Sagt hefur verið frá því að Trump og skósveinar hans stefni að því breyta mörkum kjördæma í þeim ríkjum Bandaríkjanna þar sem þeir hafa til þess völd, sem er í meirihluta ríkjanna. Þetta ferli er hafið í Texas, en þar verður ekki látið staðar numið. Þetta er ekki gert til að efla lýðræðið heldur — eins og vænta mátti — til að krækja í þingsæti með bellibrögðum í fulltrúadeildarkosningum sem fara fram seint á næsta ári. Nema þá að Trump verði áður búin að gefa út „tilskipun“ um að fresta kosningunum um óákvæðinn tíma með vísun í einhver eldgömul og úrelt „neyðarákvæði“, sem leppar hans í Hæstarétti Bandríkjanna munu efalaust láta gott heita. Demókratar kunna líka til verka í þessum efnum og huga að mótaðgerðum í þeim ríkjum þar sem þeir fara með völdin, svo sem í Kaliforníu.
En hver eru þessi brögð og hvernig má beita þeim? Um þetta er kafli í bók eftir undirritaðan sem mun koma út hjá Bókmenntafélaginu síðar á þessu ári. Þessi kafli er hér birtur lesendum til fróðleiks.
Kjördæmamöndl
Það tíðkast of víða, jafnvel í lýðræðisríkjum, að ráðandi öfl reyni að hagræða kosningakerfum sér til hagsbóta. Í þessu skyni er ráðskast með afmörkun kjördæma. Sláandi dæmi eru frá Bandaríkjunum. Með stjórnarskrárákvæðum svo og dómum hæstaréttar þar í landi er mælt fyrir um að kjördæmi við kjör í fulltrúadeildina skuli vera ámóta fjölmenn. Auk þess er viðtekið að hvert kjördæmi hangi saman, sé ekki landfræðilega slitið í sundur. Að öðru leyti hafa valdhafar þar vestra frjálsar hendur til að sníða kjördæmin eins og þeim hentar. Í meirihluta ríkja Bandaríkjanna er það á könnu pólitískra ráðamanna, þ.e. ríkisstjóra eða ríkisþinga, að afmarka kjördæmin.
Elbridge Gerry (1744–1814), þá ríkisstjóri Massachusetts en síðar fimmti varaforseti Bandaríkjanna, fann upp á því lymskubragði þegar árið 1812 að snikka kjördæmin þannig til að það kæmi flokki hans að sem mestu gagni. Slíkt möndl hefur síðan verið kennt við ríkisstjórann og kallað á ensku „gerrymandering“. Köllum það „kjördæmamöndl“. Þegar kosið er í einmenningskjördæmum, getur kjördæmamöndl verið ráðandi öflum hagstætt, ekki síst ef aðeins tveir flokkar skipta með sér öllum þorra þingsæta. Þetta tvennt á við í kosningum til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Á mynd 1 er sýnt með einföldu dæmi hvernig afmörkun kjördæma getur náð tilætluðum árangri. Vinstra megin á myndinni eru sýnd sex jafnfjölmenn svæði sem raða skal saman í tvö einmenningskjördæmi. Talið er víst að ‚grænir‘ séu í meirihluta á svæðum 1, 2, 4 og 5 en ‚brúnir‘ á svæðum 3 og 6. Í heild eru þeir grænu í meirihluta með um 2/3 kjósenda. Skeyta skal þessum sex svæðum saman í tvö kjördæmi með því að velja þrjú og þrjú samliggjandi svæði. Ráðamenn geta leyst þrautina á þrjá vegu. Í efstu gerðinni fást þau annars vegar úr svæðum 1, 2 og 3 og hins vegar úr 4, 5 og 6. Með þeirri kjördæmaskipan hljóta grænir bæði sætin. Í miðgerðinni fá brúnir og grænir sinn manninn hvorir. Sama er uppi á teningnum í síðustu gerðinni. Hvaða skipting verður valin fer að líkindum eftir því hvort það eru grænir eða brúnir sem hafa til þess mátt og megin!

Til þess að geta beitt þessum brögðum þarf að vera unnt að spá fyrir um fylgi flokkanna tveggja í sem smæstum landfræðilegum einingum. Í því skyni er stuðst við skoðanakannanir auk úrslita úr fyrri kosningum, enda eru úrslitin mjög víða birt afar sundurliðuð, svo sem eftir kjördeildum sem eru að jafnaði margar í fjölmennum kjördæmum.
Þetta á allt við í Bandaríkjunum. Kjördæmamöndl er þar enn stundað og það jafnt af Demókrötum sem Repúblikönum. Tölvuforrit hafa lengi verið á boðstólum þar í landi til að auðvelda bragðarefum að möndla með kjördæmin í anda frumkvöðulsins, ríkisstjórans Gerrys.

Á mynd 2 sést kjördæmi nr. 4 í Illinois-ríki við kosningar til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Í kjördæminu er kosinn einn af 18 þingmönnum ríkisins. Myndin sýnir kjördæmið eins og það var á tímabili fram til 2013. Síðan hefur það lítillega verið snyrt. Í kosningunum 2012, sem voru þær síðustu fyrir snyrtinguna, náðu tólf Demókratar kjöri í þessu ríki (þar af sá sem kjörinn var í umræddu kjördæmi) og sex Repúblikanar. Demókratar hlutu því 67% sætanna en Repúblikanar 33%. Skipting atkvæða í ríkinu í heild var aftur á móti 56% á móti 44%. Miðað við það hefðu þingsætin átt að skiptast hlutfallslega sem 10 á móti 8. Repúblikanar voru því hlunnfarnir um tvö sæti, e.t.v. með kjördæmamöndli.
Er víðar möndlað með kjördæmi en í Bandaríkjunum?
Víðast hvar, meðal annars í hinu höfuðríki einmenningskjördæmanna, Bretlandi, er afmörkun kjördæma í höndum óháðra, ópólitískra aðila. Þar með ætti allt möndl að vera forboðið. Í þeim ríkjum þar sem er hlutfallskosning og það með virkri landsjöfnun milli flokka væri næsta lítið að græða á bandaríska brallinu. Auk þess eru þar að jafnaði margir flokkar um hituna sem gerir brögð af þessu tagi í senn erfið og tilgangslítil. Engu að síður er ekki einfalt að afmarka kjördæmi í þéttbýlum ríkjum, eins og þeim í Vestur-Evrópu.
Væru brögð af þessu tagi freistandi fyrir einhver öfl á Íslandi? Varla. Í fyrsta lagi er svigrúmið lítið, þar sem byggðin liggur í meginatriðum með ströndum fram og þar með er afmörkun kjördæma einskorðuð við tvær höfuðáttir en ekki fjórar. Bæjarfélög, eins og Siglufjörður eða Höfn í Hornafirði, hafa að vísu verið sitt á hvað í kjördæmum austan eða vestan þeirra við kjördæmabreytingarnar 1959, 1984 og 1999. Ekki verður séð að flokkshagsmunir hafi komið þar við sögu. Skipting Reykjavíkur eftir endilöngu í tvö kjördæmi hefur heldur ekki vakið upp tortryggni af þessu tagi. Þá sjá jöfnunarsætin að mestu til þess að sá ójöfnuður, sem skapast kynni milli flokka vegna kjördæmamarka einna, jafnist út á landsvísu. En hvað ef landinu yrði skipt upp í mörg og smá kjördæmi þannig að höfuðborgarsvæðið samanstæði af fjölda kjördæma? Þá yrði að tryggja að pólitískir hagsmunir ráði ekki för.
Athugasemdir