Ævintýrið um litlu hafmeyjuna, Den lille Havfrue, skrifaði H.C. Andersen árið 1837 og er meðal þekktustu verka höfundarins. Sagan hefur verið gefin út í fjölmörgum löndum og sömuleiðis alloft verið kvikmynduð.
Árið 1909 var frumsýndur á Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn ballett, byggður á sögu H.C Andersen (1805 – 1875) um litlu hafmeyjuna. Aðalhlutverkið dansaði Ellen Price (1878 – 1968), sem þá var meðal þekktustu ballettdansara heims en orðin 31 árs þegar verkið var frumsýnt. Skömmu eftir frumsýninguna ákvað ölgerðarmaðurinn Carl Jacobsen (1842 - 1914) að láta gera styttu til heiðurs Ellen Price og gefa Kaupmannahafnarborg. Carl Jacobsen réð myndhöggvarann Edvard Eriksen til verksins, sem skyldi steypt í brons. Edvard Eriksen (1876 -1959) útskrifaðist frá Konunglega fagurlistaskólanum árið 1899 og hafði vakið athygli og unnið til viðurkenninga. Edvard Eriksen var íslenskur í móðurætt, móðir hans var Svanfríður Magnúsdóttir (1855 – 1924) frá Langadal í Ísafjarðardjúpi, faðirinn danskur skósmiður Martin August Eriksen (1850 – 1933).
Neitaði að sitja fyrir nakin
Þegar ákveðið var að Edvard Eriksen myndi taka að sér að gera styttuna af litlu hafmeyjunni til heiðurs Ellen Price lá beinast við að fá hana til að sitja fyrir við gerð styttunnar. Ellen Price tók fyrst vel í erindið en þegar hún áttaði sig á því að hún ætti að sitja fyrir nakin sagði hún nei. Myndhöggvarinn leitaði ekki langt yfir skammt eftir fyrirsætunni, eiginkonan Eline (1881 – 1963) lagði til líkamann, fyrir utan sporðinn auðvitað, en Ellen Price samþykkti að andlit hafmeyjunnar yrði sitt, ef svo mætti að orði komast.
Þess má til gamans geta að heimili Edvard Eriksen og fjölskyldu hans var um langt árabil við Fuglebakkevej, í sömu götu og íslenski sendiherrabústaðurinn hefur verið allmörg undanfarin ár.

Ríkarður hamraði bronsið
Þegar Edvard Eriksen vann að styttunni af hafmeyjunni var hann kennari við höggmyndadeild Konunglega fagurlistaskólans í Kaupmannahöfn. Meðal nemenda hans þar var Ríkarður Jónsson og þegar búið var að steypa hafmeyjuna í brons vann Ríkarður ásamt fleiri nemum við að yfirfara styttuna og cicelera (hamra og jafna bronsið). ,,Þetta var þáttur í náminu“ sagði Ríkarður í minningum sínum. Eitt af dagblöðunum tók sérstaklega fram, þegar styttan var afhjúpuð, hvað Ciceleringen væri vel af hendi leyst ,, Það þótti okkur nemendum ekki lítið í varið“ sagði Ríkarður.
Varð einskonar táknmynd Kaupmannahafnar og Danmerkur
Styttan af litlu Hafmeyjunni var afhjúpuð 23. ágúst 1913. Nokkur fjöldi fólks sem var á gangi á Löngulínu staðnæmdist þegar það sá að eitthvað var um að vera. Svo sat styttan á steininum og vakti enga sérstaka athygli. Á árunum eftir 1930 stóð danska ferðamálaráðið fyrir kynningum á landi og þjóð fyrir erlenda ferðamenn og H.C. Andersen var meðal þess sem áhersla var lögð á í Kaupmannahöfn. Fáum, eða engum, datt þá í hug að styttan yrði síðar eitt þekktasta listaverk á Norðurlöndum.
Á þeim 112 árum sem liðin eru frá því að styttunni var tyllt á steininn við Löngulínu hefur hún, með nokkrum undantekningum, fengið að vera í friði. Reyndar var hún lánuð á heimssýninguna í Shanghai árið 2010, þar sem að minnsta kosti 5,5 milljónir gesta litu hana augum.
