Heimsveldin fara fram með miklu ofbeldi þegar þau breiða úr sér en hafa einnig haldið friðinn. Á útþensluskeiði Rómaveldis var Karþagó jöfnuð við jörðu og salti stráð yfir svo ekkert yxi þar meir og yfir milljón íbúar Gallíu voru brytjaðir niður, í það minnsta samkvæmt Sesar sjálfum, svo fátt eitt sé nefnt. En tímabil hins svonefnda Rómarfriðar sem fylgdi í kjölfarið, Pax Romana, var eitt það friðsælasta í sögu Evrópu þrátt fyrir regluleg átök á landamærunum við Germani og Parþa. Á sama tíma réðu Kínverjar stórum hluta Asíu og tryggðu þar frið, hið svonefnda Pax Sinica. Verslun tókst með stórveldunum tveimur þar til syrta fór í álinn hjá þeim í kringum 200 eftir Krist.
Rómarfriður stóð í um tvær aldir en svo brutust út borgarastyrjaldir milli hinna ýmsu herforingja sem gerðu tilkall til keisaratignar, og innrásir Húna og Germana fylgdu í kjölfarið. Verslun lagðist að miklu leyti af og við tók sjálfsþurftarbúskapur þar sem hver ræktaði það sem hann sjálfur gat étið. Tímabil þetta, sem kallað hefur verið hinar myrku miðaldir, stóð frá því á 5. öld og segja má að innrásir víkinga á 9. og 10. öld hafi verið lokakafli hennar. Næstu þúsund árin tókust hinir ýmsu kóngar og keisarar á í svo gott sem linnulausum stríðsrekstri.
Á 13. öld sköpuðu Mongólar stærsta veldi sem sögur fara af. Um 40 milljón manns voru myrtir á útþensluskeiðinu, sennilega um ellefu prósent mannkyns á þeim tíma. Glæstar borgir Mið-Asíu voru lagðar í eyði og áveitukerfin rifin upp svo margar þeirra hafa aldrei risið aftur.
„Marco Polo og frændur hans voru meðal þeirra sem nýttu sér tækifærið“
Í kjölfarið tók við Pax Mongolica, Mongólafriður. Í stað ótal ættbálka og einvalda sem heimtuðu tolla og gjöld meðfram silkileiðunum sáu Mongólar nú einir um slíkt. Að veittu leyfisbréfi var hægt að ferðast alla leið frá Evrópu til Kína án þess að óttast um öryggi sitt, jafnvel fullhlaðinn verðmætum, því enginn þorði að brjóta þær reglur sem Mongólar höfðu sett. Marco Polo og frændur hans voru meðal þeirra sem nýttu sér tækifærið. Varningur og þekking bárust heimshluta á milli en einnig svarti dauði.
Mongólaveldið liðaðist í sundur í minni ríki, Kínverjar köstuðu þeim út, Rússar lögðu undir sig Síberíu og Tyrkir tóku brátt yfir Mið-Austurlönd. Á Indlandi réði Mógúlaveldið enn, sem rakti ættir sínar til Mongóla og þaðan sem samtímaheiti yfir auðmenn er fengið. En það lét svo í minni pokann fyrir Bretum.
Langur skuggi Bretaveldis
Á 17. öld kepptust Evrópuveldin um að koma sér upp verslunarstöðvum og nýlendum víða um heim. Breskir fallbyssubátar brutu á bak aftur mótspyrnu í Afríku og Asíu. Af tólf milljónum Afríkubúa sem voru hnepptir í þrældóm og fluttir yfir Atlantshaf fór þriðjungur með breskum skipum. Eftir sigurinn yfir Frökkum í Napóleonsstríðunum urðu Bretar svo gott sem allsráðandi á höfunum og stofnuðu heimsveldi sem náði yfir fjórðung mannkyns. En þeir bönnuðu þrælahald og beittu flotanum til að elta uppi þrælasala allra landa. Þrátt fyrir ótal nýlendustríð og nokkur skammvinn stríð milli stórvelda Evrópu var þetta tímabil friðsælt samanborið við það sem kom á undan eða á eftir, 100 ára friðurinn, Pax Britannica.
