Tvær leiðir virðast liggja til friðar í Úkraínu. Önnur er góð en hin hræðileg. Skárri leiðin er eitthvað í líkingu við þá sem Alexander Stubb forseti Finnlands vísaði til á fundi sínum með Trump og helstu leiðtogum Evrópu um daginn. Við lok seinni heimsstyrjaldar misstu Finnar um 13 prósent lands síns í hendur Rússa. Samfara því varð um hálf milljón manns að flýja af hernumdu svæðunum til þess sem eftir stóð af Finnlandi. Finnar hafa aldrei endurheimt þessi svæði en friður hefur haldist.
Kannski er ofsögum sagt að þessi lausn sé góð, en Finnar hafa eigi að síður byggt upp gríðarlega öflugt Norrænt velferðarsamfélag og eitthvað besta menntakerfi heims í skugga hinnar rússnesku ógnar. Öllu dapurlegra er um að lítast í Vyborg, sem áður var næst stærsta borg Finnlands en er nú rússneskur smábær í niðurníðslu, þó með glæstar finnskar byggingar frá millistríðsárunum eftir arkitekta á borð við Alvar Aalto sem einnig hannaði Norræna húsið í Reykjavík.
Örlög Úkraínu gætu orðið eitthvað í þessa áttina, eða jafnvel skárri. Finnland fékk engar öryggistryggingar og gátu hvorki gengið í ESB eða NATO fyrr en eftir fall Sovétríkjanna. Meira að segja varð að bíða með inngöngu í Norrænu ráðherranefndina þar til Stalín var látinn. Nú er í umræðunni að Úkraína fá öryggistryggingar frá NATO eða í það minnsta frá þjóðum Evrópu. Ef hald er í slíku geta Úkraínumenn loksins sofið vært fyrir ógnum nágrannans og farið að byggja upp gott samfélag. Sú vinna var reyndar komin nokkuð á leið fyrir allsherjarinnrás Rússa, spilling minnkaði og lífskjör bötnuðu. Sem er sennilega hin raunverulega ástæða þess að Pútín réðist inn, því hann hefur óttast að Rússar gætu einnig farið að krefjast breytinga ef nágrannalandið yrði góð fyrirmynd.
Smá skiki í skiptum fyrir frið
Ef Úkraínumenn fengju öryggistryggingar sem hald er í mætti í raun segja að þeir hafi unnið stríðið, því þrátt fyrir mannfall og landmissi yrði framtíðin bjartari en hún var áður. Einmitt þess vegna er harla ósennilegt að Pútín myndi samþykkja slíkt. Eina leiðin til þess að hann samþykki öryggistryggingar fyrir Úkraínu er ef hann tekur ekki mark þá þeim. Og þá er voðinn vís.
Á yfirborðinu er Pútín ekki að biðja um svo ýkja mikið, aðeins lítinn skika af Donbas í skiptum fyrir frið. Með þessu móti hefur hann í það minnsta platað Trump. Því það er einmitt þessi blettur sem búið er að berjast um frá því inngrip Rússa fyrst hófust fyrir ellefu árum. Í hæðum Donbas hafa Úkraínumenn varist í meira en áratug, en fyrir aftan er flatlendi þar sem erfiðara yrði að stöðva rússneska skriðdreka. Og einmitt þetta er ástæða þess að Pútín vill fyrir alla muni ráða yfir þessu svæði, því þá telur hann að auðveldara yrði að leggja undir sig restina.
Mun verri sögulega samsvörun en þá við Finnland er að finna í örlögum Tékkóslóvakíu, sem mátti þola hernám nasista lengur en nokkuð annað ríki og svo ofríki Sovétríkjanna í næstum hálfa öld þar á eftir. Hófst þetta árið 1938 þegar Hitler gerði þá kröfu að eignast Súdetahéruð landsins. Bretar og Frakkar vildu fyrir alla muni forðast stríð og létu honum þau eftir, án þess að Tékkóslóvakar sjálfir fengju rönd við reist. Þetta voru jú ekki svo ýkja stór svæði og margir þar töluðu þýsku, voru íbúarnir ekki bara Þjóðverjar hvort eð var?
