Ráðgjafafyrirtæki hefur á undanförnum árum fengið 190 milljóna króna greiðslur frá tveimur embættum undir stjórn Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra. Stærstur hluti hefur verið greiddur af embætti Ríkislögreglustjóra, sem hefur greitt fyrirtækinu 160 milljónir króna. Frá þessu greinir RÚV.
Á bak við Intru ráðgjöf er Þórunn Óðinsdóttur, sérfræðingur í Lean Managment. Verkefnin sem hún vann fyrir embættin snérust fyrst og fremst að stjórnendaráðgjöf og -þjálfun. Á síðari stigum fóru þau hins vegar líka að snúa að umsýslu í kringum fasteignamál embættisins.
Samkvæmt útreikningum fréttastofu RÚV nam umfang vinnunnar sem Intra sinnti fyrir embætti Ríkislögreglustjóra um 4.800 klukkustundum. Mikill hluti þeirrar vinnu hafi átt sér stað eftir að verkefni óskyld upphaflegri stjórnunarráðgjöf bættust við samninginn.
Í frétt RÚV kemur fram að á fyrstu sex mánuðum þessa árs hafi ráðgjafafyrirtæki Þórunnar fengið greitt fyrir hátt í þúsund klukkustundir. Það jafngildir fullri dagvinnu á hálfu ári. Fyrir þessa vinnu hafi embætti ríkislögreglustjóra greitt tæpar 33 milljónir króna.
Meðal verkefna sem Þórunn rukkaði fyrir voru að skoða húsgögn í IKEA og Jysk, ígrunda hvar væri hægt að setja upp píluspjöld, koma með tillögur að sorpflokkunarílátum og senda beiðni um að breyta heitum á fundarherbergjum. Sama tímagjald var á þessum verkefnum og stjórnendaráðgjöfinni; 36 þúsund krónur með virðisaukaskatti, á hverja vinnustund.
Á sama tíma þurfti embættið að óska eftir 80 milljóna króna viðbótarfjárveitingu á fjáraukalögum síðastliðið sumar til að standa undir kostnaði við nýliðanámskeið fyrir sérsveit lögreglunnar, námskeið sem annars hefði fallið niður.
Til samanburðar bendir RÚV á að á fjögurra ára tímabili, 2018 til 2021, greiddi heilbrigðisráðuneytið alls 55 milljónir króna fyrir alla aðkeypta ráðgjöf, og dómsmálaráðuneytið 86 milljónir. Greiðslur ríkislögreglustjóra til Intru á aðeins rúmum tveimur árum, frá 2023 til þessa árs, nema hins vegar 92 milljónum króna.















































Athugasemdir