Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, kallaði í dag eftir „sjálfstæðari“ Evrópu og róttækum umbótum á innri markaði Evrópusambandsins, sem hann sagði hafa orðið að „skrifræðislegu skrímsli“.
„Við verðum að verða fullvalda, sjálfstæðari á ýmsum pólitískum og efnahagslegum sviðum,“ sagði hann á málþingi á vegum dagblaðsins Süddeutsche Zeitung.
„Við getum ekki lengur reitt okkur á að Ameríka verji okkur, að Kína útvegi okkur hráefni og að Rússland verði aftur reiðubúið til friðar einhvern tímann,“ sagði Merz.
Merz talaði daginn fyrir leiðtogafund í Berlín þar sem hann og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, munu þrýsta á um aukið stafrænt fullveldi Evrópu og að draga úr ósjálfstæði gagnvart bandarískum tæknirisum.
Hann minntist þess að hafa „tekið þátt í stofnun innri markaðarins“ á níunda áratugnum en harmaði jafnframt að hann væri orðinn „að mörgu leyti skrifræðislegt skrímsli,“ þvert á áform stofnenda hans.
Mörg fyrirtæki víðs vegar um Evrópu hafa á tilfinningunni að innri markaðurinn „geri ekki svo mikið til að auka frelsi heldur takmarki það ítrekað“, sagði Merz.
„Við verðum að breyta þessu saman.“
Í febrúar verður haldinn sérstakur fundur leiðtoga ESB þar sem rætt verður um leiðir til að draga úr skrifræði og auka samkeppnishæfni iðnaðar í álfunni.
Fyrr á þessu ári kölluðu Merz og Macron eftir því að evrópsk lög sem krefjast þess að stór fyrirtæki bæti fyrir „neikvæð áhrif á mannréttindi og umhverfi“ í aðfangakeðjum sínum um allan heim yrðu afnumin.
Í síðustu viku sameinuðust mið-hægri og öfgahægri flokkahópar á Evrópuþinginu um að styðja veikingu lagasetningarinnar, sem olli mikilli óánægju meðal miðju- og vinstri sinnaðra þingmanna.













































Athugasemdir