Ég er búin að segja ykkur frá fornbókabúðinni, þar sem Milla starfar, og sundlauginni á Salteyri, þar sem bæjarbúar koma saman til að slúðra á morgnana. En hjarta Salteyrar slær í Dúkkuverksmiðjunni hennar Stínu, það myndi enginn reyna að þræta fyrir sem þangað hefur komið.
Dúkkuverksmiðjan kann að vera nokkuð óvænt nafn á krá og gistiheimili en ástæðan fyrir því er sú að eitt sinn bjó þarna manneskja sem bjó til brúður úr postulíni, leir, næloni og líni, dúkkur með örsmáar hendur og augu sem aldrei lokuðust. En hún er látin og Dúkkuverksmiðjan er í eigu Gríms Refs og Kristínar Edgarsdóttur, foreldra Millu, sem hafa breytt þessum fortíðarminjum í nútímalegan griðastað sem allir dýrka. Á sumrin er gist í öllum herbergjum Dúkkuverksmiðjunnar, þá er líf og fjör, en þegar hausta tekur hverfa ferðamenn úr bænum enda ekkert sjarmerandi að þeirra mati við rok og ófærð á „steindauðum stað“. Kajakleiga Reynis fer í vetrarfrí, fornbókabúð Millu er lokað fyrir aðra en skólakrakkana. Flesta daga er of vont veður til að fara í göngutúra og stundum lokast vegurinn til Ísafjarðar svo það er ekki hægt að fara neitt.
Hafið ógnar nærliggjandi húsum með dramatík, kettirnir gera hlé á fuglaveiðum og hörfa inn til sín og líkt og eigendur þeirra sitja þeir oft við gluggann og stara út í enda laust myrkrið, langeygir eftir skímunni. En fastagestir Dúkkuverksmiðjunnar, íbúar bæjarins, eru enn á stjái. Þau berjast í gegnum mesta rok til að fá sér morgunsundsprett í sundlauginni, kaupa sér brauð og pulsur og garn á bensínstöðinni og tylla sér svo niður í undurhlýja veitingasalnum í Dúkkuverksmiðjunni.
Morgunbollinn er heilagur helgisiður margra Salteyringa. Þá gefst tími til að skiptast á dagblöðunum og fréttum úr pólitíkinni og af heilsufari og fjölskyldunni. Þau vita að það er fátt jafn róandi og að lesa blöðin við ljóstíru frá rykugum lampa með hekluðum skermi úr smiðju húsfrúarinnar. Stilla heiminn rétt áður en dagurinn byrjar og fólk hverfur til sinna starfa. Um kvöldið breytist staðurinn í notalegt athvarf, þar sem klingjandi glös og vegleg samloka, vaffla með rabarbarasultu eða ríkuleg og bragðmikil fiskisúpa, veita huggun eftir langan dag. Þá er safnast saman kringum bjórdæluna langt fram á nótt.
Í Dúkkó hafa margir bæjarbúar mannað sig upp í fyrsta sleikinn við nágrannann seint um kvöld. Fólk hefur mis þyrmt sæmilegum dægurlögum hárri raustu á dansgólfinu, gefið hvert öðru jólagjafir, haldið upp á afmæli. Krakkar lesið skjálf rödduð upp sitt fyrsta ljóð og börnin í grunnskólanum sett upp leikrit sem flestir bæjarbúar mæta á og blístra og stappa. Stundum er líka grátið þar inni og þegar fjörið er mest magnast skvaldrið stöðugt þar til allir eru sendir heim eða upp í ból. Stína þakkar fyrir í dag og kveður misfulla nágranna með faðmlagi.
