörum um einmitt þetta.
Eyjólfur sagði að ekki hefði tekist að finna annan valkost annan en Reykjavíkurflugvöll. „Á meðan Reykjavíkurflugvöllur er þarna þá er flugvöllur þarna. Það verður að tryggja rekstraröryggi og flugöryggi,“ sagði hann og benti á að núverandi flugstöð væri frá árinu 1946.
„Sjálfsögð ákvörðun,“ segir forsætisráðherra
Kristrún sagði að málið hefði ekki verið rætt innan ríkisstjórnar með þeim hætti hvort það ætti að festa flugvöllinn í sessi eða ekki. Staðreyndin væri sú að það væri ekki annað stæði fyrir flugvöll komið. „Það mun taka einhverja áratugi – 10, 15, 20 ár að klára það,“ sagði hún og benti á að í millitíðinni þyrfti að tryggja innanlandsflug í landinu,
„Mér finnst þetta svo sjálfsögð ákvörðun og setning að það eigi að styrkja Reykjavíkurflugvöll á meðan það er ekki annar kostur fyrir hendi. Mér finnst þetta augljós staða. Við getum ekki látið þennan mikilvæga flugvöll grotna niður á meðan það eru ekki aðrir kostir í stöðunni.“
Ef aðrir kostir byðust yrði það tekið fyrir í ríkisstjórn. „En við erum ekki á þeim stað ennþá,“ sagði forsætisráðherra.














































Athugasemdir