Peter Bech og sú stóra
Danski athafnamaðurinn Peter Bech rak um árabil veitingastað við Löngulínu í Kaupmannahöfn. Margir gestir sem sóttu veitingastaðinn kváðust undrandi á hvað styttan af litlu hafmeyjunni væri lítil. Peter Bech ákvað að láta gera styttu af hafmeyju og koma fyrir við veitingastaðinn sinn. Hann ákvað útlit styttunnar sjálfur, andlitið er eftirmynd frænku Peter Bech. Eftir nokkra leit samdi Peter Bech við fyrirtæki í Kína, ákveðið var að styttan skyldi hoggin í grágrýti í Kína og eftir hálft ár var styttan fullgerð og flutt til Danmerkur, út á Löngulínu. Þar var henni komið fyrir við veitingastað Peter Bech. Styttan vakti strax athygli þeirra sem litu hana augum enda engin smásmíði, rúmlega 4 metra há og 14 tonna þung.

Tvær minni „tvíburadætur“
Árið 2002 keypti Peter Bech Middelgrundsfortet, tilbúna virkiseyju, á Eyrarsundi. Eyjan, sem er 50 þúsund fermetrar, var gerð skömmu fyrir aldamótin 1900 og hugsuð sem hluti varna Kaupmannahafnar. Hún var aflögð sem varnarmannvirki árið 1998 og komst eins og áður sagði í eigu Peter Bech 4 árum síðar. Hann innréttaði veitingastað á eyjunni og kom á ferjusiglingum til Nýhafnarinnar í Kaupmannahöfn. Hann lét jafnframt gera tvær styttur, sem hann kallaði tvíburadætur þeirrar stóru, nákvæmlega eins og hún, bara mun minni og kom þeim fyrir við Middelgrundsfortet. Árið 2015 seldi Peter Bech eyjuna og fjarlægði „tvíburadæturnar“. Í millitíðinni hafði hann kynnst Cynthiu, sem bjó í Dragør og flutti þangað. Með í farteskinu voru ,,tvíburadæturnar“ og þeim var komið fyrir í garðinum við heimili Peter Bech og Cynthiu. Aðrir íbúar hússins við Kongevejen, sem dró að sér athygli fólks, voru ekki upprifnir yfir styttunum og þær voru fluttar niður að höfninni í Dragør þar sem þær standa nú.
Sú stóra líka komin til Dragør
Peter Bech seldi veitingastaðinn við Löngulínu árið 2014 og kom þá stóru hafmeyjunni í geymslu. Hún var með leynd flutt til Dragør árið 2018 og komið fyrir við Dragør fort, landfasta virkiseyju sem er í einkaeigu. Þar var sú stóra formlega afhjúpuð það sama ár, að viðstöddum borgarstjóranum í Dragør. Styttan stendur á þessum sama stað í dag.
Embættismenn hafa ákveðið að styttan skuli víkja
Nú eru 7 ár síðan sú stóra tyllti sér niður á opnu svæði við Dragør virkið og dregur að sér fjölda ferðamanna ár hvert. Ekki eru þó allir jafn hrifnir af þeirri stóru og nú hefur menningarmálanefnd Dragør ákveðið að styttan skuli flutt af svæðinu. Nefndarmenn hafa komið með ýmsar skýringar á þeirri ákvörðun að styttan skuli flutt. Hún passi ekki inn í umhverfið nefndu einhverjir, aðrir að hún væri beinlínis ljót og svo voru ummæli sem mesta athygli hafa vakið, semsé að brjóstin væru svo stór að þau væru nánast klámfengin og klúr og misbyðu sómakennd margra. Þessar fréttir af þeirri stóru hafa vakið athygli fjölmiðla víða um heim og sýnist sitt hverjum um ákvörðun menningarmálanefndar, og líka stærðina á brjóstunum. Ýmsir sem telja sig hafa vit á stærð brjósta hafa í fjölmiðlum lýst því að brjóstin séu algjörlega í réttu hlutfalli við líkama þeirrar stóru. Fjölmiðlar í Suður – Kóreu hafa flutt fréttir af málinu, enda margir ferðamenn þaðan sem leggja leið sína til Kaupamannahafnar. Til að misbjóða ekki sómakennd lesenda í Suður – Kóreu hafa þarlendir fjölmiðlar sett borða yfir brjóst þeirrar stóru þegar þeir birta af henni myndir.
Óvíst er á þessari stundu hvert styttan fer en ýmsir hafa sýnt henni áhuga og því ekki útlit fyrir að hún verði heimilislaus eða rykfalli í geymslu.
Peter Bech, eigandi þeirrar stóru, er undrandi á fjaðrafokinu vegna styttunnar en það er við hæfi að hann eigi lokaorðin í þessum pistli:
„Það er ljómandi að við hér í Danmörku höfum það svo gott að við erum upptekin af litlum vandamálum og látum aðra um stóru vandamálin.“
Athugasemdir