Nýlega sagði forsætisráðherra Bretlands, Keir Starmer, eftirfarandi: „I think that’s fair.“ En hvað var það sem honum fannst sanngjarnt? Jú, að fólk sem flytur til Bretlands eigi að aðlagast bresku samfélagi.
Ég tel að flestir geti verið sammála því að skynsamlegt sé að reyna að aðlagast því samfélagi sem maður ákveður að búa í – hvort sem það sé af fúsum og frjálsum vilja eða nauðsyn. En Starmer sagði meira. Í lauslegri þýðingu orðaði hann það þannig:
„En þegar fólk kemur til landsins, þá ættu þau að vinna markvisst að aðlögun, að læra tungumálið, og kerfið okkar ætti á virkan hátt að greina á milli þeirra sem gera það og þeirra sem gera það ekki. Ég tel það vera sanngjarnt.“
En er þetta í raun svona einfalt og sanngjarnt?
Aðlögun – hvað felst í henni?
Flestir eru líklega sammála því að það sé mikilvægt að læra tungumálið í nýju landi. En er það nóg? Hvað þýðir að „aðlagast“? Snýst það einungis um tungumálakunnáttu, eða þarf meira til – menningarleg samsömun, hegðun, viðhorf?
Við þurfum líka að velta því fyrir okkur hvað felst í því þegar stjórnvöld ætla að greina milli fólks eftir því hversu vel því gengur að aðlagast. Hver skilgreinir hvað telst „nægileg“ aðlögun – og hvaða afleiðingar hefur það fyrir þá sem ekki standast kröfurnar?
Hversu langt má ríkisvaldið ganga?
Það er mikilvægt að við setjum ráðamönnum skýrar skorður, sérstaklega þegar þeir fara fram á eitthvað frá almenningi – í þessu tilviki, að innflytjendur aðlagist að ákveðnum stöðlum. Þegar svo er jafnframt talað um að kerfið eigi að fylgjast með hverjir uppfylla þær kröfur, þá vakna spurningar: Hvaða úrræði verða notuð? Hver ber ábyrgð á mati? Hvað gerist ef fólk stenst ekki prófið?
Við höfum áður séð dæmi þar sem aðgerðir stjórnvalda, jafnvel þótt þær hafi kannski byggst á lögum, hafa vakið mikla andstöðu vegna framkvæmdarinnar. Hver man ekki eftir máli Yazan, barns sem sótt var um miðja nótt á heilbrigðisstofnun til að framfylgja brottvísun? Jafnvel þó efnislega niðurstaðan hefði staðist lög, þá er erfitt að kalla framkvæmdina sanngjarna.
Eftirlit og samfélag – hvar liggja mörkin?
Hugmyndin um að fylgjast með aðlögun fólks minnir á dystópískar framtíðarsýnir þar sem yfirvöld skrá og meta hegðun einstaklinga. Ef fólk aðlagast ekki nægilega, hvað þá? Verður gripið til afleiðinga? Missir fólk réttindi? Hvað ef einhver aðlagast fyrst en „aflagast“ síðar?
Starmer gæti að sjálfsögðu átt við eitthvað sakleysislegt – til dæmis að þeir sem falla á tungumálaprófum fái viðbótarkennslu. Hann gæti einnig verið að tala um að bregðast við misnotkun á kerfinu, t.d. í tengslum við innflutning á ódýru vinnuafli sem er snuðað um réttindi sem aðrir fá. En í því samhengi minnti hann líka á hversu verðmæt framlag innflytjenda hafi verið fyrir samfélagið. Þessi þversögn – að vilja draga úr fjölda innflytjenda, en um leið viðurkenna mikilvægi þeirra – er algeng í pólitískri orðræðu.
Aðskilnaður í nafni sanngirni?
Það er vel þekkt að ólíkir menningarheimar lendi í árekstrum – en spurningin er hvernig við bregðumst við því. Söguleg dæmi um aðskilnað eru ógnvekjandi: Suður-Afríka, suðurríki Bandaríkjanna, Gaza. Hins vegar má einnig nefna dæmi um árangursrík fjölmenningarsamfélög: Kanada, Sviss, Singapúr, Nýja Sjáland - þó alls staðar sé hægt að finna einstök vandamál.
Við verðum að forðast að gera kröfur sem útiloka fólk – sérstaklega ef ríkið ætlar sér að meta hverjir hafi „aðlagast“ og hverjir ekki. Í rauninni er enginn hópur alveg eins – hvorki innflytjendur né innfæddir. Við erum öll ólík. Við trúum á mismunandi hluti, höfum ólík pólitísk viðhorf – og höldum með mismunandi liðum í ensku úrvalsdeildinni.
Hversu ólík megum við vera?
Spurningin er einföld, en mikilvæg: Hversu ólík megum við vera – áður en ríkið ákveður að við séum ekki nógu aðlöguð?
Athugasemdir (1)