Margt það besta sem Ísland hefur haft fram að færa til umheimsins síðustu áratugi, hefur legið í fjarvist íslenskra karlmanna.
Staða karlmannsins virtist vera meitluð í stein. Íslendingar vöktu athygli fyrir fátt á níunda áratug síðustu aldar, en tvennt þó: Jón Páll Sigmarsson var sterkasti maður heims. Ekkert mál fyrir Jón Pál, varð að orðatiltæki. Eins og: Þetta reddast, sem kom síðar, þegar karlaveldið hafði komið okkur í klandur, sem reddaðist.
Og fegursta kona heims var aftur og aftur íslensk. Við vorum með sterkasta karlinn og fallegustu konuna. Eins og mörgum þykir hátindur órjúfanlegs náttúrulögmáls.
Árið 1980 hafði hins vegar Vigdís Finnbogadóttir verið kjörin forseti Íslands, fyrsti lýðræðislega kjörni þjóðhöfðingi heims. Þetta var aðeins fyrsta í röð áfanga, þar sem íslenskar konur náðu forystu á heimsvísu og í íslensku samfélagi. Núna erum við með konu sem forseta, forsætisráðherra, leiðtoga þriggja stjórnarflokkanna, biskup, borgarstjóra, ríkislögreglustjóra, landlækni, ríkissaksóknara, ríkislögmann, forseta Alþingis, formann Eflingar, BSRB, VR, Sjálfstæðisflokksins, rektor háskóla Íslands, framkvæmdastjóra SA, SFS og svo framvegis.
„Mér finnst við vera komin með of mikið af konum“
Eitt embætti sem hefur hins vegar haldist hjá karlmönnum er Fiskikóngurinn. Í febrúar varaði hann við skertum hlut karlmanna í viðtali hjá Morgunblaðinu. „Mér finnst við vera komin með of mikið af konum,“ sagði hann. „Að það séu komnar konur í öll embætti og alla stjórnsýslu, það finnst mér ekki gott.“
Sjálfskaði karla
En er verið að brjóta á körlum, eða er þetta sjálfsprottið fráhvarf, sem vekur aðdáun víða um heim?
Bjarni Benediktsson kvaddi stjórnmálin eftir að hafa markerað þau í tæpa tvo áratugi, sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Líklega tók steininn úr þegar hann seldi óvart pabba sínum hlut í ríkisbanka með útboði í ólöglegri framkvæmd. Að skilnaði sagðist hafa verið „pólitískt dýr“ vegna gagnrýnendanna, væntanlega á innherjastöðu hans og krosstengsl. En er verið að leita að dýri við landsstjórnina? Viljum við ráða ref?
Þáttur borgarstjórans segir sína sögu. Einar Þorsteinsson hafði komið stormandi af sjónvarpsskjánum inn í stjórnmálin og náð borgarstjórastólnum fyrir Framsóknarflokkinn, eftir langvarandi útlegð flokksins í borginni. Samflokksmaður hans og forveri kom með slagorðið „þú meinar Einar“ fyrir nokkrum árum. En nú var Einar sestur, í borgarstjórastólinn.
Hvernig hann rataði þaðan aftur er svo hugsanlega spurning um karlmennsku og dirfsku. Eftir rétt rúmlega ár í borgarstjórastólnum reyndi Einar að umbylta skyndilega meirihlutasamstarfinu og hefja viðræður við aðra flokka, losa sig við vinstri flokkana og mynda nýjan meirihluta með Sjálfstæðisflokknum, Viðreisn og Flokki fólksins. Þetta var djarft útspil og einkenndist af frumkvæði og karlmennsku og kom í kjölfar þess að oddviti Samfylkingarinnar hafði hækkað róminn á Einar eftir að hann hafði tekið afstöðu með minnihlutanum.
Það sem felldi hann var að kona að nafni Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, setti honum stólinn fyrir dyrnar og ákvað að Flokkur fólksins tæki ekki þátt í snúningnum. Þar með féll einn af síðustu karlmönnunum úr æðstu leiðtogastöðum hjá hinu opinbera á Íslandi.

Stjórnmálafræðingur sagði Einar hafa „plottað yfir sig“, með þeim afleiðingum að konan sem hækkaði róminn varð borgarstjóri. Og seinna á árinu urðu þær, einar, ráðandi í ríkisstjórn landsins, Inga Sæland, Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Kallaðar valkyrjurnar. Og kona ráðandi í Valhöll.
Ungfrú Ísland
Bæði á pólitíska sviðinu og leiksviðinu eru karlmennirnir orðnir meira að aðhlátursefni en holdgervingar atkvæðamikilla aðgerða og þungbrýndrar ábyrgðar.