Kristín, eða Stína í Dúkkó eins og hún er jafnan kölluð, sér um daglegan rekstur Dúkkuverksmiðjunnar. Á sumrin tekur hún á móti fyrstu gestum dagsins, túristum og útivistarfólki úr borginni eða fjölskyldum á hringferð, réttir þeim lyklana og segir þeim frá helstu kennileitum þorpsins. Hún heldur herbergjum og klósettum hreinum með ilmsápum og skreytir þau með loðnum klósettlokum sem hún ryksugar á hverjum degi áður en hún opnar veitingasalinn og kveikir á kertum, undirbýr súpuna, bakar brauðið. Spjallar við einmana sálir sem inn rata, sér um viðburði eins og ljóðakvöld, leikritasýningar, samskipti við húsbandið og er reglulega með bóka kvöld. En hvernig komst Dúkkuverksmiðjan annars í hendurnar á sómafólkinu Stínu og Grími?
Grímur og Stína ólust bæði upp á Vestfjörðum og höfðu lítið annað farið þegar þau kynntust. Nutu sín í faðmi fjallanna í vestfirska rokinu á sumardögum með lakkrísrör í kóki hoppandi í parís eða vippandi á vegasalti á meðan þau slitu barnsskónum.
Þau bera bæði sterkan Vestfjarðasvip, eru svipmikil, hraustleg en nokkuð smávaxin. Þau kynntust á balli í félagsheimilinu í Hnífsdal. Bjartmar var að spila og Stína mætti með Höllu systur sinni, þær báðar í snjóþvegnum gallabuxum. Steinsnar frá stóð ókunnugur töffari á svipuðu reki sem tók eftir þeim án þess að það sæist að hann væri að gjóa til þeirra auga.
Grímur var í rúllukragapeysu og flauelsbuxum með skegghýjung og kringlótt gleraugu. Hann hafði komið með stóru systur sinni frá Flateyri þar sem þau bjuggu, ætlaði að vera á bíl en freistaðist til að fá sér drykk. Þegar Bjartmar söng um mömmu sem beyglar alltaf munninn þegar hún maskarar augun gólaði Stína með af svo mikilli innlifun að hún hrasaði og datt á manninn sem fylgdist íbygginn með Bjartmari í gegnum kringlóttu gleraugun, þaðan kylliflöt á gólfið.
Hún hellti vodka í Sinalco yfir fínustu peysuna hans. Skellihló þar sem hún klöngraðist skömmustuleg á fætur með hjálp systur sinnar en greip fyrir munninn þegar hún leit á fórnarlambið.
Æ, úbbossí, æ guðminn, er þetta dýr peysa? Fyrirgefðu, ég er ekki með mikinn pening. Er hún ónýt? Viltu kannski eiga drykkinn minn?
Nei.
Í alvöru, taktu drykkinn. Ég er blindfull.
Það er ekkert í þessu glasi, þú helltir öllu yfir mig.
Fyrirgefðu, fliss. Þú ert ógislega sætur.
Þetta var sannarlega flottasta peysan hans sem hann hafði nýverið eytt öllu sparifénu í fyrir sunnan. Það var farið að síga í Grím en bros stríðnislegu konunnar, villtar krullurnar, svolítið skakkar tennurnar og dansandi augun dempuðu mestu bræðina. Svo hann ákvað að vera töff og með stæla í staðinn.
Ég fyrirgef þér ef þú sýgur á mér typpið.
Ha?
Þú mátt … þú mátt alveg …
Grímur bölvaði því að vera svona hvatvís og beið eftir löðrungi sem ekki kom. Hávaðinn í hljómsveitinni hafði líklega kæft hvert orð og hann gert sig að fífli. En hún brosti lymskulegar en fyrr.
Ég heyrði hvað þú sagðir.
