Heimurinn þekkir hakakrossinn og hvað hann stendur fyrir. Táknið var þó víða notað áður en nasistar auðkenndu sig með þessu gamla merki - til dæmis Eimskipafélag Íslands. Skiljanlega er ákveðin viðkvæmni við notkun á hakakrossinum eða einhverju sem líkist honum, eða jafnvel öðrum merkjum sem nasistar notuðu. Illska þeirra var þvílík að allt sem minnir á verk þeirra er samfélagslega útskúfað.
Þess vegna vakti það athygli á dögunum þegar nýtt félag skreytti sig með merki sem minnti á járnkrossinn. En það var merki sem nasistar og þýski herinn notaði (og notar). Merkið er ekki alveg eins auðkennandi fyrir nasisma og hakakrossinn, en það munar ekki miklu.
Forsvarsmenn félagsins breyttu merkinu nýlega eftir gagnrýni vegna meintrar tilvísunar í nasisma. Í fjölmiðlum kom fram að hópurinn hafi ekkert á móti útlendingum heldur snúi gagnrýnin að fólki sem „misnoti kerfið“ og að útlendingar fái stuðning á meðan „Íslendingarnir okkar, langveikir og aldraðir og aðrir fá ekki neina hjálp“.
Fá enga hjálp
Til að byrja með þá er það auðvitað ekki þannig að „Íslendingarnir okkar, langveikir og aldraðir og aðrir“ fái ekki neina hjálp. En merkingin hér er líklega að þessir hópar fái ekki næga hjálp. Að þessir hópar búi við skort sem væri hægt að minnka ef ekki væri verið að hjálpa útlendingum.
Við skulum hafa það í huga að hugmyndafræði breytist ekki þó það sé skipt um umbúðir eða merki. Þannig að það er merkingarlaus athöfn í sjálfu sér. Það sem skiptir máli er auðvitað hvað fólk gerir og segir. Að breyta umbúðunum er ekkert meira en bara það. En, ef fólk vill forðast hugrenningatengslin sem merkið býr til - þá er það allavega viðleitni til þess hafna þeirri hugmyndafræði sem merkið táknar í huga margra.
Ekki bara merkið
Vandinn er að hugrenningatengslin voru ekki bara út af merkinu. Það var merkið OG framsetningin á því um hvað þetta félag snérist um sem gerði það að verkum að fólk “sá” nasisma í einhverju formi. Og hérna er það einmitt ítrekað - þó þau hafi ekkert á móti útlendingum þá gera þau samt greinarmun á milli útlendinga annars vegar og langveikra og aldraðra hins vegar. Ég leyfi mér að efast um að það sé tæmandi upptalning, en það er bara mín skoðun.
Vandinn liggur í þessum greinarmun. Þetta eru nefnilega aðskilin vandamál. Það er ekki þannig að það sé verið takmarka aðstoð við langveika og aldraða út af stuðningi við útlendinga. Það er auðvelt að láta það líta út þannig í samhengi ríkisfjármála, að aukið fjármagn á einn stað minnki fjármagn á annan stað. Heimilisbókhaldið virkar þannig. Ríkisfjármálin virka hins vegar ekki þannig - að minnsta kosti ekki einungis á þann hátt. Ríkisfjármálin ná lika inn á óefnisleg atriði þar sem kostnaður hins opinbera endurspeglast ekki 100 prósent í bókhaldinu.
Dæmið er flókið
Þannig að þó fjármagn hins opinbera sé takmarkað á ákveðinn hátt, þá er aðstoð hins opinbera ekki bara fjárhagsleg. Dæmið er flóknara.
Þess vegna er það nákvæmlega þessi hugsunarháttur sem býr til fræið um rasisma og eitthvað þaðan af verra. Því ef fólk hefði í alvörunni áhyggjur af langveikum og öldruðum þá myndi það búa til stuðningshóp fyrir þá aðila - en ekki hóp sem ætlar að ... ganga á útlendinga? (miðað við miðbæjarröltið hjá þeim).
Þessi skoðun er nefnilega mjög algeng í fordómum - og börn, aldraðir, fatlaðir ætíð kölluð til, til þess að réttlæta mismunun á einhvern hátt. Af því að auðvitað eigum við að hafa samúð með þeim. Því er haldið fram að þau fái ekki nóg út af þeim sem eru að svindla á kerfinu á einhvern hátt. Út af útlendingum sem fá aðstoð.
En það er svo merkilegt að þegar það á að ganga í að laga þennan meinta skort, þá gerist einhverra hluta vegna ekki neitt. Það er enn skortur á hjúkrunarrýmum. Farsældarlögin eru ekki enn fjármögnuð. Sjúkratryggingar vegna sálfræðiþjónustu eru ekki enn fullfjármagnaðar heldur. Samt eru þetta lögbundin verkefni.
Vítahringur ofbeldis
En hvorki útlendingar né svindl eru ástæðan fyrir því að þessi verkefni eru ekki fjármögnuð. Að skella skuldinni á einn hóp eða annan vegna meints skorts býr mögulega til samfélagslega óvild gagnvart þeim hóp. Afleiðingarnar af því geta verið fordómar og afleiðingar af fordómum getur verið ofbeldi.
Auðvitað eigum við að taka á svindli. Það eru líka allir sammála um það. En við verðum að passa okkur svakalega mikið á því hverja við ásökum um svindl og hvernig. Skaðlegir fordómar eru mjög líklegir - og vítarhingur ofbeldis sem erfitt er að rjúfa.
Athugasemdir