Svo kom annað og verra stríð. Keisaraveldi Evrópu leystust upp. Sovétríkin endurreistu rússneska keisaradæmið í breyttri mynd. Eftir fall keisaradæma Þýskalands og Austurríkis urðu eftir minnihlutahópar þýskumælandi fólks víða í Mið- og Austur-Evrópu. Í næstu heimsstyrjöld var reynt að safna þeim saman í eitt ríki, sem endaði þó með að allt þýskumælandi fólk flúði vestur við Oder-á, þar sem það hefur haldið sig síðan.
„Eftir fyrri heimsstyrjöld skiptu Bretar og Frakkar því sem eftir var upp á milli sín, og gyðingar hófu að flytja inn í Palestínu“
Áhrifin í Mið-Austurlöndum voru ekki síður afdrifarík. Um tíma höfðu Tyrkir ráðið lendum frá Írak og allt vestur til Alsír, sem og Balkanskaga. Var stundum talað um Pax Ottomana því friður hélst innan þessa mikla svæðis, þó það kunni að hafa veitt Vestmannaeyingum litla huggun. Eftir fyrri heimsstyrjöld skiptu Bretar og Frakkar því sem eftir var upp á milli sín, og gyðingar hófu að flytja inn í Palestínu.
Eftir lok seinni heimsstyrjaldar leystust evrópsku heimsveldin endanlega upp. Frakkar börðust gegn sjálfstæðishreyfingum í Víetnam og Alsír en Bretar slepptu takinu að mestu friðsamlega. Eigi að síður er of langt mál að telja upp hér öll þau stríð sem hafa brotist út í þeim löndum sem þeir réðu og skiptu upp í einingar. Indland og Pakistan urðu að tveim ríkjum og yfir milljón manns létust í þjóðernishreinsunum á báða bóga. Síðan hafa þrjú stríð verið háð á milli ríkjanna tveggja sem bæði eru orðin kjarnorkuveldi.
Borgarastríð hafa geisað og geisa enn í fyrrum nýlendum Breta í Afríku, meðal annars í Nígeríu og Súdan. Í hinu fyrrum Tyrkjaveldi hefur verið barist á landamærum Íran og Írak og um yfirráð yfir Kúveit, sem og í fyrrum nýlendum Frakka í Sýrlandi og Líbanon. Ísrael varð sjálfstætt ríki í því sem áður hét Palestína og hefur ósjaldan átt í ófriði við nágranna sína, jafnt sem að stunda hernám og þjóðernishreinsanir á fyrri íbúum svæðisins.
Fall Bandaríkjanna
Mörgum þótti kraftaverk að ekki hafi brotist út stórstríð þegar Sovétríkin féllu, sem áður höfðu haldið friðinn á yfirráðasvæði sínu með því að halda þjóðunum niðri, Pax Sovietica. Eigi að síður var barist í Tajikistan, í Georgíu og á milli Armeníu og Aserbaídsjan, sem og í Téteníuhéraði Rússlands. Á nýrri öld var barist í Georgíu og í Donbas-héruðum Úkraínu með aðkomu Rússa, allt þar til allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu hófst árið 2022. Ekki var lengur hægt að tala um friðsamlega upplausn. „Sovétríkin eru enn að falla,“ sagði Jón Ólafsson Rússlandsfræðingur í útvarpsviðtali.
Allt frá lokum seinni heimsstyrjaldar hafa Bandaríkjamenn ráðið lögum og lofum á sjó og víða á landi líka. Þrátt fyrir að hafa stundum rofið friðinn sjálfir hefur þetta tímabil stundum verið kallað Pax Americana, Bandaríkjafriður. Í Evrópu hefur friður haldist, tja, þar til nýlega, og eru þetta einhverjir mestu uppgangstímar sögunnar, og lífskjör bötnuðu almennt annars staðar líka.
„Sagan sýnir okkur að heimsveldi geta varla talist af hinu góða, en á hinn bóginn getur fall þeirra orðið enn verra“
Nú stefnir í að Bandaríkin dragi sig til baka eða hafi með einum eða öðrum hætti ekki áhuga eða burði til að stjórna heiminum lengur. Sagan sýnir okkur að heimsveldi geta varla talist af hinu góða, en á hinn bóginn getur fall þeirra orðið enn verra og dregið langan dilk á eftir sér.
Sovétríkin eru enn að falla. Bretaveldi er enn að falla. Tyrkjaveldi er enn að falla. Og ef Bandaríkin bætast í þeirra hóp munu afleiðingarnar verða afdrifamiklar.
Athugasemdir (1)