„Ég skildi að orð er á Íslandi til um allt sem er hugsað á jörðu,“ eru lokaorðin í ljóði Einars Benediktssonar sem hann orti til móður sinnar. Oft er vitnað í þessi orð þótt vitað sé að þar er ofsagt.
Meðal þeirra orða sem við Íslendingar eigum ekki almennilega þýðingu á eru dönsku orðin „kolonihave“ og „kolonihavehus“. Í þessum pistli verður notast við orðin kálgarður og kálgarðshús.
Löng saga
Kálgarðarnir (kolonihavene) eiga sér langa sögu. Elsta kálgarðssvæði Danmerkur var skipulagt árið 1655, í Fredericia á Jótlandi. Nokkrum árum fyrr hafði Friðrik III konungur ákveðið að reisa virki á þessum stað, það fékk nafnið Frederiksodde en fékk síðar núverandi heiti, Fredericia. Utan virkisveggjanna voru skipulagðir kálgarðar en engir þeirra hafa varðveist. Elsta kálgarðasvæði sem enn er til í Danmörku er í Hjelm í útjaðri Aabenraa (líka skrifað Åbenrå), á Suður-Jótlandi.
Það varð til árið 1821, og er talið meðal elstu kálgarðssvæða í heimi og er friðað. Á síðari hluta 19. aldar urðu víða til kálgarðar, einkum í og við stærri bæi, þar sem fólk bjó víða þröngt, í dimmum, köldum og rökum húsum. Í kálgörðunum gat fólk notið útiveru og ennfremur ræktað grænmeti, sem var kærkomin og ódýr viðbót við annars fremur einhæfa fæðu. Margir sem fengu leigðan kálgarð byggðu litla kofa (kolonihavehus) á lóðum sínum, þar var hægt að geyma verkfæri og hafast við ef svo bar undir. Kálgarðarnir voru ekki ætlaðir til fastrar búsetu, þeir voru fyrst og fremst dagdvalarstaður og athvarf þar sem fjölskyldur gætu notið samveru og dundað sér utandyra yfir daginn og farið heim undir kvöld.
Fjölgaði hratt
Eins og áður var nefnt fjölgaði kálgörðunum hratt á síðari hluta 19. aldar. Í upphafi var skipulagið lítið, og víða ekkert. Eitt áttu kálgarðarnir þó sameiginlegt, þeir voru allir litlir, í mesta lagi 400 fermetrar. Fyrsta skipulagða kálgarðahverfið varð til í Álaborg. Þar var það Jørgen Berthelsen, formaður verkalýðsfélagsins (Arbejderforeningen) sem gaf tóninn ef svo mætti segja. Hann fékk, eftir margar tilraunir, leyfi bæjaryfirvalda til að ráðstafa tilteknu svæði í útjaðri bæjarins. Hann mældi út 84 litlar lóðir, kálgarða, sem leigðar voru láglaunafjölskyldum, til að rækta grænmeti til eigin nota. Þetta var árið 1884. Þetta mæltist svo vel fyrir að tveimur árum síðar var svæðið stækkað og 93 kálgarðar bættust við. Þarna má segja að kálgarðatónninn hafi verið sleginn og Jørgen Berthelsen hefur síðan, með réttu, verið talinn upphafsmaður kálgarðahverfanna.
Árið 1891 beittu verkalýðssamtök í Kaupmannahöfn sér fyrir stofnun sérstakra kálgarðahverfa, fyrirmyndin var Álaborg. Ári síðar, 1892, var fyrsta kálgarðshverfið í Kaupmannahöfn tekið í notkun. Það fékk nafnið Vennelyst og er Amagermegin við virkissíkið, gegnt Kristjaníu. Í upphafi voru um það bil 300 kálgarðslóðir í Vennelyst en eru litlu færri í dag. Lóðirnar í Vennelyst eru litlar, aðeins um 80 fermetrar.
Kálgarðarnir hittu Dani í hjartastað (orðalag dansks rithöfundar) og árið 1904 voru kálgarðarnir í landinu orðnir 20 þúsund, og fór fjölgandi. Á millistríðsárunum voru kálgarðar í landinu rúmlega 100 þúsund, í dag eru þeir vel yfir 60 þúsund talsins. Á sjötta áratug síðustu aldar var mikill húsnæðissskortur í dönsku höfuðborginni sem leiddi til þess að margir tóku sér fasta búsetu í kálgörðunum þótt slíkt væri óheimilt. Í fundargerð dönsku borgarstjórnarinnar frá árinu 1954 má lesa tillögu frá einum borgarfulltrúa um að einungis verði leyft að byggja þaklaus smáhýsi á kálgarðslóðum, til að koma í veg fyrir að fólk byggi þar. Sú hugmynd hlaut ekki hljómgrunn.
