Þann 6. júlí fagnar Dalai Lama 90 ára afmæli sínu. Í tilefni þess safnast Tíbetar víða um heim saman til að heiðra leiðtoga sinn, sem hefur búið í útlegð í Indlandi í meira en sex áratugi eftir að hann flúði ofbeldi kínverskra yfirvalda. Hann er í augum margra tákn andlegs styrks, friðar og þrautseigju.
Samkvæmt tíbeskri trú er Dalai Lama endurfæddur leiðtogi, og sá sem nú gegnir embættinu, Tenzin Gyatso, er sá fjórtándi í röðinni en fyrsti Dalai Lama fæddist árið 1391.
Hér eru tíu lykilatvik úr lífi hans.
1935 – Fæðist í afskekktri sveit
Lhamo Thondup fæddist þann 6. júlí 1935 á fátæku bóndabýli í Taktser, litlu þorpi á fjallsléttu í austurhluta Tíbeta. Landið er staðsett á hásléttu í Himalajafjöllum og er eitt hæstliggjandi byggða svæði heims.
Á þessum tíma er Tíbet að mestu sjálfstætt ríki. Landið hafði áður verið undir stjórn kínverska Qing-ættarveldisins og síðar orðið fyrir tilraun til hernáms af hálfu Breta, en hafði um miðja 20. öld náð að viðhalda sjálfstæði sínu að verulegu leyti.
1937 – Talið að hann sé endurfæddur Dalai Lama
Þegar hann er aðeins tveggja ára koma búddamunkar í leynilegri sendiför að heimili fjölskyldunnar í leit að endurfæddum Dalai Lama, sem hafði látist fjórum árum fyrr.
Munkarnir telja sig hafa fundið rétta barnið þegar hann sýnir sérstakan áhuga á hlut sem tilheyrði fyrri Dalai Lama – kúlulaga bænahring sem notaður er til að telja bænir, svipað og rósakrans í kristni.
Árið 1940 er hann formlega vígður sem trúarlegur leiðtogi Tíbeta og tekur upp nafnið Tenzin Gyatso.
1950 – Kínverski herinn tekur yfir Tíbet
Kínverski herinn ræðst inn í Tíbet og brýtur á bak aftur varnir landsins sem voru illa skipulagðar og skorti bæði vopn og samhæfingu.
Kínversk stjórnvöld kalla innrásina „friðsamlega frelsun“ en fyrir tíbesku þjóðina markar þetta upphaf hernáms og mikilla þjáninga.
1954 – Fundur með Mao Zedong
Tenzin Gyatso heimsækir Peking og hittir leiðtoga kínverska kommúnistaflokksins, Mao Zedong. Þar verður honum ljóst hversu djúp gjá er á milli trúarbragða og stjórnvalda í Kína. Mao á að hafa sagt honum að „trúarbrögð séu eitur“.
1959 – Flýr til Indlands
Eftir að kínverskir hermenn herða tökin í Tíbet og bæla niður fjöldamótmæli í höfuðborginni Lhasa, neyðist Dalai Lama til að flýja yfir Himalajafjöllin. Hann er veikburða og getur ekki farið ríðandi, heldur ferðast hann á baki dzomo, sem er kynblendingur kýr og jakuxa.
Indversk stjórnvöld veita honum skjól og leyfa honum að stofna útlagastjórn Tíbeta í bænum Dharamsala í norðurhluta landsins. Frá þeim tíma hefur hann búið í Indlandi. Kína lýsir honum sem „úlfi í munkakufli“.
1967 – Hefur baráttu utan landsteina
Dalai Lama ferðast til Japans og Taílands, og þar hefst alþjóðleg viðleitni hans til að vekja athygli á málefnum Tíbeta. Hann hittir þjóðarleiðtoga, fræðimenn og listafólk og talar fyrir menningarlegu sjálfstæði og trúfrelsi Tíbeta.
Á sama tíma hefur menningarbyltingin í Kína skaðað Tíbet alvarlega – klaustur eru eyðilögð, munkar fangelsaðir og tíbesk menning kúguð.
1988 – Leggur áherslu á friðsamlegt sjálfræði
Hann dregur til baka kröfur um fullkomið sjálfstæði og fer þess í stað fram á raunverulegt sjálfræði Tíbeta innan Kína, með vernd fyrir tungumál, trú og menningu.
Kínversk stjórnvöld hafna tillögunni og halda áfram að lýsa honum sem hættulegum aðskilnaðarsinna.
1989 – Hlaut friðarverðlaun Nóbels
Dalai Lama hlýtur friðarverðlaun Nóbels fyrir friðsam baráttu sína sem byggist á umburðarlyndi og virðingu fyrir mannréttindum.
Kínversk stjórnvöld fordæma verðlaunin og kalla þau „fáránleg“. Sama ár höfðu kínverskir hermenn brotið niður mótmæli í Lhasa þar sem krafist var aukins sjálfstæðis.
2011 – Hætti afskiptum af stjórnmálum
Dalai Lama segir formlega af sér sem yfirmaður útlagastjórnar Tíbeta og lætur lýðræðislega kjörinn leiðtoga taka við stjórnmálalegri ábyrgð. Með því dregur hann skýra línu á milli trúarlegrar forystu og veraldlegra mála.
Í dag – Einfalt og kyrrlátt líf
Tenzin Gyatso heldur áfram lífi einsetumunksins í Dharamsala. Hann vaknar fyrir sólarupprás til bæna og hugleiðslu og sinnir einföldum daglegum rútínum.
„Ég lít á sjálfan mig sem einfaldan búddamunk,“ skrifar hann á heimasíðu sinni. „Það er hinn sanni ég.“
Í ræðu sem hann flutti við bænaviðburð í aðdraganda 90 ára afmælis síns á sunnudag, sagði hann að næsti Dalai Lama skyldi valinn og viðurkenndur samkvæmt hefðbundnum búddistasiðum, sumsé að hann myndi endurholdgast. Hann lagði jafnframt áherslu á að kínversk stjórnvöld ættu ekki að koma nálægt þessu ferli.
Athugasemdir