Þú hefðir kannski ekki hlegið, kannski skvett því örlitla sem eftir var af drykknum þínum yfir hann og ég skil það vel. En Stínu fannst þetta fyndið, hún vafði höndum um háls hans og kyssti hann rembingskossi sem varð að rennblautum fylliríssleik sem entist allt ballið á meðan þau þeystu um dansgólfið
Þegar ljósin voru kveikt fór fólk að skakklappast út úr félagsheimilinu, sum með ríðufélaga eða partífélaga í takinu og önnur með glóðarauga eða á bömmer. Þegar Grímur sá systur sína hverfa út í myrkrið með þéttingstak um hálsinn á blindfullum slána ákvað hann að bjóða konunni sætu upp í Landróverinn sinn sem var lagt á planinu. Stína þáði og hann leiddi hana inn í aftursætið.
Geturðu skutlað mér heim til Ísafjarðar?
Já, ég þarf að láta renna af mér.
Ég skal hjálpa þér.
Hún kom sér fljótt að verki, hjálpaði honum úr klístruðum buxunum og saug á honum typpið. Svo fullkomlega. Hann hafði aldrei hitt eins framhleypna gellu. Langaði að bjóðast til að hætta áður en hann fengi það, bjóðast til að fara inn í hana, þá myndi hún kannski fá það líka, en þetta var bara allt of gott. Hann fékk það loks yfir flottu snjóþvegnu buxurnar hennar, með miklu offorsi og eiginlega furðulega snemma og með undarlegum hljóðum, en hún varð ekkert hneyksluð. Ekki heldur pirruð yfir því að buxurnar yrðu skítugar. Hún brosti og dreifði úr klístrinu yfir gallaefnið.
Nú erum við kvitt.
Við tók vandræðaleg þögn þar til hann reiddi fram spaðann og ræskti sig.
Ég heiti Grímur, sem sagt.
Var asnalegt að rétta höndina að manneskju sem var með brundklessu eftir mann á gallabuxunum?
Ég er Stína. Edgarsdóttir.
Edgar?
Já, nema ég er Stína, pabbi er Edgar. Þú ert sætur, Grímur.
Hún tók þéttingsfast í spaðann á honum. Hvernig var hægt að vera svona dásamleg?
Grímur veiddi Kent-sígarettupakka úr hanskahólfinu og bauð henni í þakklætisskyni. Kveikti í fyrir þau bæði, bar sína upp að samanherptum vörum, töff eins og Stallone, saug og rétti henni. Hún tók við og gerði eins. Hann langaði að heilla hana, segja eitthvað sniðugt, og í örvæntingu rak hann augun í stílabókina sína í aftursætinu og teygði sig í hana.
Ég hef aðeins verið að skrifa.
Ertu rithöfundur?
Skáld kannski meira, eða já.
Lestu fyrir mig, Þórbergur.
Það þurfti ekki að biðja hann tvisvar.
Andardráttur hennar þyngdist á meðan hann þuldi upp ljóðin sín. Hann lokaði bókinni þegar hún var sofnuð og horfði á hana. Þakklátur kom hann sér fyrir í sætinu við hlið hennar. Hélt þétt utan um hana þar til þungur höfgi færðist yfir hann líka.
Grímur vaknaði ískaldur, á bílastæðinu fyrir utan félagsheimilið, við að húsvörðurinn bankaði og gaf honum reiðilega merki um að skrúfa niður rúðuna. Hann rétti sig við í snarhasti, ræskti sig ráðvilltur og sneri svo sveifinni.
Þú getur ekki sofið hér, lagsi.
Nei, nei. Hóst. B-blessaður vertu ævinlega. Ég er bara á heimleið.
Það rumdi í Grími en hann bætti engu við, setti bílinn bara í gang og renndi úr hlaði. Skammaðist sín fyrir að hafa verið að drekka þótt hann væri á bíl. Sá að stílabókin hans með ljóðunum var opin á gólfinu og skammaðist sín enn meira. En svo leiddi hann hugann að konunni sætu. Kannski kunni hún að meta ljóðin í alvöru. Hann hafði áreiðanlega ekki ímyndað sér hana. Sígarettulyktin gaf til kynna að þau hefðu verið þarna bæði og hann mundi fullnæginguna vel.
