Það er orðið nánast ómögulegt fyrir fólk að greina muninn á tónlist sem er búin til með gervigreind og tónlist sem er samin af mönnum, samkvæmt könnun sem birt var í dag.
Skoðanakannanafyrirtækið Ipsos bað 9.000 manns að hlusta á tvö brot af tónlist sem búin var til með gervigreind og eitt brot af tónlist sem samin var af mönnum í könnun sem gerð var fyrir frönsku streymisveituna Deezer.
„Níutíu og sjö prósent gátu ekki greint muninn á tónlist sem var alfarið búin til með gervigreind og tónlist sem samin var af mönnum,“ sagði í tilkynningu frá Deezer.
Könnunin var birt á sama tíma og kántrílag með söngrödd karlmanns sem búin var til með gervigreind náði toppi bandarískra vinsældalista í fyrsta sinn í þessari viku.
Lagið „Walk My Walk“, sem tónlistarmaðurinn Breaking Rust, eða Ryðbrjótur, gaf út með þessum eftirsóknarverða árangri, var ekki samið af manneskju. Og Ryðbrjótur sjálfur er ekki mennskur. Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá að sé knúinn af skapandi gervigreindartækni – náði efsta sætinu á lista Billboard-tímaritsins yfir stafræna sölu kántrílaga, samkvæmt gögnum sem birt voru á mánudag.
Í texta lagsins segir höfundur frá því hvernig hann hefur yfirstigið erfiðleika og rís upp í krafti seiglunnar. „Gekk í gegnum helvíti, en er enn á lífi,“ syngur Ryðbrjótur.
Deezer sagði að meira en helmingur svarenda í könnuninni hefði fundið fyrir óþægindum yfir því að geta ekki greint muninn.
Skoðanakannanir spurðu einnig almennari spurninga um áhrif gervigreindar og sögðu 51 prósent að tæknin myndi leiða til meiri lággæðatónlistar á streymisveitum og næstum tveir þriðju töldu að hún myndi leiða til minni sköpunargáfu.
„Niðurstöður könnunarinnar sýna greinilega að fólki er annt um tónlist og vill vita hvort það sé að hlusta á lög búin til með gervigreind eða af mönnum,“ sagði Alexis Lanternier, forstjóri Deezer.
Eitt af hverjum þremur streymdum lögum búið til með gervigreind
Deezer sagði að ekki aðeins hefði orðið aukning á efni sem búið er til með gervigreind og hlaðið er upp á veituna, heldur finni það einnig hlustendur.
Í janúar var eitt af hverjum tíu lögum sem streymt var daglega alfarið búið til með gervigreind. Tíu mánuðum síðar hefur þetta hlutfall hækkað í meira en eitt af hverjum þremur, eða næstum 40.000 á dag.
Áttatíu prósent svarenda í könnuninni vildu að tónlist sem er alfarið búin til með gervigreind væri greinilega merkt fyrir hlustendur.
Deezer er eina stóra tónlistarstreymisveitan sem merkir kerfisbundið efni sem er alfarið búið til með gervigreind fyrir notendur.
Velvet Sundown reyndist gervigreind
Málið komst í hámæli í júní þegar hljómsveit sem kallast The Velvet Sundown varð skyndilega gríðarlega vinsæl á Spotify og staðfesti ekki fyrr en í næsta mánuði að um væri að ræða efni sem búið var til með gervigreind.
Vinsælasta lagi gervigreindarhljómsveitarinnar hefur verið streymt meira en þremur milljónum sinnum.
Til að bregðast við þessu sagði Spotify að það myndi hvetja listamenn og útgefendur til að skrifa undir sjálfviljugan siðareglna-samning til að upplýsa um notkun gervigreindar í tónlistarframleiðslu.
Könnun Deezer var gerð á milli 6. og 10. október í átta löndum: Brasilíu, Bretlandi, Kanada, Frakklandi, Þýskalandi, Japan, Hollandi og Bandaríkjunum.
















































Athugasemdir