Ég kastaðist til í skýstrók hversdagsins þegar dyrabjallan hringdi. Ég staulaðist til dyra með „to-do“ listann í höfðinu og óunnin verk á samviskunni. Ekki aðeins þurfti að þrífa fyrir afmæli yngsta barnsins, baka köku og undirbúa partíleiki heldur einnig að mæta á íþróttadaginn í skólanum, föndra búninga fyrir leiksýninguna, hjálpa til við skólaballið og sumarpartíið, kaupa happdrættismiða af foreldrafélaginu, ferja alla á kóramótið, aðstoða við heimavinnuna, skrá börnin í sumarnámskeið og lestrarátakið á bókasafninu, passa að dóttirin mætti ekki óæfð á fiðlutónleikana, leira og lakka skrautmunina sem hún hafði tekið að sér að selja til styrktar skólanum, hvetja áfram vanrækta miðjubarnið á fótboltamótinu, mæta á foreldrafund, muna eftir sparinestinu og ósamstæða sokkadeginum, og svara öllum WhatsApp skilaboðunum.
Þegar ég opnaði dyrnar blasti við mér póstburðarmaður með breitt bros.
„Góðan daginn,“ sagði hann hátt og snjallt þar sem hann stóð með fangið fullt af pökkum.
Mér varð um. Ég var vön því að sendlarnir legðu pappakassana frá sér við dyrnar og hlypu burt, enda ynnu þeir við kröpp kjör í akkorði.
„Er verið að halda afmæli?“ spurði hann og veifaði þremur rúllum af gjafapappír sem ég hafði pantað af Amazon.
„Já,“ stundi ég upp, vönkuð af völdum skýstróksins. „Sonur minn er að verða fimm ára.“
„Dásamlegur aldur,“ svaraði sendillinn. Hann lét þó ekki þar við sitja heldur hóf að ræða daginn og veginn.
Ég stóð furðu lostin í dyragættinni. Á meðan maðurinn lífgaði upp á stormasaman dag úthverfamóður fengi hann sennilega ekkert greitt frá vinnuveitanda sínum. Slíkt dægurhjal kostaði hann því bókstaflega skildinginn.
Frá mínum bæjardyrum séð endurspeglaði virði vinalega sendilsins ekki með nokkru móti verð hans.
Dýrasta starfsfólk landsins
„Verðmætasta starfsfólk Íslands“ hljóðaði fyrirsögn í Heimildinni í síðustu viku. Fjallaði fréttin um starfskjör launahæstu forstjóra fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllinni. Nýtur „dýrasta starfsfólk landsins“ kjara á við tíföld meðallaun á íslenskum vinnumarkaði. Laun tekjuhæsta forstjórans, Róberts Wessman, reyndust 31,7 sinnum hærri en laun einstaklings á íslenskum meðaltekjum.
En er „verðmætasta“ starfsfólkið raunverulega verðmætasta starfsfólkið?
Glaðlyndi Amazon sendillinn sem létti mér lífið í síðustu viku er ekki fyrsti póstburðarmaðurinn sem ratar í pistil.
Fyrir fimm árum skrifaði ég um Mehmet. Mehmet var dálítið eins og pósturinn Páll. Hann brunaði um hverfið á póstbíl og veifaði. Fólk brosti og heilsaði. Hann spjallaði, spurði út í hagi fólks og sagði börnunum brandara.
Þegar Covid skall á fyrir fimm árum var „hetjulegt“ framlag mitt til baráttunnar gegn útbreiðslu kórónaveirunnar að halda mig heima í sóttkví og hámhorfa á Netflix. Á hverjum degi lagði Mehmet hins vegar eigin heilsu að veði og kom sendingum – mat, lyfjum og fatnaði – til mín og annarra íbúa Norður-Lundúna.
Umbunin sem hann fékk var þó í hrópandi ósamræmi við mikilvægi hans í lífum okkar sem sátum föst heima. Sendlar eins og Mehmet náðu varla lágmarkslaunum. Þeir unnu gjarnan í lausamennsku og áttu enga frí- eða veikindadaga. Þeir fengu ekki greitt fyrir tímann heldur fyrir hverja sendingu og urðu að hafa sig alla við. Svitinn perlaði því af ennum þeirra jafnt sumar sem vetur.
Í Covid afhjúpaðist raunverulegt virði mismunandi starfsstétta. Í ljós kom að það voru ekki launahæstu hóparnir, forstjórarnir, sem reyndust mikilvægastir þegar á reyndi. Við vorum öll komin undir heilbrigðisstarfsfólki, starfsfólki í matvælaframleiðslu, afgreiðslufólki verslana, fólki í umönnunarstörfum, ræstingum og Mehmet.
Í kjölfarið blasti sannleikurinn við: Dýrasta starfsfólkið var ekki það sama og verðmætasta starfsfólkið. Upp úr sviðnum jarðvegi Covid hlyti að spretta ný veröld jafnaðar og réttlætis.
Hvar er Mehmet?
Raunin varð önnur.
Einn dag, í miðju Covid, hringdi dyrabjallan. Ég opnaði dyrnar. Við mér blasti sendill. Sendillinn var ekki Mehmet.
Vikurnar liðu og aldrei kom Mehmet.
„Hvar er Mehmet?“ spurðu krakkarnir.
Vikurnar urðu að mánuðum. Mánuðirnir urðu að fimm árum.
Það hvarflaði stundum að mér að senda póstburðarfyrirtækinu tölvupóst og spyrjast fyrir um hvað hefði orðið um ástkæran hverfissendilinn. Ég lét aldrei verða af því. Ég vildi geta talið sjálfri mér trú um að Mehmet hefði flust heim til Tyrklands eða fengið nýja vinnu sem gerði honum kleift að viðhalda tveggja metra reglunni. Ég vissi þó sem var. Líklegasta skýringin á skyndilegu brotthvarfi Mehmet var sú að hann tilheyrði nú þeim stóra hópi lykilstarfsmanna samfélagsins sem létust úr Covid.
Haft er eftir Oscari Wilde að sú manneskja sé kaldlynd sem veit verðið á öllu en virði einskis.
Fréttin um forstjóra Kauphallarinnar í Heimildinni sýnir að fimm árum eftir að Covid gerði vart við sig erum við sem samfélag jafnblind á raunverulegt virði einstaklingsins og við vorum fyrir faraldurinn.
Athugasemdir (2)