Þeir komu seint í höfn, strandveiðimennirnir í Grindavík síðastliðinn miðvikudag. Svo seint að búið var að loka fiskmarkaðnum. „Hann verður þá boðinn upp á morgun sem dagsgamall,“ segir einn þeirra, þar sem þeir hjálpast að við að landa fallegum þorski og vænum ufsa. Vanalega fara þeir til sjávar eldsnemma morguns, en spáin hafði sýnt að skásti veðurglugginn yrði frá hádegi og fram eftir. Nú var kominn kaldaskítur og margra daga bræla fram undan.
Diddi á Sigurvon ÁR121 hafði komið þeirra langfyrstur að bryggju. Hann var einn að bauka við að landa, prílandi ofan í bátinn til að krækja í kör og aftur upp á bryggju til að hífa þau – þrjár umferðir. Erfitt er að koma inn fyrstur og standa einn í löndun. Dagskvóti strandveiðimanns ætti að fylla þrjú kör, en Diddi, sem heitir fullu nafni Sigurþór Jónsson, segir aðstæður hafa verið erfiðar og vonlaust að fylla kvótann í dag. …
Athugasemdir