Langar umræður eru á Alþingi um frumvarp um breytingu á veiðigjöldum, í þremur greinum með tveimur efnisbreytingar og ítarlega greinargerð. Breytingarnar eru að hlutur samfélagsins í arði af eigin auðlind á að hækka um nálægt 10 mrd.kr. frá árinu 2026. Landsframleiðslan (VLF), það er það fé sem einstaklingar í þjóðfélaginu, þar með talið félög og eigendur þeirra, hafa til ráðstöfunar til neyslu eða fjárfestinga, er á sama tíma um 5.000 mrd. króna. Hækkun veiðigjalda er um 0,2% af þeim tekjum. Hvaða áhrif hefur hækkunin? Um hvað er tekist á?
Hefur hækkunin áhrif á VLF? Nei. Heildartekjur af fiskveiðunum ráðast af aflamagni og söluverðmæti afurða. Veiðigjöldin hafa ekki áhrif á þessa þætti. Aflamagnið ræðst af veiðiheimildum og afurðaverð ræðst á alþjóðamarkaði.
Hefur hún áhrif á launatekjur við fiskveiðar eða fiskvinnslu? Nei. Þörf á löndun og fiskvinnslu ræðst af aflamagninu og er óbreytt. Álagning veiðigjalda hefur enginn áhrif á laun við veiðar, löndun eða vinnslu afurða, þau eru ákveðin í kjarasamningum.1
„Hefur hún áhrif á byggð landinu eða tekjur sveitarfélaga? Nei“
Hefur hún áhrif á byggð landinu eða tekjur sveitarfélaga? Nei. Veiðigjöld eru greidd af útgerðum og eigendum þeirra. Útgerðin greiðir enga beina skatta til sveitarfélaga og eigendur stórútgerða eru fæstir búsettir á landsbyggðinni. Laun fyrir veiðar og vinnslu verða óbreytt og útsvarsstofn sveitarfélaga verður einnig óbreyttur. Veiðigjöld hafa ekki heldur áhrif á tekjur sveitarfélaga af löndun fiskafla.2
Hafa veiðigjöldin áhrif á fjárfestingar í greininni? Nei. Fjárfesting í atvinnurekstri ræðst af arðsemi sem veiðigjöld hafa ekki áhrif á. Reynslan sýnir að frá því að veiðigjöldin voru hækkuð árið 2012 hefur fjárfesting verið mikil. Þá voru 3 af 56 togurum í landinu yngri en 10 ára. Árið 2024 voru 18 af 37 togurum yngri en 10 ára.3,4
Gera veiðigjöld útgerð óarðbæra? Nei. Veiðigjöld eru miðuð við auðlindarentu í útgerð, það er hagnað umfram það sem almennt gerist í atvinnurekstri. Arðsemi útgerðar er nú langt yfir þeim mörkum. Lækki hún af einhverjum ástæðum lækka veiðigjöld í takt við umframhagnað og falla alveg niður þegar hann er ekki lengur til staðar og munu aldrei skerða eðlilega arðsemi.5
Er hækkun veiðigjalda mikil? Nei. Eftir hækkun yrðu veiðigjöld á föstu verðlagi svipuð og þau voru á árunum 2012 og 2013, það er áður en þau voru lækkuð af síðari stjórnvöldum.6
Almannaréttur og auðlindagjöld
Átökin á Alþingi eru ekki um þessi atriði. Þau liggja ljóst fyrir og margoft hefur verið sýnt fram á haldleysi annarra staðhæfinga sem veifað er til að fela undirliggjandi ágreining milli almannahagsmuna og sérhagsmuna. Náttúruauðlindir á Íslandi hafa verið alltaf verið álitnar eign almennings. Við upphaf byggðar fylgdi búsetu réttur til að nýta landið og hafið úti fyrir ströndum. Það var almannaréttur að nýta sameiginlega land utan bújarða, vötn og haf til að afla íbúunum á svæðinu lífsviðurværis. Þótt þessi almannaréttur hafi á stundum verið skertur með valdboði kónga og kirkju hefur hann aldrei afnuminn með lögmætum lýðræðislegum hætti.7 Hann hefur hins vegar verið varinn og hann aðlagaður breyttum efnahagslegum og félagslegum aðstæðum með lýðræðislegum ákvörðunum, settum lögum.
„Réttur þjóðarinnar til að ákveða og fá réttláta hlutdeild í arðinum af fiskveiðum er ótvíræður“
Réttur Íslendinga til fiskveiða var verndaður fyrir ágengni erlendra aðila og fiskveiðilandhelgin færð út í 200 mílur. Til að koma í veg fyrir hrun fiskistofna og tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra var settur heildarkvóti fyrir flestar fiskitegundir. Til að auka hagkvæma fiskveiða var framsal veiðiheimilda heimilað en um leið undirstrikað að fiskveiðiauðlindin væri eign þjóðarinnar. Sum þessara laga skertu rétt almennings til að nýta fiskveiðiauðlindina. Var það gert í þeim tilgangi að tryggja viðgang fiskistofnanna og auka efnahagslegt virði fiskveiða fyrir þjóðarbúið. Ekki var verið að fórna einkarétti eða hagsmunum tiltekinna einstaklinga heldur hluti af rétti almennings.
Réttur þjóðarinnar til að ákveða og fá réttláta hlutdeild í arðinum af fiskveiðum er ótvíræður. Andstaðan á Alþingi við frumvarp um veiðigjöld er ekki til að verja hagsmuni almennings eins og látið er í veðri vaka. Átökin á Alþingi eru um það hvort eigi að ráða almannaréttur og þjóðareign á fiskveiðiauðlindinni eða völd þeirra sérhagsmunaaðila sem fengu tímabundið leyfi til að nýta hana. Framsal á fiskveiðiauðlindinni til einkaaðila mun ekki takmarkast við hana eina heldur verða stökkpallur sérhagsmunaðila til að fá yfirráð annarra náttúruauðlinda í sínar hendur og verða fordæmi fyrir fiskeldi í fjörðum landsins, nýtingu vatns- hita- og vindorku, hráefnatöku og fleira.