Vandinn var sá að þarna voru einmitt fjalllendi landsins, þar sem öll varnarvirki voru. Hin iðnvædda Tékkóslóvakía með Skodaverksmiðjur sínar hefði sennilega getað varist nasistum lengi í fjöllunum en eftir að hafa misst þau var aðeins flatlendið eftir þar sem lítið var um varnir. Tékkóslóvakía var nú upp á náð og miskunn Hitlers kominn en fengu á móti tryggingar frá bæði Hitler og Mússólíní, sem og Bretum og Frökkum, um að hin nýju landamæri yrðu virt. Varla þarf að taka fram að áður en hálft ár var liðið hafði Hitler lagt undir sig allt landið án þess að Bretar og Frakkar aðhöfðust neitt.
Það sem Hitler lærði…
Hitler lærði að lítið var að marka hótanir Breta og Frakka og gerði hann næst landakröfur á Pólverja sem ekki vildu láta honum eftir land í skiptum fyrir frið að fenginni reynslu. Bretar og Frakkar ábyrgðust nú landamæri Póllands, en Hitler vissi að þeir vissu að hann myndi svíkja allt sem hann lofaði og hafði enga trú á að þeir myndu standa við stóru orðin í þetta sinn. Því á það víst að hafa komið honum illilega á óvart þegar Bretar og Frakkar lýstu honum stríð á hendur þegar hann réðist á Pólland. Ef til vill hefði mátt koma í veg fyrir stríð ef Hitler hefði fengið skýr skilaboð um að landakröfur á hendur nágrönnum sínum væru ekki í boði. Þess í stað fengu Bretar og Frakkar á endanum það stríð sem þeir höfðu svo lengi reynt að forðast.
Þessi saga virðist því miður endurtaka sig. Eftir að hafa fengið allar kjarnorkusprengjur Úkraínu afhentar ábyrgðust Rússar, auk Bandaríkjamanna og Breta, landamæri Úkraínumanna. Eftir innrás Pútíns í Krímskaga og Donbas gerðu Frakkar og Þjóðverjar allt sem þeir gátu til að friða hann. Þjóðverjar byggðu bæði Nordstream 1 og 2 til að hann fengi sem mest fjár og hefði hag af friði. Macron fór til Moskvu og reyndi nánast fram á síðasta dag að tala Pútín ofan af því stríði sem forseti Rússa var orðinn staðráðinn í að hefja. Viðbrögðin urðu sennilega nokkuð meiri en Pútín hafði búist við eftir það sem á undan var gengið, það komu efnahagsþvinganir og stuðningur við Úkraínu sem jókst smám saman en var aldrei nógu mikill til að stöðva hann.
Nú er aftur talað um öryggistryggingar, en án beinnar aðkomu Bandaríkjanna. Hvort sem gefin verða fyrirheit um að koma Úkraínu til varnar eða jafnvel evrópskir hermenn sendir á vettvang sem friðagæsluliðar er lítil ástæða fyrir Pútín að ætla að þeir muni aðhafast mikið í þetta sinn.
Fái hann víglínu Úkraínumanna í Donbas afhenta mun hann nánast örugglega halda áfram, og það eftir mánuði frekar en ár, enda er Rússland þegar búið að færast yfir á stríðsefnahag. Sennilega mun það koma honum óþægilega á óvart þegar Evrópuþjóðirnar, langþreyttar á svikum hans og stríðsrekstri, munu bregðast við af hörku í þetta sinn.
Og einmitt þannig hefjast stríð sem enginn vill, með því að láta eftir landakröfum einræðisherra í von um að friða þá, allt þar til engin leið er eftir að stöðva þá nema með vopnum.
Athugasemdir (1)