Hann braut heilann um hana alla leiðina heim, rifjaði upp hvað hann vissi. Grímur varð að finna hana. Vissi að hún kallaðist Stína og væri Edgarsdóttir, hann mundi það vel því nafnið var svo skrýtið.
Þegar heim var komið heilsaði hann engum en spurði mömmu sína hvort hún kannaðist við Edgar á Ísafirði.
Hvar er systir þín?
Hún varð eftir.
Hún hefur ekkert látið vita af sér.
Hún var með vinum sínum. Edgar, á Ísafirði? Ég þarf að tala við hann.
Kaupmanninn?
Ég veit það ekki.
Hvað kom fyrir peysuna þína? Sullaðirðu á hana, Grímur minn?
Æ, gerðu það, svaraðu mér bara, þetta er áríðandi.
Hann Edgar Jónsson er allavega dáinn en ekkjan rekur verslunina hans við Hafnarstræti.
Sama dag, rétt áður en verslun Edgars Jónssonar á Ísafirði var lokað, lagði Grímur Landróvernum fyrir utan verslunina og gekk inn. Varð að vera ákveðinn þótt hann vissi ekki almennilega hvað hann ætlaði sér. Gat ekki einu sinni vitað hvort þetta væri verslun Edgars föður Stínu eða hvort þeir væru fleiri. En hann varð að taka sénsinn.
Ég er að leita að Kristínu Edgarsdóttur.
Kona á aldur við foreldra Gríms hætti að telja klink úr kassanum. Horfði á hann um stund, mældi hann út. Hann var feginn að sjá að hún var krullhærð eins og Stína en hann gat ekki verið viss um að þær tengdust. Rödd konunnar var tónlaus þegar hún svaraði honum eftir nokkurt hik.
Hún Stína var hér áðan.
Er sú Stína Edgarsdóttir?
Já.
Með krullur?
Hvað varðar þetta?
Grímur veiddi skjálfhentur lítinn miða úr vasa sínum, greip penna af afgreiðsluborðinu og skrifaði. Teygði sig í maltflösku úr kæli og rétti konunni flöskuna og miðann.
Ég ætlaði að fá þetta góða malt, geturðu fært Kristínu þetta?
Konan leit áhugalaus á miðann.
Haha, ég fann þig.
Kær kveðja,
The Mask.
Undirskriftin var barnalega teiknuð mynd af leikhúsgrímu. Grímur var ekki stoltur af teikningunni en gat ekki breytt henni að svo stöddu. Undir var skrifað símanúmer.
Konan leit aftur tortryggin á ræfilslegan drenginn.
Gerðu það.
Það gera fimmtíu krónur fyrir maltið.
Gerðu það.
Fimmtíu krónur. Gríma?
Nei, Grímur í fleirtölu.
Ætti þetta þá ekki að vera Masks, í fleirtölu?
Hún skilur þetta.
Svava systir Gríms skilaði sér úr partíinu næsta morgun. Seinna um daginn bankaði hún á svefnherbergishurð hans en beið ekki svars heldur stillti sér glottandi upp í gættinni.
Grímsi. Það er stelpa í símanum.
Þú bankaðir ekki.
Á ég að segja að þú sért ekki heima?
Grímur áttaði sig, stökk af stað fram í stofu, reif í tólið.
Fjölskyldan fylgdist áhugasöm með.
Grímur hér.
Hann var mættur heim til hennar vatnsgreiddur með tannbursta og peysu í poka sama kvöld. Og heima hjá Stínu Edgarsdóttur og mömmu hennar og systur mátti hann vera. Þar leið honum vel þó að mamman og Halla systir Stínu stríddu honum alltaf og kölluðu hann The Mask þegar þær heilsuðu honum.
