Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, hefur verið kjörinn varaformaður flokksins. Hann hlaut 136 af 201 greiddu atkvæði á landsþingi Miðflokksins sem fer fram um helgina á Hilton Nordica í Reykjavík.
Embættið hefur nú verið endurvakið eftir að hafa legið niðri frá árinu 2020.
Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður og fyrrverandi sendiherra, var einnig í framboði og hlaut 64 atkvæði. Bergþór Ólason tilkynnti í gær að hann hefði dregið framboð sitt til varaformanns til baka.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var endurkjörinn formaður á þinginu, en hann var einn í framboði til embættisins.
Í kynningarræðu sinni á þinginu sagði Snorri að hann tæki undir orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns frá því á laugardag um að Ísland hefði villst af leið. „Við verðum að rétta úr kútnum. Við getum það. Ég vil axla mína ábyrgð í þeirri baráttu“ sagði Snorri.
Sagði hann að þrátt fyrir stutta reynslu sína af stjórnmálum tryði hann að hann hefði þá reyslu sem þyrfti til að taka Miðflokkinn á næsta stig.
Athugasemdir