Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, leggur til að virkjunarkosturinn Garpsdalur í Reykhólahreppi verði settur í orkunýtingarflokk rammaáætlunar.
Tillagan hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Með henni yrði breytt tillaga verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaáætlunar sem lagði til við ráðherra í maí síðastliðnum að allir 10 vindorkukostirnir í 5. áfanga rammaáætlunar færu í biðflokk. Er þetta í fyrsta skipti sem ráðherra leggur til þá breytingu á tillögu verkefnisstjórnar að virkjunarkostur fari í nýtingarflokk, að því kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Í rökstuðningi sínum segir ráðherra að virkjunin í Garpsdal hafi fengið jákvæðari umsagnir frá faghópum rammaáætlunar en aðrir kostir sem voru til umfjöllunar, bæði hvað varðar áhrif á náttúru og samfélag, og að meiri sátt virðist ríkja um kostinn í nærsamfélaginu en um aðra vindorkukosti.
Vísað er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins þar sem áhersla er lögð á aukna orkuöflun í þágu orkuöryggis, orkuskipta og verðmætasköpunar um allt land. Að mati ráðherra eiga þeir virkjunarkostir að ganga fyrir sem eru í senn hagkvæmir og fela í sér minnstu umhverfisáhrifin.
Aðrir vindorkukostir bíði umfjöllunar verkefnisstjórnar
„Við tökum eitt skref í einu í vindorkunni og gefum ekki grænt ljós á frekari framkvæmdir fyrr en skýr rammi og lagaumgjörð liggur fyrir,“ er haft eftir Jóhanni Páli. „Þar verður lögð áhersla á að verja náttúruverðmætin sem við eigum hérna saman og tryggja sátt og samstöðu í nærsamfélaginu.“
„Gefum ekki grænt ljós á frekari framkvæmdir fyrr en skýr rammi og lagaumgjörð liggur fyrir“
Stefnir hann að því að leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis að Garpsdalur fari í orkunýtingarflokk rammaáætlunar samhliða kynningu á vindorkustefnu og breyttri lagaumgjörð um vindorkunýtingu á næsta löggjafarþingi.
„Aðrir vindorkukostir í tillögum verkefnisstjórnarinnar munu fá áframhaldandi umfjöllun hjá nýrri verkefnisstjórn rammaáætlunar sem skipuð var 12. júní 2025, en í skipunarbréfi hennar kemur fram að við tillögugerð skuli tekið mið af markmiðum ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur um aukna raforkuöflun í þágu orkuöryggis, orkuskipta og verðmætasköpunar um allt land,“ segir Jóhann Páll.
Athugasemdir