Næstu dagar liðu eins og í vímu. Þegar þau fóru að sofa á kvöldin gat hann starað endalaust á hana. Skökku tennurnar, krullaða hárið. Prakkaraglottið hvarf ekki einu sinni þegar hún var við það að festa sætan svefn. Þegar hann heyrði að hún var byrjuð að hrjóta lágt þá potaði hann í nefið á henni til að vekja hana.
Hvað ertu að gera?
Halló.
Ég er sofandi.
Ég vil ekki fara að sofa, segðu eitthvað. Það er svo gaman að hlusta á þig tala
Og hún dæsti, en með andvarpi sem gaf til kynna að hún væri samt upp með sér. Settist upp og spurði hvort hann tryði á drauga og geimverur. Sagði sögur úr bókunum sem hún las, kóngafólkinu sem þær Halla systir hennar elskuðu báðar. Hann hlustaði uppnuminn á hvert orð.
En þegar þessi saga gerist, löngu síðar, þolir hann ekki að hlusta á hana tala. Þolir það ekki því hún talar alltaf við einhvern annan en hann.
Þau komu sér fyrir í ódýrri blokkaríbúð á Ísafirði og unnu vaktir í verslun Edgars en þaðan fluttu þau sig um set eftir nokkur ár til Salteyrar. Þau fregnuðu af yfirgefinni Dúkkuverksmiðju sem var föl á klink hjá ættingjum brúðugerðarmeistarans sem vildu losna við afskekkt niðurnítt hús í krummaskuði. Þangað sem er ófært stóran hluta árs, endalaust myrkur. Best að selja draslið.
Stína og Grímur gerðu húsið upp í sameiningu. Hörður, smiðurinn í bænum og faðir hins eineygða Reynis, smíðaði af ótrúlegri lagni það sem þurfti til að breyta verksmiðju í veitingastað og gistiheimili.
Stína málaði veggina gula, Grímur límdi rósótt veggfóður í herbergin á efri hæðinni þar sem þau hjónin sváfu á veturna en gestir á sumrin. Fljótlega flutti einstæðingurinn Halla, stóra systir Stínu, líka í bæinn.
Halla systir Stínu hafði orðið valdur að banaslysi þegar hún bakkaði á fimm ára gamalt barn með nokkur prómill í blóði. Þetta var skömmu eftir skilnað, hún hafði verið á leið út af bílastæði í Faxafeni með ný stígvél úr Bláu húsunum og nýstraujað kort fyrrverandi mannsins síns þegar slysið varð. Þegar Halla flutti aftur vestur, fyrir tilstuðlan litlu systur sinnar, var hún gjörbreytt manneskja og eins og hulstur af konunni sem hafði fylgt Stínu sinni á ball með Bjartmari. Snjóþvegnu buxurnar löngu gleymdar, skótauið úr bláu húsunum enn í kassanum. En Stína vildi hafa alla hjá sér. Með Höllu á svæðinu var líf húsfreyjunnar fullkomnað þótt hún bæri það með sér að brenna kertið í báða enda.
Til þess að gleðja konuna sína hvatti Grímur hana til að bjóða systur sinni til London til að hressa hana við. Þá var gistiheimilið tilbúið en þau enn að bíða eftir rekstrarleyfi. Það var hálfu ári eftir áfallið og í fyrsta sinn sem Stína sá systur sína brosa í langan tíma. Þær fóru á Ríkharð III í Old Vic, drukku te úr konunglegum bollum og borðuðu gúrkusamlokur. Hímdu fyrir utan Buckingham-höll klukkustundum saman þar til draumurinn rættist. Þær sáu svo sem bara glitta í Filippus drottningarmann stíga út úr bifreið sinni en það var nóg. Vissulega aðeins baksvipinn og bara í örskamma stund en þær ærðust. Eftir kvartanir voru systurnar beðnar um að yfirgefa svæðið því þær öskruðu eins og unglingsstúlkur á Bítlatónleikum og börðu af ákafa í hliðið.