Árið 1906 kom fram sú hugmynd að stofna samtök kálgarðseigenda í Kaupmannahöfn, sem þá skiptu tugum þúsunda. Tveimur árum síðar varð sú hugmynd að veruleika og árið 1913 voru stofnuð landssamtök kálgarðseigenda, með aðild 22 félaga víða um land. Lagaleg umgjörð kálgarðanna var mjög losaraleg og þannig var það um áratugaskeið.
Lagasetning
Árið 2001 voru sett lög um kálgarða. Með þeim var skorið úr um mörg vafaatriði, sem bæði kváðu á um réttindi og skyldur varðandi kálgarðana. Meðal annars að yfirvöld í borgum og bæjum gætu ekki skyndilega ákveðið að skipuleggja íbúðabyggð á kálgarðssvæðum, nema útvega annað sambærilegt svæði á svipuðum slóðum. Meðal ákvæða í lögunum var að stærð hvers kálgarðs mætti ekki vera stærri en 400 fermetrar. Dönsku lögin tóku mið af þýskri lagasetningu sem tók gildi árið 2000.
Árið 2007 kvað Hæstiréttur Danmerkur upp dóm sem staðfesti rétt stjórnar kálgarðssvæðis til að setja reglur um sölu einstakra kálgarða. Þetta átti að koma í veg fyrir spákaupmennsku og brask með einstakar lóðir. Þess má geta að í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi eru starfandi landssamtök kálgarðseigenda hliðstæð þeim dönsku.
Mörg byggð án tilskilinna leyfa
Eins og fyrr var getið voru lög og reglur um kálgarða, einkum hvað varðaði hús á slíkum lóðum mjög losaraleg og sama má segja um eftirlitið. Meðal ákvæða í lögunum frá 2001 var að í kálgörðunum mætti einungis dvelja, að næturlagi í sex mánuði á ári, frá aprílbyrjun til loka september.
Fyrir tveimur áratugum eða svo urðu nokkrar breytingar á mörgum kálgarðssvæðum. Byggð voru stærri hús en leyfilegt var og jafnframt farið á svig við sex mánaða dvalarregluna. Æ fleiri kálgarðshús urðu að heilsársbústöðum því margir hafa séð sér hag í að búa í kálgörðunum þar sem gjöld af þeim eru langtum lægri en af „venjulegu“ íbúðarhúsnæði. Dagblaðið Politiken hefur um nokkurra ára skeið af og til fjallað um villta vestrið í kálgörðunum eins og blaðið orðar það. Lengi vel gerðist ekkert en svo fór þó að borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn vöknuðu upp af Þyrnirósarsvefninum (orðalag blaðsins).
Ákveðið var að taka eitt kálgarðssvæði til skoðunar, eins og það var orðað. Fyrir valinu varð svæði á Amager, skammt frá verslanamiðstöðinni Fields. Á þessu svæði, sem ber heitið Hf. Røde Mellemvej eru 142 kálgarðar á litlum lóðum. Skemmst er frá því að segja að athugun borgarinnar leiddi í ljós að öll kálgarðshús á svæðinu, að einu undanskildu, eru byggð án þess að sótt hafi verið um tilskilin leyfi.
Flestir eigendur í góðri trú
Blaðamaður Politiken heimsótti kálgarðssvæðið Hf. Røde Mellemvej eftir að niðurstöður úr athugun borgarinnar lágu fyrir. Flestir eigendur kálgarðanna sögðust undrandi á niðurstöðunni, margir þeirra hafa átt kálgarðinn í áraraðir og staðið í þeirri trú að allt væri samkvæmt reglum. Mörg hús standa mjög þétt, ein ástæða þess er að mælt var með að hús stæðu innst á lóðunum til að þær nýttust sem best. Mörg hús hafa verið stækkuð langt umfram það sem leyfilegt er, miðað við stærð lóðanna og fleira mætti nefna.
„Við munum halda áfram að flagga Dannebrog, grilla pyslur og drekka bjór eins og við höfum gert fram að þessu“
Bíða og sjá til
Kaupmannahafnarborg og landssamband kálgarðasvæða eru sammála um að dómstólar verði að úrskurða hvort, og þá hvað skuli gera. Dan Bengtsson formaður samtaka kálgarðseigenda á Hf. Røde Mellemvej sagði í viðtali að ef þeim berist bréf frá borginni um að húsin á svæðinu séu ólögleg „munum við ekki aðhafast neitt“. Landssamband kálgarðssvæða mun annast málarekstur fyrir hönd Hf. Røde Mellemvej ef til þess kemur.
Tæknideild Kaupmannahafnarborgar sagði í svari við fyrirspurn Politiken að eigendur kálgarða á Røde Mellemvej geri best í að bíða átekta og sjá til. Tugþúsundir kálgarðseigenda fylgjast ugglaust grannt með framvindu mála í Røde Mellemvej málinu en mánuðir og ár geta liðið án þess að nokkuð gerist.
„Við munum halda áfram að flagga Dannebrog, grilla pyslur og drekka bjór eins og við höfum gert fram að þessu,“ sagði Dan Bengtsson.
Athugasemdir (1)