Síðustu 20 árin hefur þekking okkar á forsögu mannsins gerbreyst. Þar koma við sögu fornleifafundir, stórbætt tækni við aldursgreiningar og síðast en ekki síst erfðarannsóknir.
Fyrir aldamótin 2000 höfðum við dregið upp frekar snyrtilega mynd af forstíðinni. Svonefndir suðurapar sem bjuggu í Austur-Afríku tóku upp á því fyrir um fjórum milljónum ára að ganga þokkalega uppréttir. Þar með voru hendurnar lausar í ýmislegt gagnlegt og með tímanum jókst heilastarfsemin umtalsvert.
Fyrir 2,5 milljónum ára var komin fram manntegundin Homo habilis, maðurnn sem fór að nota tæki. Fyrir um 1,8 milljónum ára hafði svo þróast önnur tegund frá Habilis eða skyldum hópi, það er að segja Homo erectus, hinn upprétti maður.
Viti borni maðurinn?
Og fyrir eitthvað um 100.000 árum hafði Erectus svo getið af sér „hinn viti borna mann“, Homo sapiens, okkur. Hliðargrein á stofni Sapiens var Neanderdalsmaðurinn en annars var þróunin að mestu bein lína frá einni tegund til annarrar.
Á undanförnum tveim áratugum gerbreyttist þessi mynd.
Í ljós kom að manntegundirnar voru miklu fleiri en talið hafði verið. Í stað þess að ein tegund tæki við af annarri reyndust iðulega margar tegundir hafa verið á dögum samtímis, stundum á sama svæði.
Svona litu þá drög að nýrri forsögu út (og athugið að hér eru flókin mál einfölduð ansi mikið):
Erectus eða Ergaster?
Ekkert hefur verið hróflað við fyrstu ættliðunum en á daginn komið að samtímis Erectus hafa verið til allmargar aðrar tegundir, flestar eflaust komnar frá honum en aðrar ef til af enn eldri tegund eins og Habilis.

En um mjög svipað leyti og Erectus kom fram birtist önnur ekki ósvipuð tegund, Homo ergaster, sem sé fyrir 1,8 milljónum ára. Og líklega var það Ergaster frekar en Erectus sem gat síðan af sér Homo heidelbergensis fyrir 700 þúsund árum.
Og svo leit út fyrir að Homo heidelbergensis hefði getið af sér fyrst Neanderdalsmanninn fyrir 400.000 árum og síðan Homo sapiens og hina nýfundnu Denisova fyrir um 200-300.000 árum.
Til Kína og Mansjúríu
Fleiri tegundir voru svo bersýnilega á sveimi hingað og þangað: Homo floresiensis, Homo naledi og Homo luzonensis og fleiri tegund sem erfðamengni okkar gefa til kynna að hafi verið til en hafa ekki fundist í jarðlögum enn. Margar þeirra lifðu vafalaust fram á daga Sapiens.
Þetta var nú allt saman nógu spennandi í sjálfu sér og flest á hverfanda hveli í fræðunum.
En enginn átti samt von á því sem nú hefur gerst.
Þannig vill til að árið 1931 fannst í Harbin í Mansjúríu á mótum Síberíu, Mongólíu og Kína höfuðkúpa. Er af því saga sem ég sagði í flækjusögugrein í Heimildinni fyrir rúmu ári, sjá hér.
Voru Denisovar drekamenn, eða öfugt?
Höfuðkúpan hlaut nafnið Homo longi eða drekamaðurinn, því drekar eru jú í hávegum hafðir í Kína, en lengi vel voru menn alls ekki með á hreinu af hvaða tegund drekamaðurinn var.
Nú á fáeinum vikum hafa hins vegar tvívegis borist nýjar fréttir af drekamanninum sem til verulegra tíðina má telja.
Fyrst fréttist fyrir nokkrum vikum að nýjar rannsóknir á efnasamsetningu og byggingu hauskúpu drekamannsins í Harbin sýni sterk tengsl hans við Denisova.
Menn sæju ekki betur en þessi Homo longi hefði verið af ætt eða að minnsta kosti mjög skyldur Denisovum. Það var í sjálfu sér mjög merkilegt því það fyllti mjög út í þá mynd sem við höfum verið að reyna að draga upp af útbreiðslu Denisovanna.
Nú ber nýrra við!
En nú fyrir aðeins örfáum dögum koma svo enn nýrri og enn merkilegri fréttir. Ítarlegar rannsóknir á steingerðri höfuðkúpu sem fannst í Yunxian sýslu í Hubei-héraði inni í miðju Kína 1990 voru þá birtar í tímaritinu Science, sjá hér.