I have to ask you two to leave the premises.
I’m sorry, good sir. We had to say hi to a mutual friend. Can you tell him to talk to us?
Það vildi vörðurinn sannarlega ekki.
Þær þurftu að fara en það var allt í lagi, þær höfðu þarna upplifað saman atburð sem þær myndu aldrei gleyma. Þær hlógu í sæluvímu langt fram á morgun.
Hann Grímur, The Mask, er nú ágætur að bjóða okkur, Stína.
En þegar þær voru komnar aftur á Salteyri lagðist skugginn á ný yfir Höllu. En hún var í augsýn, fjölskyldan saman í Dúkkuverksmiðjunni, og Stínu fannst hún ekki geta beðið um meira.
En þó hafði hún ekki alveg allt sem hjarta hennar þráði. Það sem vantaði enn sárlega í líf Dúkkuverksmiðjuhjónanna var barnshlátur, barnaleikir, grátur, hjal. Eftir að hafa árangurslaust reynt að eignast barn í tvö skelfileg ár sífelldra vonbrigða samþykkti Grímur að þau tækju að sér unglinga úr Reykjavík (og nágrenni) á sumrin. Krakka sem áttu erfitt með að fóta sig í sífelldum mótbyr, sem Stína gæti baðað í hlýju og látið finna að þau ættu tilverurétt. Það var brugðið á það ráð að moka kvartandi og kveinandi unglingum upp í rútu, með kvíða í hjarta og bakpoka fullan af húbbabúbbatyggjói, klámblöðum og rettum. Brakandi ferskt loftið átti að gera þeim gott, því hafði Stína í Dúkkó lofað borgaryfirvöldum í fjölmörgum bréfum og símtölum þar til hún fékk sínu framgengt. Og fjarðarsúrefnið gerði það oft, það sýndi sig fljótt.
Undir sinn hungraða verndarvæng bauð Stína börnum sem voru reið yfir hlutskipti sínu, börnum sem komu ekki með nesti í skólann því mamma og pabbi áttu ekki pening. Hún lét börn sem áttu ríka foreldra sem skiptu sér ekki af þeim finna að þau væru verðmæt. Elskaði krakkana sem hefndu fyrir ástleysi kynslóðanna og afskiptaleysi gagnvart öllu öðru en tölunni á bankabókinni með því að berja krakkana sem brókuðu þau fyrir að vera með dýr gleraugu.
Krakkar frá vandræðaheimilum sem fylgdu ekki reglum, lentu í áflogum, bjuggu til sprengjur, stálu skóm og símum og sniffuðu lím fengu líka að koma í fjörðinn til að finna að minnsta kosti tímabundinn frið í hjartanu. Og viti menn. Börnin losnuðu sum við heift sína út í heiminn sem sífellt traðkaði á þeim. Hættu að bera sig saman við sálarlausu vatnsgreiddu krakkana sem spiluðu á hljóðfæri og fengu nýtt reiðhjól í sumargjöf og sögðu aldrei neitt hættulegt eða fyndið.
Krakkarnir gistu í Dúkkuverksmiðjunni og aðstoðuðu við að færa gestum súpu og bjór eða skiptu um á rúmum í herbergjunum. Hengdu upp á snúrur í þvottahúsinu með Höllu, fengu jafnvel að skera grænmeti og fisk í súpuna með Stínu, hnoða brauð og steikja hamborgara fyrir Grím, mála, sulta með systrunum, laga, taka til og slá blettinn fyrir framan. Þegar þau áttu frí var ekkert að gera annað en að ríða eða naga strá við sjóinn. En það gat verið ansi ljúft. Enginn landi, ekkert lím, engir krakkar til að berja, ekkert rugl.