Í janúar var frumsýnt leikverkið Ungfrú Ísland, eftir skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur. Þótt titillinn vísi í hina hefðbundnu tvíeggjuðu upphefð íslenskra kvenna, segir verkið meira um íslenska karlmanninn og ásýnd hans í samtímanum. Í verkinu er enginn karlmaður eðlilegur, nema einn. Og hann er hýr. Og var sá eini sem aðalpersónan elskaði.
Einn karlinn, bróðir aðalpersónunnar, brestur reglulega í glímutök og virðist hafa rassvöðva í heilastað. Annar, sem verður á endanum eiginmaður aðalpersónunnar, er málhalt skáld sem hangir með öðrum skáldum, en afrekar ekkert, á meðan háfleyg orðin svífa af vörum aðalpersónunnar í algerum hjáverkum.
Faðir aðalpersóununnar var reyndar góður maður, en hann jaðraði við einhverfu og gat vart rætt annað en eldfjöll. Með kvenkyns nöfnum. Katla, Hekla, Askja. Hinn sanni kraftur Íslands, sem hrellir karla og heillar.
Örlög atvinnuskáldsins, eiginmannsins, voru að reyna að stela skáldverkum konunnar og gera að sínum eigin. Það er táknrænt. En enn táknrænna var að hann fann sér loksins raunverulegan farveg í lífinu. Hann gerðist leigubílsstjóri.
Ekki að það sé slæmt að vera leigubílstjóri, en líklega hefur aldrei verið svínað meira á íslenska leigubílstjóranum en fyrr á árinu þegar hann taldi sig hrakinn út úr kaffistofu leigubílstjóra við Leifsstöð, sem yfirtekin hafði verið af múslimum, samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins, áður en hún var lögð niður fyrir vikið.
Íslenski leigubílstjórinn var miðað við lýsingarnar orðinn það sem kallað er hornkerling í Íslendingasögunum. Og nú má kenna í brjósti um karlana.
Ástandið mun vera svo slæmt að einn þeirra hefur ákveðið að blanda saman tveimur helstu athöfnum og áhugamálum íslenska karlmannsins, að keyra og veiða. Plús að óttast útlendinga. Hann kallar sig taxi-hönter.
Leikverkið hefur síðan raungerst í því að karlar eru aðeins 35% nemenda í háskólum Íslands, allt niður í 20% í Háskólanum á Akureyri. Íslenskir karlar á aldrinum 25 til 24 ára eru langt undir meðaltali samanburðarríkja í háskólanámi.
Dauði karlmannsins
Í dag leggja konur niður störf til að vekja athygli á - og mótmæla allar - lægri meðaltekjum kvenna og því sem er kerfisbundið lægri laun í kvennastéttum. Talandi um að karlmaðurinn steli frá konunni. Enda er ennþá alger undantekning ef kona er forstjóri félags sem skráð er í kauphöllinni.
Það er hins vegar óljóst hvað hinir karlarnir gætu gert til að vekja athygli á stöðu sinni. Þeir gætu þóst vera dauðir í einn dag, til að mótmæla því að þeir lifa fjórum árum skemur en konur. En líklega fengju þeir ekki mikla samúð. Eða athygli. Þeir deyja nefnilega svo oft á eigin vegum. Með fleiri ofbeldisverkum en konur, meiri akstri og fleiri slysum. Raunverulega þyrftu karlar að þykjast dauðir í tvær og hálfa viku á ári til að ná hlutfallslegu ævilengdarjöfnuði. Samkvæmt nýlegum rannsóknum ná þeir því þó með kerfisbundinni vanvirkni í húsverkunum.
Nú er hins vegar komið fram skært ákall. Um að endurreisa Ísland með því að gera konum kleift að vera meira heima.
Útdauði Íslendinga
Samkvæmt stjórnmálaafli - sem stýrt er og stutt af karlmönnum - er íslensku þjóðinni ógnað. Ástæðan er lág fæðingartíðni kvenna. Og útlendingar.
Fæðingartíðnin er komin niður í 1,56, en þarf að vera 2,1 til að viðhalda þjóðinni. Eina vonin er að fjölga innflytjendum, eða barnsfæðingum kvenna. Annað þeirra líkar þeim.
„Við erum hálfpartinn að deyja út ef við tökum svo strangt til orða,“ sagði nýr varaformaður Miðflokksins, Snorri Másson, á Alþingi í vor og vísaði þar til íslensku þjóðarinnar en ekki íslenska karlleiðtogans.

Miðflokkurinn er síðasta stjórnmálaaflið á Alþingi með karlkyns formann, ef Framsóknarflokkurinn fellur undir forystu kvenna á næsta landsfundi. Einar Þorsteinsson er þó að íhuga formannsframboð eftir hvatningu.
Skipbrot íslenska karlmannsins er orðinn hlutur. Og ekki með alkarlmannlegum hætti. Áður lentu íslensku karlarnir í alvöru skipbroti. Þeir fóru á sjó. Nú hefur sjómönnum fækkað ár frá ári. Og fleiri og fleiri karlar eru eins og þorskar á þurru landi, spriklandi í öllum pollum sem þeir finna, í leit að endurkomu.













































Athugasemdir