Þrír sakborningar í Gufunesmálinu mættu í Héraðsdóm Suðurlands í morgun þar sem aðalmeðferð í málinu fer fram; þeir Stefán Blackburn, Lúkas Geir Ingvarsson og Matthías Björn Erlingsson. Þeir þrír eru ákærðir fyrir manndráp en tvö önnur –karl og kona sem koma síðar fyrir dóminn – eru ákærð fyrir aðild að manndrápinu. Þrjú þeirra ákærðu eru undir tvítugu.
Stefán og Lúkas hafa breytt afstöðu sinni til ákærunnar og játuðu fyrir dómi í morgun á sig frelsissviptingu og rán, auk þess sem Stefán gekkst við tilraun til fjárkúgunar.
Mikill fjöldi fjölmiðlafólks; blaðamanna, ljósmyndara og tökumanna, var mættur í þinghúsið á Selfossi í morgun og þurftu einhverjir frá að hverfa vegna plássleysis í dómsalnum.
Málið snýst um frelsissviptingu, fjárkúgun og manndráp en 65 ára gamall karlmaður, Hjörleifur Haukur Guðmundsson, fannst þungt haldinn í Gufunesi eftir alvarlega líkamsárás og lést eftir að hann var fluttur á sjúkrahús.

Stefán var fyrstur til að gefa skýrslu í morgun. Hann sagði málið hafa farið algjörlega úr böndunum og hann hefði aldrei reiknað með því að maðurinn myndi deyja. Sjálfur hafi aðeins tekið þátt í umræddum brotum til að fá peninga.
Lýsti Stefán því að Lúkas Geir hefði skipulagt aðgerðina. Hann hefði haft samband við sig til að aðstoða við að hafa fé af karlmanni sem Lúkas hafði verið í sambandi við í gegnum Snapchat. Þar hefði Lúkas þóst vera stúlka undir lögaldri sem hefði áhuga á að hitta Hjörleif. Sá hefði haldið að hann væri að fara að hitta stúlkuna þetta kvöld til að gera kynferðislega hluti.
Snemma við rannsókn málsins var greint frá því að maðurinn glímdi við heilabilun.
19 ára stúlka er ákærð í málinu fyrir aðild að frelsissviptingu og ráni, en hún hafi lokkað manninn út í bíl þar sem samverkamenn hennar biðu. Þau hafi farið á bílnum til Þorlákshafnar þar sem maðurinn var búsettur og sótt hann þangað.
Sagði Lúkas vera höfuðpaurinn
„Lúkas pitchaði þetta við mig. Ég kem bara inn í þetta sem driver,“ hefur RÚV eftir Stefáni við aðalmeðferðina.
Stefán sagði að aðgerðin hefði verið skipulögð af Lúkasi, hans aðkoma hafi aðeins verið eftir að karlmaðurinn var kominn inn í bílinn hjá þeim.
Þegar verjandi Stefáns spurði á hvaða forsendum hefði verið haft samband við manninn sagði hann: „Það er einföld ástæða fyrir því. Þarna verður til ákveðin skömm hjá geranda. Þeir eru til í að borga fyrir þögnina, þeir vilja ekkert að fólk viti að þeir vilja sofa hjá stelpum undir lögaldri,“ hafði RÚV eftir Stefáni.
DV hefur eftir Lúkasi, sem næstur gaf skýrslu, að hann hafi þóst vera unglingsstúlka að nafni Birta þegar hann var í sambandi við karlmanninn á samskiptamiðlinum Snapchat. Lúkas sagðist hafa boðið Stefáni að vera með í aðgerðinni, auk þess sem hann hafi beðið stúlkuna að hringja í karlmanninn til að mæla sér mót við hann.
Klæddu úr öllu nema nærbuxum
Þeir Lúkas og Stefán hafi verið grímuklæddir þegar maðurinn kom í bílinn. Þeir voru á Teslu sem síðan varð rafmagnslaus og þeir hafi þá haft samband við Matthías sem hafi haft fullan áhuga á að aðstoða þá við brotið.
Lúkas sagði þá alla þrjá tekið þátt í að misþyrma manninum, í því skyni að fá hann til að láta peninga af hendi. Maðurinn sagðist hins vegar ekki hafa aðgang að netbankanum sínum heldur væri það í höndum eiginkonu hans. Þeir hafi síðan fundið bréfmiða með tölustöfum í veski mannsins og getað nýtt þá til að komast inn í netbanka mannsins. Þannig hafi þeir í hans nafni tekið þriggja milljóna króna lán í gegnum app Arion banka, og millifært þá upphæð inn á reikning pilts sem er ákærður í málinu fyrir peningaþvætti.
Á endanum hafi þeir síðan ákveðið að skilja manninn eftir í Gufunesi þar sem þeir töldu að hann myndi finnast, en tóku hann úr öllum fötum nema nærbuxum til að lífssýni þeirra myndu ekki finnast á fatnaði mannsins.
Athugasemdir