Ótal sögur eru til um óprúttna aðila sem tekið hafa vörur í verslunum ófrjálsri hendi. Margir hafa líka í viðtölum í fjölmiðlum og ævisögum játað að hafa gerst fingralangir og stungið á sig ýmsu smálegu, einkum á yngri árum. Það yrði efni í margar bækur ef allir sem stolið hafa úr dönskum verslunum á síðustu árum segðu sögu sína en í fyrra voru samtals 27.625 slíkir þjófnaðir tilkynntir til lögreglu, 76 á hverjum einasta degi. Það er talsverð aukning frá árinu á undan en slíkum tilkynningum hefur fjölgað ár frá ári.
Tyveri eða røveri, þjófnaður eða rán
Danir nota tvenns konar orð um það þegar eitthvað er tekið ófrjálsri hendi. Ef einhver stingur á sig kexpakka í búð og hleypur á dyr kallast það þjófnaður, en ef þjófurinn dregur upp hníf eða skotvopn og hefur í hótunum er talað um røveri, rán. Sömuleiðis er talað um rán ef miklum verðmætum er stolið, til dæmis hraðbanka eða fokdýrum armbandsúrum. Skilgreiningarnar eru annars svolítið óljósar, rétt eins hjá okkur á Íslandi.
Hverjir stela og hvers vegna?
Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á því hverjir það eru sem stela og hvers vegna. Þjófarnir eru á öllum aldri, af öllum kynjum, vel stæðir, fátækir og allt þar á milli. Það er sem sé engin regla í þessum efnum. Sumir sem stela hafa í viðtölum sagst gera það af nauðsyn, einfaldlega til að hafa eitthvað að borða. Aðrir segjast upplifa spennu sem fylgi því að stinga á sig vörum og sleppa því að borga. Svo er tiltekinn hópur sem haldinn er svonefndri stelsýki og getur ekki útskýrt hvað veldur. Skrifari þessa pistils las fyrir nokkru viðtal við eiginkonu manns sem lést fyrir nokkrum árum. Hún sagði að nær daglega hefði maðurinn komið heim með eitthvað smálegt sem hann hefði hnuplað. Hann hefði ætíð sagt henni frá hvar hann hefði tekið það sem hann kom með heim og það hefði komið í hennar hlut að fara og skila hlutnum í búðina. Oftast hefði maðurinn látið nægja að hnupla einum hlut og ekki getað útskýrt hvers vegna hann gerði þetta. Stelsýkinni hafa sumir sálfræðingar líkt við áráttuhegðun og hægt sé að vinna bug á henni eftir tilteknum leiðum.
Ýmiss konar aðferðir
Fatakaupmenn hafa í gegnum tíðina orðið fyrir barðinu á fataþjófum og til eru margar frásagnir af „viðskiptavinum“ sem nota ýmis ráð til að krækja sér í „ókeypis“ flík. Fara kannski með tvær peysur í mátunarklefann, skila svo annarri á sinn stað en eru búnir að klæða sig í hina peysuna, gjarnan þannig að hún sjáist ekki, og ganga svo út. Fataþjófar, sem staðnir hafa verið að verki, hafa iðulega borið því við að löngunin í tiltekinn fatnað hafi ráðið för, löngunin orðið skynseminni, og fjárráðunum, yfirsterkari. Ekki liggja fyrir tölur um þjófnaði úr fataverslunum og búsáhalda- og sérverslunum en þar er um umtalsverðar upphæðir að ræða.
Strangari lög, hærri sektir
Í byrjun febrúar á þessu ári tóku gildi ný lög um sektir vegna þjófnaða. Þau gilda um þjófnaði úr verslunum og heimahúsum, þjófnaði á reiðhjólum og fleira. Sektir vegna þjófnaða eru nú að lágmarki 1.000 krónur og fara hækkandi ef um endurtekin brot er að ræða. Sekt getur aldrei orðið lægri en verðmæti hins stolna hlutar. Nýlunda er að nú hefur lögregla heimild til að stöðva hjólreiðamenn og kanna hvort tilkynnt hafi verið að viðkomandi hjóli hafi verið stolið. Þetta ákvæði er sett í lög í ljósi þess að reiðhjólastuldum hefur fjölgað mikið á allra síðustu árum.
Þeir sem verða uppvísir að þjófnaði og fá sekt fá jafnframt skráningu í sakavottorð. Skráningin er fjarlægð úr sakavottorðinu eftir tvö ár haldi viðkomandi sig á mottunni.
Ýmsar ráðstafanir verið gerðar en hrökkva skammt
Búðaþjófnaðir eru ekki nýtilkomnir en hafa, eins og áður var nefnt, aukist jafnt og þétt. Kaupmenn hafa beitt ýmsum ráðum til að koma í veg fyrir þjófnaði en það hefur ekki dugað. Eftirlitsmyndavélar er að finna í flestum verslunum, margir kaupmenn hafa dýran og eftirsóttan varning í læstum skápum og fatakaupmenn setja sérstakan búnað á föt, búnað sem ekki er hægt að fjarlægja nema með þar til gerðu tæki. Þetta og margt fleira hefur verið gert en þetta hefur ekki stöðvað þjófana.
Samtök danskra kaupmanna hafa beint því til stjórnvalda að komið verði á skrá yfir dæmda þjófa og búðaeigendum verði heimilt að koma upp svonefndum andlitsgreiningarbúnaði sem tengist áðurnefndri skrá. Þegar einstaklingur sem hefur verið dæmdur fyrir þjófnað gengur inn í verslun sendir andlitsgreinirinn frá sér merki um að þar sé hugsanlega grunsamlegur maður á ferð. Þetta hefur ekki verið heimilað enn sem komið er.
Verslanasamsteypan Salling, sem meðal annars á verslanirnar Føtex, Bilka og Netto, lét í allmörgum verslunum setja upp myndavélar við sjálfsafgreiðslukassana. Þetta mæltist ekki vel fyrir og myndavélarnar voru fjarlægðar.
Fréttamenn danska útvarpsins, DR, sendu stærstu verslanafyrirtækjunum í Danmörku tölvupóst þar sem spurt var hvort þau styddu hugmyndina um andlitsgreiningarbúnað. Fyrirtækin sem svöruðu póstinum sögðu að það væri ekki þeirra að ákveða og bentu á Dansk Erhverv, samtök atvinnulífsins.















































Athugasemdir