Framkvæmdastjóri útgerðarsviðs og einn af stofnendum Samherja, Kristján Vilhelmsson, hefur keypt gömlu höfuðstöðvar Landsbankans í hjarta miðborgar Reykjavíkur, ásamt viðskiptafélaga sínum Leó Árnasyni.
Kristján, sem hefur hagnast verulega á sjávarútvegi, hóf fyrir nokkrum árum aðkomu að fasteignaverkefnum. Þeir tveir hafa staðið fyrir uppkaupum á fleiri eignum Landsbankans, meðal annars höfuðstöðvunum á Selfossi, og byggt upp nýjan miðbæ á Selfossi.
Félagarnir, í gegnum félagið Landsbyggð ehf, kaupa ekki aðeins gamla Landsbankahúsið við Austurstræti 11 heldur einnig er Hafnarstræti 10–12, svonefnt Edinborgarhús frá árinu 1923, auk Hafnarstrætis 14 sem var reist árið 1970.
„Austurstræti 11 er eitt glæsilegasta hús landsins og reyndist bankanum afar vel,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, í tilkynningu á vef bankans. „Salan markar tímamót því nú hefur bankinn selt öll Landsbankahúsin, sem voru teiknuð af eða byggðu á teikningum Guðjóns Samúelssonar, en líkt og átti við um hin húsin hentaði Austurstræti 11 ekki lengur starfsemi bankans. Það er mikilvægt fyrir miðborgina að húsið fái nýtt hlutverk og það verður áhugavert að fylgjast með hvernig byggingarnar verða nýttar og svæðið glætt nýju lífi.“

Guðjón Auðunsson, stjórnarformaður Landsbyggðar, segir í sömu tilkynningu að reynt verði að gera húsin „lifandi hluta af borginni á ný“.
„Landsbyggð horfir til þess að þróa húsin með virðingu fyrir sögu þeirra og staðsetningu með það að markmiði að þau verði lifandi hluti af borginni á ný. Markmiðið er að efla mannlíf í hjarta borgarinnar. Húsin og staðsetningin bjóða upp á ótal möguleika sem ríma vel við þá hugsun sem liggur að baki okkar verkefnum – að vinna með sögu og staðaranda og búa til nýja og skemmtilega áfangastaði.“
Landsbankinn flutti starfsemi sína úr Kvosinni árið 2023, úr samtals 12 húsum, í nýtt húsnæði við Reykjastræti 6. Tvö tilboð bárust og var tilboð Landsbyggðar metið hagstæðara, að teknu tilliti til tilboðsskilmála og núvirðis á greiðslum. Söluverð húsanna er 2,85 milljarðar króna.
Kristján Vilhelmsson og Leó Árnason eiga sinn helminginn hvor í félaginu Landsbyggð ehf. Þeir eiga sömuleiðis félagið Sigtún sem byggir upp nýjan miðbæ á Selfossi og keypti Landsbankahúsið á Selfossi árið 2020 á 350 milljónir króna. Kaupin voru nokkuð umdeild. Eins og fjallað var um í Heimildinni í september 2023 greindi bæjarfulltrúi í Árborg frá því að hann hefði fengið tilboð um fjárhagslegan stuðning í kosningabaráttu gegn því að koma í veg fyrir að sama hús yrði keypt af sveitarfélaginu.

„Það þarf að stöðva þessa vitleysu. Íslandi er stundum líkt við Sikiley, hér er nándin svo mikil og menn þora ekki að stíga fram. En ég er bara þannig gerður að ég er kjarkaður, ég óttast engan og ekkert og hef aldrei gert,“ sagði bæjarfulltrúinn, Tómas Ellert Tómasson. Leó hafnaði ásökununum. „Ég er ekki að múta mönnum,“ sagði hann, en ljósmynd af glærusýningu hans á fundi þeirra sýndi hins vegar að hann bauð aðkomu að kosningabaráttu samhliða því að Árborg félli frá kaupum á húsinu.
Landsbyggð hagnaðist um 439 milljónir króna á síðasta birta uppgjörsári, 2023. Þá skuldaði félagið Kristjáni 2,5 milljarða króna. Var boðað að hlutafé yrði aukið um tvo milljarða króna. Félagið hét Austurbær - Fasteignafélag þar til í maí að nafni þess var breytt.
Athugasemdir (3)