Sumir unglingarnir fundu sig samt engan veginn, því miður, sama hvað þeir önduðu að sér sjávarloftinu. Neituðu að taka af sér húfuna og grenjuðu af heimþrá á þessum ömurlega stað. En önnur fundu hjá Stínu móðureðli sem þau höfðu aldrei kynnst fyrr. Mörg tala enn um að þau standi í þakkarskuld við hjónin í Dúkkó, aðallega Stínu sem hrósaði þeim við hvert tækifæri og gaf þeim lífsvilja á ný.
Hæfileikarnir, jidúddamía. Þú ert svo klár, ég hef ekki kunnað á þetta síðan við fluttum hingað en það leikur allt í höndunum á þér.
Í alvöru?
En svo kom að honum, atburðinum sem setti eilíft mark á lífið á Salteyri. Ef þú hefur verið á þessum slóðum þá hefurðu eflaust áttað þig á því að það lónir áþreifanlegur harmur yfir bænum litla. Sorgum blandin minning skýst eins og ískaldur andvari manna á milli með augnaráðinu einu saman og smeygir sér inn í martraðir, breiðir úr sér og heldur huga þeirra sem horfa til hafs á dimmum kvöldum í heljargreipum.
Hákon Snorri Aðalsteinsson hafði alltaf átt erfitt uppdráttar, var fámáll og ræfilslegur. Hreinræktuð ótemja, barn sem enginn kysi að eignast. Það var sama hvað Stína reyndi að spjalla við þennan dreng, gefa honum að borða svo hann yrði aðeins pattaralegri og fengi roða í kinnarnar. Sýna honum móðurlega hlýju. Hann brást þóttafullur við, sagði henni að láta sig í friði, sinnti engum húsverkum og steinþagði við matarborðið.
Whatever, kelling, láttu mig vera.
Hákon talaði raunar ekki við neinn á Salteyri nema eina stúlku sem dvaldist þarna á sama tíma, stúlku sem sást stundum teyma hann með sér niður í fjöru á kvöldin.
Svo var það eina kyrrláta sumarnótt við fjörðinn að hann fór út að hafi en í þetta sinn var stelpan ekki með honum. Síðasta manneskjan sem sá hann á lífi var strákur sem deildi herbergi með honum í Dúkkó. Hélt að hann ætlaði út með vinkonu sinni en sá hann svo hverfa einan niður að sjónum um bjarta sumarnóttina. Það var ekki fyrr en undir morgun sem hann áttaði sig á því að Hákon Snorri hefði ekki skilað sér aftur heim og Stína brást við fréttunum með því að hlaupa af stað niður í fjöru.
Sagt er á Salteyri að ekkert hljóð hafi borið vitni um eins hreinræktaða skelfingu og öskrið sem Stína í Dúkkó rak upp þegar hún kom auga á hálfnakinn ískaldan ungan mann á grúfu í flæðarmálinu þennan morgun.
Vandræðakrakkarnir fimm sem dvöldu í Dúkkó þessa viku voru strax sendir heim með pokann sinn.
Stína í Dúkkó syrgði drenginn eins og sinn eigin son þótt hann hefði aldrei viljað þýðast hana. Glaðasta konan á Vest fjörðum fór ekki út úr herberginu sínu í nokkra mánuði en sat öll kvöld volandi með Höllu systur sinni sem fékk í fyrsta sinn í langan tíma tækifæri til að vera sú sem huggaði. Halla færði henni vistir, tímarit um kóngafólkið og samlokur sem Grímur mátti smyrja eftir pöntun. Sjálfur þurfti hann að sjá einn um gistiheimilið og krána. Sofa með hundinn uppi í herbergi í risinu á meðan Stína tók út sína sorg.
