Sjálfstæðismenn klóra sér í höfðinu yfir rislítilli frammistöðu flokks síns í nýrri skoðanakönnun. Þrátt fyrir viðburðaríkan landsfund, nýjan formann og mikinn fyrirgang í stjórnarandstöðu skítur ríkisstjórnin flokknum ref fyrir rass. Sextíu og sex prósent landsmanna styðja ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup auk þess sem flokkur forsætisráðherra, Samfylkingin, hefur stóraukið fylgi sitt frá kosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn virðist standa ráðþrota gagnvart eigin flatneskju. Skýringin á ógöngum hans þarf þó ekki að vera flókin.
Hart var tekist á um frumvarp ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalds á Alþingi í vikunni. Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, var ein þeirra sem lagðist gegn hækkuninni í pontu. Sagði hún Íslendinga eiga öfundsverð lífskjör sín að þakka atvinnugreinunum „sem nýta auðlindirnar okkar og koma þeim í verð, þjóðinni til heilla“.
Stuttu fyrr hafði vakið athygli einkar ríkmannleg auglýsing Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem miðlaði sama boðskap. Í stað Hildar voru það hins vegar tveir norskir stórleikarar sem gerðu lítið úr fyrirætlunum stjórnvalda um að hækka veiðigjöld.
„Hver skrifaði handritið, hverjir framleiddu og hver leikstýrði?“ spurði leikkonan og samfélagsrýnirinn Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ein margra sem veltu fyrir sér hvaða hæfileikafólk léði sköpunargáfu sína framleiðslu á slíkum „áróðri“ (eins og Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, kallaði auglýsinguna) í þágu stórútgerðarinnar og gegn almannahag.
Svarið lét ekki á sér standa.
Karl á kvennahátíð
Árið 67 f. Kr. kvæntist rómverski stjórnmálamaðurinn Júlíus Sesar annarri eiginkonu sinni, Pompeiu. Þegar Sesar var gerður æðstiprestur prestaráðsins í Rómaveldi var Pompeiu falið að skipuleggja helgihátíð til heiðurs hreinlífisgyðjunni Bona Deu. Aðeins konur máttu sækja hátíðina. Sá orðrómur komst hins vegar á kreik að ungur aðalsmaður af valdaætt hefði smyglað sér inn á hátíðina dulbúinn kvenmannsklæðum. Var maðurinn sagður leynilegur elskhugi Pompeiu.
Ekki tókst að færa sönnur á framhjáhald Pompeiu. Sesar sá sér þó ekki annað fært en að skilja við hana. Ástæðan er í dag sérstakt máltæki sprottið upp úr atvikinu. „Eiginkona Sesars þarf að vera hafin yfir allan grun,“ er ævagömul áminning til fólks í valdastöðum um að gæta að framgöngu þeirra sem standa þeim nærri; ekki er nóg að fólk sé heiðvirt heldur þarf það einnig að sýnast heiðvirt.
Fellur alltaf á sama prófinu
Margir ráku upp stór augu þegar í ljós kom að eiginmaður Hildar Sverrisdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, hefði haft umsjón með gerð „áróðurs“-auglýsingarinnar gegn stjórnvöldum.
Þótt ekkert bendi til þess að tenging sé á milli málflutnings þingflokksformannsins gegn veiðigjöldum og auglýsingagerðar eiginmanns hennar er „eiginkona Sesars“ í þessu tilfelli „ekki hafin yfir allan grun“.
Ástæða þess að Sjálfstæðisflokkurinn er fastur í hjólfari fylgislægðar er sú að hann fellur alltaf aftur á sama prófinu.
Þegar mútugreiðslur sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja í Namibíu voru afhjúpaðar í fjölmiðlum hringdi sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins í Þorstein Má Baldvinsson, eiganda fyrirtækisins, til að kanna hvernig honum liði. Þegar 22,5 prósenta hlutur ríkisins í Íslandsbanka var seldur handvöldum „fagfjárfestum“ var föður fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins leyft að kaupa hlut.
Skoðanakönnun sem gerð var rúmu ári fyrir síðustu kosningar sýndi að 83 prósent landsmanna teldu auðlindagjöld eiga að vera hærri en þau eru nú. Núverandi ríkisstjórn framfylgir vilja þjóðarinnar og uppsker auknar vinsældir fyrir vikið.
Pöpulnum í Rómaveldi virtist eiginkona Sesars daðra við ungan aðalsmann. Var raunin sú? Við vitum það ekki.
Verið getur að Sjálfstæðisflokkurinn vinni hörðum höndum að hag landsmanna. Eins og málið snýr að almenningi virðist þó flokkurinn og allir sem standa honum nærri fyrst og fremst uppteknir við að daðra við aðalinn.
Athugasemdir