Og þær niðurstöður setja bókstaflega alla forsögu mannsins í uppnám.
Fyrst er frá því að segja að maðurinn í Hubei – sem kallast í fræðunum Yunxian 2 – virðist hafa verið af ætt Homo longi, hugsanlega forfaðir eða -móðir þess Homo longi eða Denisova sem fannst í Mansjúríu þó það séu nú bara getgátur.
Þetta var í sjálfu sér stórmerkilegt enda höfðu menn hingað til helst talið að Yunxian 2 væri einhver sort af Erectus.
Segulmælingar
En svo er annað og enn merkilegra.
Yunxian 2-kúpan var aldursgreind með því að skoða efnafræðilega samsetningu steingerðra efna sem fundust í kringum beinin og segulstefnu jarðlaga þar sem hún fannst. Vísindamenn notuðu bæði úran–blý greiningu (U–Pb) til að mæla aldur steinefna sem mynduðust þegar beinin urðu að steini, og segulmælingar til að bera jarðlögin saman við þekktar breytingar í segulsviði jarðar.
(Ég kann auðvitað ekki að útskýra þessa aðferð neitt frekar. Ég tók þetta bara upp úr grein um rannsóknina til að sýna að þetta er alvörumál. Ég vona að lýsingin á aðferðinni sé þolanlega rétt.)
Milljón ára gömul bein?
Og það sem kom upp úr hatti aldursgreiningarmannanna var að bein Yunxian 2 væru allt að milljón ára gömul.
Sem sagt að minnsta kosti 500.000 árum eldri – og sennilega val rúmlega það –heldur en Homo langi hefur hingað til verið talinn vera.
Og ekki nóg með það, heldur hafa erfðarannsóknir þegar bent til að Homo sapiens, Homo Neanderthalencis og Homo longi (forfaðir eða náfrændi Denisovanna) hafi átt rætur að rekja til sameiginlegra forforeldra en ættlínan klofnað á svipuðum tíma.
Ekki nema hundrað þúsund ár
Það hafi ekki skeikað meira en svona 100.000 árum að tegundirnar þrjár (og kannski fleiri) slitu sig frá hinum sameiginlega ættlegg.
Og þetta þýðir þá nánast sjálfkrafa að Homo sapiens, eða náinn forfaðir hans, hefur verið kominn fram á sjónarsviðið fyrir 900.000 til milljón árum síðan.
Miklu, miklu fyrr en talið var.
Og þetta opnar líka á þann möguleika að Homo sapiens hafi kannski ekki endilega þróast fyrst í Afríku eins og hingað til hefur verið talið næsta víst.
Rætur víða?
Ástæðan fyrir því er að Yunxian 2 sýnir ýmis þróuð einkenni sem áður voru talin sérkenni Homo sapiens.

Hauskúpan hefur bæði haft stóran heila og „flatt“ andlit, eiginleika sem hingað til voru taldir koma miklu síðar fram. Ef þessir drættir tilheyra þróunarferli Sapiens bendir það til að hann hafi verið orðinn til mun fyrr en talið var.
Þá gæti þróunin hafa átt sér stað ekki á einum stað heldur í flóknu sampili stofna víðs vegar í Asíu og Afríku sem skiptu á erfðaefni.
Homo sapiens gæti því átt rætur víða, ekki einungis á einum stað.
Rannsókninni vel tekið
Rannsókninni í Science hefur verið vel tekið af öðrum vísindamönnum. Í fljótu bragði hefur ekki verið bent á veilur í rannsókninni en auðvitað vita allir að þær gætu komið í ljós síðar. Hafi Homo sapiens hafist upp víðar en bara í Afríku er til dæmis erfitt að skýra af hverju fólk af afrískum uppruna sýnir nær enga erfðablöndun við Neanderdalsmenn og Denisova.
Hingað til hefur verið talið að það sýni einmitt að Homo sapiens hafi orðið til í Afríku en ekki farið að blandast frændfólki sínu fyrr en eftir að þaðan var komið.
Leyndardómurinn mesti
Og ef aldurgreiningarnar eru réttar, þá verður einn leyndardómur úr sögu mannsins raunar enn furðulegri en hingað til.
Hingað til hefur sem sé verið talið að Homo sapiens hafi komið til sögu fyrir 200-300.000 árum. Hann tók hins vegar ekki „stóra stökkið fram á við“ fyrr en fyrir í hæsta lagi 100.000 árum. Þá fór hann að þróast til mun öflugri vitsmuna en frændfólkið.
Spurningin er hvers vegna það hafi gerst tiltölulega snögglega rúmlega 100.000 árum eftir að Homo sapiens var til orðinn.
Og ef Homo Sapiens reyndist nú vera næstum milljón ára gamall, þá verður enn skrýtnara af hverju svo lítið gerðist svo óralengi í sögunni – áður en hann tók stóra stökkið fram á við.
Athugasemdir