NATO ráðlagi Rússum í dag að hætta „stigvaxandi“ mynstri lofthelgisbrota meðfram austurvæng bandalagsins. Þetta var niðurstaða viðræðna bandalagsríkja í Brussel, sem byggja á 4. grein Atlantshafssáttmálans, eftir að orrustuþota rauf lofthelgiyyfir Eistlandi í síðustu viku.
„Rússland ber alla ábyrgð á þessum aðgerðum sem auka spennu, geta leitt til misskilnings og stofna mannslífum í hættu. Þeim verður að linna,“ sagði í yfirlýsingu 32 aðildarríkja NATO.
„Rússland má ekki velkjast í vafa: NATO og bandalagsríkin munu, í samræmi við alþjóðalög, beita öllum nauðsynlegum hernaðarlegum og óhernaðarlegum úrræðum til að verja okkur og fæla frá allar ógnir úr öllum áttum.“
Þar kom jafnframt fram að NATO myndi „halda áfram að bregðast við á þann hátt, þeim tíma og á því sviði sem við veljum“ og að skuldbinding bandalagsins við sameiginlegt varnarsamkomulag sitt væri „óhagganleg“.
Eistland kallaði eftir neyðarfundi samkvæmt 4. gr. stofnsáttmála NATO eftir að vopnaðar rússneskar orrustuþotur brutu gegn lofthelgi landsins í um 12 mínútur á föstudag.
Tilvikið — sem varð til þess að NATO sendi á loft orrustuþotur — átti sér stað rétt rúmri viku eftir að bandalagið skaut niður rússneska dróna yfir Póllandi, sem leiddi til þess að stjórnvöld í Varsjá kröfðust sams konar viðræðna.
Framkvæmdastjóri NATO, Mark Rutte, sagði að sveitir bandalagsins myndu ákveða hvort skjóta ætti á rússnesk loftför sem brytu lofthelgi þess „á grundvelli þeirra upplýsinga sem tiltækar eru um þá ógn sem stafar af loftfarinu“.
Rutte sagði að „í Eistlandi hafi sveitir NATO þegar hlerað og fylgt loftfarinu án þess að auka spennu, þar sem ekki var metin bráð ógn“.
„Skilaboðin til Rússa eru skýr: Við munum verja hvern einasta sentimetra af landsvæði bandalagsins,“ sagði hann.
Í kjölfar drónaflugsins inn í Pólland tilkynnti NATO að verið væri að efla varnir bandalagsins í austri til að mæta ógninni frá Moskvu.
„Bandamenn láta ekki letja sig“
Auk Póllands og Rúmeníu hafa önnur ríki á austurvængnum, þar á meðal Rúmenía, Litháen, Lettland og Finnland, orðið fyrir nýlegum tilvikum lofthelgisbrota.
Rutte sagði að „of snemmt væri að segja“ hvort drónar yfir Kaupmannahöfn, sem raskaðu flugi í nótt, tengdust Rússlandi.
Aukin spenna hefur vakið ótta um að stríð Rússa í Úkraínu gæti borist yfir landamæri NATO.
Í yfirlýsingu sinni hétu aðildarríki NATO því að „bandamenn léti ekki letja sig, með þessum og öðrum ábyrgðarlausum aðgerðum Rússa, frá varanlegum skuldbindingum sínum um stuðning við Úkraínu“.
Samkvæmt 4. gr. NATO getur hvert aðildarríki boðað neyðarfund þegar það telur „friðhelgi landssvæðis einhvers aðila, pólitísku sjálfstæði eða öryggi ógnað“.
Viðræðurnar í dag voru í þriðja sinn sem 4. gr. er virkjuð frá því Rússland hóf fulla innrás í Úkraínu árið 2022, og í níunda sinn í 76 ára sögu bandalagsins.
Sameiginlegt öryggi NATO byggist á 5. gr. sáttmálans: ef eitt ríki verður fyrir árás „Í Evrópu eða Norður-Ameríku“, rís allt bandalagið því til varnar.
Sú grein hefur aðeins verið virkjuð einu sinni í sögu NATO, í kjölfar árásanna 11. september 2001 í Bandaríkjunum.
Rússar stefna á Kharkiv
Rússnesk yfirvöld fullyrtu í dag að herinn hefði náð yfirráðum yfir stórum hluta af norðaustur-úkraínsku borginni Kupiansk og að það hygðist auka sókn sína mun dýpra inn í Kharkív-hérað.
„Yfirráð yfir Kupiansk munu opna á frekari frekari framrás djúpt inn í Kharkív-hérað, þar á meðal í átt að Izium og Chuguiv,“ sagði rússneski herinn í yfirlýsingu.
Kharkív er ekki meðal þeirra fimm héraða í Úkraínu sem Rússland kveðst hafa innlimað, þar sem hersveitum þess var að mestu ýtt úr héraðinu í árangursríkri gagnsókn hersveita Kýiv árið 2022.
Nýjustu yfirlýsingar Rússa virðast sýna að þeir hafi ekki gefið upp landvinningastefnu sína á svæðinu.
Rússneski herinn sagði að hann hefði stjórn á meira en 65 prósentum bygginga í Kupiansk.
AFP tókst ekki að sannreyna þessa fullyrðingu Rússa.
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, sagði við blaðamenn í síðustu viku að úkraínski herinn væri enn að berjast um yfirráðin í borginni.
„Á svæðinu í kringum Kupiansk standa yfir harðar aðgerðir og þar eru viðeigandi sveitir til staðar,“ sagði hann.
Kupiansk, mikilvæg samgöngumiðstöð, féll upphaflega í hendur rússneskra sveita á fyrstu mánuðum árásarinnar áður en Úkraína endurheimti borgina.
Rússar segja að hertaka borgarinnar muni hjálpa þeim að sækja fram í hinu nálæga Donetsk-héraði.
Athugasemdir