En hún reis upp á ný og varð sjálfri sér lík að mestu. Hákon var þó ekki gleymdur og þráin eftir að eignast barn var það ekki heldur. Hún efldist með hverjum deginum. Stína taldi að guðirnir væru að refsa sér fyrir að hafa brugðist Hákoni. Hana dreymdi lítinn dreng sem föndraði flugvélar úr klósettpappírsrúllum í leikskólanum og færði henni til að hengja í gluggann. Litlar flugvélar sem þau myndu skoða þegar hann væri að sofna á öxl hennar á kvöldin, öruggasta stað í heimi. Svo kæmi stúlkan með spékoppana hennar og íbyggnina hans pabba. Lítil hnáta sem hægt væri að greiða á hárið og sofnaði ekki nema hún heyrði allt um börnin í Ólátagarði einu sinni enn. Draumurinn byrjaði sem ósk, varð svo að logandi þrá og loks þráhyggju. Hún ætlaði sér að eignast barn. Barn til að elska, til að lifa fyrir.
Og loks kom barn, stúlka með svart hár og ísblá augu. Þá þekktu íbúar Stínu sína loksins aftur. Stúlkan var nefnd Margrét Hrafnlilja. Því var strax lýst yfir að hún skyldi ekki vera kölluð Magga heldur Milla, svolítið eins og Camilla Parker Bowles sem systurnar, ólíkt flestum rojalistum sem þær þekktu, elskuðu meira en Margréti Danadrottningu. Guð blessi Díönu en Camilla er betri fyrir Kalla. Ekki henni að kenna að hann klæmist í henni með því að segjast vilja vera túrtappi, hún er sjálf elegant.
En Milla var enginn kórdrengur. Hún var snarofvirkur krakki sem foreldrarnir máttu varla líta af, og gera raunar varla enn. Oft óttuðust þau að stelpan færi sér að voða þegar hún æddi um og ógnaði börnum með spýtum, hoppaði fram af húsþökum og rændi rabarbara af einræna skrýtna nágrannanum. Þau voru líka brennd af reynslunni, dauðhrædd um að hún færi óvarlega nálægt vægðarlausu hafinu. Grími var nóg boðið þegar hann rak augun í Millu með Reyni vini sínum kastandi grjóti í sjóinn þegar þau voru sex ára gömul. Hann öskraði á hana þótt það gerði hana skelfda og rak hana heim.
Þegar hún loksins skreið út úr fataskápnum, náhvít í framan og andstutt eftir nokkurra klukkutíma dvöl, sagði Grímur dóttur sinni af Hákoni Snorra, drengnum sem miskunnarlaust hafið hefði gleypt.
Þú verður að skilja, Milla mín, að pabbi verður ekki reiður þegar hann sér þig fara ógætilega heldur er hann hræddur um þig.
Öll börn sem ólust upp á Salteyri fengu fyrr eða síðar að heyra af Hákoni Snorra og sum sögðust jafnvel sjá hann sitja á steini við hafið þegar það var dimmt. Milla hugsaði mikið um þennan strák sem hafði sporað út sama gólf og hún.
En áður en Hákon dó hafði nokkuð hent hann sem enginn vissi um. Og kannski var hann þarna enn í fjörunni í raun, að velta fyrir sér hvort sannleikurinn kæmi einhvern tíma í ljós.
Sannleikurinn um miðann var líka enn hulinn Millu sem sat inni í Dúkkó og beið þess að sundlaugin yrði opnuð. Hún fékk sér sopa af óræða svarta teinu og gaumgæfði rusl sem fauk um í litlum hvirfilbyl sem myndaðist í kringum niðurfallið fyrir utan. Leit reglulega á símann og ókyrrðist.
Ekkert svar.
Hvar í andskotanum var Reynir? Í fýlu? Hún varð að ræða við hann.
Hún skók fótinn undir borðinu og móðir hennar fylgdist með hverri hreyfingu, reyndi að lesa úr augum hennar. Hún vissi þó ekki að Milla hugsaði um bréfið, hugsaði um Sednu sem missti alla fingurna, og velti fyrir sér hvort Reynir væri búinn að sjá skilaboðin en hefði valið að svara ekki.
Athugasemdir