"Verg landsframleiðsla" (VLF) er nefnilega skilgreind sem heildarsumma þess verðs (magns peninga) sem er greitt fyrir allar vörur og þjónustu sem ganga kaupum og sölu í landinu á tilteknu tímabili svo sem einu ári. Þar sem peningar eru einsleitir og sömu peningar geta skipt um hendur í viðskiptum margoft á einu ári er ekkert sem kemur í veg fyrir að sömu krónurnar séu taldar mörgum sinnum á þessum mælikvarða. Enda er VLF jafnan talsvert hærri en heildarpeningamagn í umferð hverju sinni. Aftur á móti hafa raunvísindalegar rannsóknir sýnt fram á bein tengsl á milli aukningar peningamagns í umferð og aukningar VLF (sem er kallað hagvöxtur). Þetta eru því aðeins mælikvarðar á umfang og hraða peningaprentunar. Fátt rýrir virði peninga og þar með kaupmátt almennings meira en óhófleg peningaprentun.
Með öðrum orðum: VLF mælir EKKI kaupmátt, EKKI framleiðslu, EKKI verðmætasköpun og ALLS EKKI velmegun eða velsæld í samfélagi, heldur aðeins peningaprentun sem er til þess fallinn að rýra allt framangreint á mælikvarða raunveruleikans. Þegar þið heyrið hagfræðing vegsama hagvöxt (peningaprentun) ættuð þið því að hafa áhyggjur og ef þið heyrið stjórnmálamann lofa "auknum hagvexti" ættuð þið að fyllast skelfingu!
Nú fer fyrst að reyna á hvort eitthvað gagn er af öllum skýrslunum sem hafa undanfarin ár streymt frá ráðuneytum um vindorkuna og orkumál almennt. Þar ber hæst skýrslan „Skattlagning orkuvinnslu“ frá febrúar 2024. En skýrslan er því miður hrein skelfing og myndi stórskaða hag ríkissjóðs ef henni yrði fylgt. Einkum er í skýrslunni horft til Noregs sem er útí hött. Í Noregi er, gjörólíkt hér, allar náttúruauðlindir sem nýttar eru til orkuframleiðslu í eigu ríkisins og nýttar í þágu þjóðarinnar „i Norge er naturressursene ansett som en felles ressurs som forvaltes av staten på vegne av folket”. Í Noregi er því lagt auðlindarentugjald á t.d. vindorku óháð því hver landeigandinn er.
Hér og víðast annars staðar, t.d. í Svíþjóð, Finnlandi, eru orkuauðlindir í flestum tilvikum eign landeigandans. Landeigandi vindorku er oftast í einkaeign. Í Svíþjóð og Finnlandi þá er af þessari ástæðu, í stað auðlindarentugjalds lagður raforkuskattur á sölu raforku. Hér yrði gjaldtakan ef af yrði með svipuðum hætti þ.e.a.s. raforkuskattur af sölu raforku. Tilgangurinn er þó hin sami og með auðlindarentugjaldinu í Noregi og gjaldtakan á orkueiningu u.þ.b. sú sama..
Þessi mistök og margt fleira í „skattlagning orkuvinnslu“ skýrslunni lýsir fádæma vanþekkingu á orkumálum erlendis og á raforkumörkuðum almennt. Til að kóróna vitleysuna þá eru tillögur skýrslunnar takmarkaðar við raforkuframleiðslu. Þetta kemur endanlega í veg fyrir notagildi skýrslunnar, því í ljósi eignarhaldsáorku á orkuauðlindum vindorku á Íslandi þá kemur þessi afmörkun í raun í veg fyrir umfjöllun um raforkuskatt á sölu, sem er sú leið sem farinn er í Svíþjóð og og Finnlandi. Raforkuskatturinn er þar helsta gjaldtaka ríkisins af orkugeiranum.
Eftirspurn eftir raforku í Evrópu líkt og hér mun aukast verulega með orkuskiptum o.fl. . Nýir raforkunotendur, t.d. gagnaver þrýsta verðinu upp og jafna verð milli landa. Öll lönd munu reyna að stýra umsvifum og vexti raforkugeirans og auðlindanýtingar á þann hátt að geirinn skapi sem mest velsæld fyrir þegnana. Raforkuskattur er mikilvægur þáttur þar í. Á Íslandi er allur undirbúningur varðandi raforkuskatt í skötulíki, að mestu ónothæfur, m.a. vegna slakrar vinnu við undirbúning skattlagningar. Þessir gallar á “Skattlagning orkuvinnslu” skýrslunni gætu leitt til þess að ríkissjóður yrði af 100 MILLJÖRÐUM í tekjum á ári að einhverjum tíma liðnum og er þá horft til hvort sem er raforkuskatts í Svíþjóð eða Finnlandi og víðar. Þetta er auðvitað upplagt að hugleiða í ljósi ræðuhalda þessa daganna á Alþingi um auðlindagjöld af sjávarútveginum sem eru nú bara einn tíundi af því sem orkugeirinn gæti skilað okkur í framtíðinni ef betur væri vandað til verka. Auðlindagjaldið af sjávarútvegi er bara smáaurar í samanburðinum, tekur því varla að rífast útaf því.
Sjá einnig umsögn mína frá í maí í samráðsgátt stjórnvalda um “Stefnu stjórnvalda um öflun raforku”