Íslensk ríkisfyrirtæki og -stofnanir hafa á síðustu tíu árum greitt tvo milljarða til hagsmunasamtaka á borð við Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands. Landsbankinn og Landsvirkjun greiða lang mest.
Greiðslur ríkisaðila til samtakanna hafa vaxið úr 111 milljónum króna árið 2015 í 245 milljónir í ár, en aldrei hafa hærri gjöld verið greidd til slíkra samtaka og á yfirstandandi ári.
Þetta kemur fram í svari Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar, þingmanns Samfylkingar og fyrrverandi forseta Alþýðusambands Íslands.
Upplýsingarnar í svari Daða Más taka til ríkisfyrirtækja og -stofnana sem greitt hafa til Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka þeirra. Það eru Samtök verslunar og þjónustu, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök fjármálafyrirtækja.
Svo virðist sem svarið nái aðeins til þeirra fyrirtækja sem eru í eigu ríkisins í dag, en á tímabilinu sem svarið tekur til átti ríkið kjölfestuhlut í Íslandsbanka, sem er aðili að þeim samtökum sem um ræðir. Má ljóst vera að fjárhæðirnar séu því í raun enn hærri en fram kemur.
Heildargreiðslur fyrirtækjanna sem um ræðir:
- Landsbankinn: 802.039 milljónir
- Landsvirkjun: 451.909 milljónir
- Isavia: 250.003 milljónir
- RARIK: 208.735 milljónir
- Landsnet: 165.976 milljónir
- Íslandspóstur: 78.378 milljónir
- Matís: 26.346 milljónir
- Harpa ohf.: 23.603 milljónir
- Neyðarlínan: 11.778 milljónir
- Orkubúið: 11.264 milljónir
- Farice: 7.331 milljónir
- Betri samgöngur: 1.195 milljónir
Landsbankinn greiðir einn til Samtaka fjármálafyrirtækja og fyrirtækin Landsvirkjun, RARIK, Landsnet, og Orkubúið greiða til Samorku, sem eru samtök orkufyrirtækja. Isavia, sem rekur flugvelli landsins, greiðir líka til samtakanna samkvæmt svarinu.
Samtök atvinnulífsins og undirfélög þess fara gjarnan með samningsumboð fyrirtækja í kjaraviðræðum við launafólk, auk þess að gæta hagsmuna fyrirtækja gagnvart stjórnvöldum.
Betri samgöngur, Farice, Íslandspóstur, Landsbankinn, Landsnet, Landsvirkjun, og RARIK eru félagar í Viðskiptaráði Íslands, og greiða félagsgjöld til samtakanna.
Viðskiptaráð fer ekki með samningsumboð og er sameiginlegur vettvangur íslensks viðskiptalífs. „Alla þá tíð hefur tilgangur þess verið sá sami, að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum atvinnulífs, óháð atvinnugreinum eða stærð fyrirtækja, og að efla frjálsa verslun og framtak,“ segir um samtökin á vefsíðu þess.












































Athugasemdir