Finnbjörn A. Hermannson, forseti Alþýðusambands Íslands, gagnrýnir harðlega fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur og segir að þar birtist forgangsröðun sem brjóti gegn grunnstoðum íslensks velferðarsamfélags.
Í grein sem hann skrifar á Vísi í dag spyr Finnbjörn hvaða sýn forsætisráðherrann hafi á það velferðarsamfélag sem byggt hefur verið upp áratugum saman. Hann segir framgöngu ríkisstjórnarinnar benda til þess að ráðherrar hafi hvorki sögulega yfirsýn né virðingu fyrir þeirri samfélagslegu vinnu sem leiddi Ísland úr fátækt til velferðar.
„Í niðurskurðarfjárlögum núverandi ríkisstjórnar er svonefndum „aðhaldsaðgerðum“ beint að íslensku launafólki og sérstaklega þeim hópum sem neðst standa í tekjustiganum,“ skrifar Finnbjörn.
Hann nefnir að skerðingarnar felist meðal annars í styttingu á bótatímabili atvinnuleysistrygginga úr 30 mánuðum í 18, óbreyttum barnabótum og húsnæðisbótum þrátt fyrir verðbólgu, auknum kostnaðarhlut sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og niðurskurði í framhaldsfræðslu og íslenskukennslu.
„Þarna opinberast forgangsröðun ríkisstjórnarinnar því allt eru þetta pólitískar ákvarðanir,“ segir hann.
Ríkisstjórnin rjúfi samstarf og traust
Finnbjörn segir að ákvörðun um að stytta bótatímabilið hafi verið tekin án samráðs við verkalýðshreyfinguna, þvert á hefð og samkomulag sem hafi gilt frá miðri síðustu öld.
„Þess í stað kýs ráðherrann að splundra þríhliða samstafi aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda með einhliða ákvörðun um réttindaskerðingu atvinnuleitenda,“ skrifar hann.
„Almenningur í landinu getur ekki átt allt sitt undir velvilja stjórnvalda hverju sinni“
Hann bendir á að íslenskur vinnumarkaður sé sveiflukenndur og sveigjanlegur, með lágar girðingar í kringum uppsagnir, og að langt bótatímabil sé nauðsynlegt við slíkar aðstæður.
Kallar ákvörðunina aðför að launafólki
Finnbjörn segir verkalýðshreyfinguna reiðubúna til að ræða umbætur í atvinnuleysistryggingakerfinu, en að ríkisstjórnin hafi hafnað því samtali. Það sé hins vegar nauðsynlegt að eiga samráð um jafn stórar breytingar og nú eru boðaðar.
„Almenningur í landinu getur ekki átt allt sitt undir velvilja stjórnvalda hverju sinni – um slík réttindi hefur verið samið og samningar skulu standa,“ segir Finnbjörn.
„Einhliða ákvörðun ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur um skerðingu atvinnuleysistrygginga er aðför að launafólki á Íslandi, réttindum þess og kjörum. Verkalýðshreyfingin getur hvorki sætt sig við form né inntak þeirrar ákvörðunar,“ skrifar hann að lokum.















































Athugasemdir