17. desember 1903 er stór dagur í flugsögunni. Þann dag tókst tveimur bandarískum bræðrum, þeim Orville og Wilbur Wright, að koma á loft og fljúga vélknúinni flugvél, sem þeir nefndu Wright Flyer. Þessi atburður átti sér stað skammt frá bænum Kitty Hawk í Norður-Karólínuríki í Bandaríkjunum. Flugferðin var ekki löng, innan við hálf mínúta, og vélin náði aðeins nokkurra metra hæð. Einungis fimm menn voru vitni að þessum „heimsviðburði“. Nokkrum dögum áður höfðu bræðurnir gert misheppnaða flugtilraun, þá hafði fjöldi fólks safnast saman til að fylgjast með en þessi mannfjöldi mætti ekki þann 17. desember. „Maður lætur nú ekki þessa fugla plata sig tvisvar,“ sagði einn sem fylgdist með misheppnuðu tilrauninni.
Þótt þetta fyrsta flug (einungis annar bræðranna var þá í vélinni) væri stutt, svo stutt að vart var hægt að tala um flugferð, markaði það upphaf flugsögunnar, sögu sem ekki sér fyrir endann á.
Kløvermarken og Robert Svendsen
Í kjölfar flugtilrauna Wright-bræðra fylgdu fjölmargir áhugamenn víða um heim, meðal þeirra var Robert Svendsen (1884 til 1938). Hann hafði lært að fljúga í Frakklandi og var fyrsti Daninn, og jafnframt sá fyrsti í Skandinavíu, sem fékk flugréttindi. Vinnuveitandi Roberts Svendsen keypti flugvél í Frakklandi og hafði ásamt Svendsen breytt og endurbætt hana heima í Danmörku. Vélin var í upphafi kölluð Dania en var síðar gefið nafnið Glenten (eftir samnefndum fugli af haukaætt). Þann 5. janúar 1910 tók Robert Svendsen á loft frá Kløvermarken á Amager í Kaupmannahöfn. Flugvélin náði 84 metra hæð yfir Kløvermarken og er skráð í bækur sem fyrsta eiginlega flugferð í Danmörku þótt nokkrir Danir hefðu áður gert tilraunir með eins konar svifdreka.
Þann 17. júlí 1910 flaug Robert Svendsen frá Kløvermarken yfir Eyrarsund til Limhamn fyrir sunnan Malmö í Svíþjóð. Þetta flug, sem tók hálfa klukkustund, vakti mikla athygli og var skrifað um það í mörgum evrópskum dagblöðum og tímaritum. Ári síðar flaug hann frá Kløvermarken til Køge og fékk sérstök verðlaun, 1 þúsund krónur danskar, fyrir að hafa flogið lengra en 40 kílómetra í einum áfanga, ferðin tók 35 mínútur. Árið 1912 hætti Robert Svendsen að fljúga og starfaði sem bílasali til æviloka.
Kløvermarken (smáraengið) var á þessum árum eini löglegi flugvöllurinn í Danmörku og flugskóli danska hersins hafði þar aðsetur frá stofnun árið 1912 til ársins 1923. Kløvermarken var ekki flugvöllur í þeirri merkingu orðsins sem við leggjum í það í dag. Þetta svæði, á norðurhluta Amager, var á þessum tíma og er reyndar enn stærðar tún. Á öðrum áratug síðustu aldar voru byggð nokkur flugskýli og fleira tilheyrandi flugrekstri. Det Danske Luftfartsselskab (síðar hluti af SAS) var stofnað árið 1918 og hóf þá flugferðir milli Kaupmannahafnar, Malmö og Hamborgar. Þótt staðsetningin væri góð var svæðið of lítið og auk þess fast við íbúðabyggð.

Kastrup varð fyrir valinu
Á tíma voru uppi hugmyndir um flugvöll við Lundtofte fyrir norðan Kaupmannahöfn og enn fremur á Avedørehólmanum vestan við höfuðborgina. Hvorugur þessara staða reyndist þó heppilegur og árið 1920 keypti ríkið 310 hektara svæði við Kastrup á Amager, 8 kílómetrum frá miðborg Kaupmannahafnar, fyrir flugvöll. Flugsveit hersins hafði aðsetur á hinum nýja flugvelli um tveggja ára skeið, frá 1923 til 1925, en flutti þá annað.
Hinn „borgaralegi“ flugvöllur, eins og það var orðað, var formlega tekinn í notkun 20. apríl 1925 og hét þá Kastrup Lufthavn en var síðar breytt í Københavns Lufthavn Kastrup. Flugbrautin var grasi gróin og búpeningur bænda á Amager sem hafði vanist því að ganga þar á beit var ekki uppnæmur yfir því að þessi bithagi væri ekki lengur þeirra „prívat“ og iðulega þurfti að smala flugvöllinn þegar von var á flugvélum til lendingar, eða brottfarar. Lendingar og brottfarir fyrsta árið voru 2.298, eða rétt um sex á dag.

Flugstöðin sem Waldemar Jørgensen teiknaði og fékk viðurnefnið Træslottet þótti mikið mannvirki en varð þó innan fárra ára of lítil. Á árunum 1937 til 1939 var reist ný flugstöð, arkitekt hennar var Vilhelm Lauritzen. Sú bygging skipar mikilvægan sess í danskri hönnunarsögu og er friðuð.
Hún varð þó með tímanum of lítil og Vilhelm Lauritzen hannaði nýja byggingu sem tekin var í notkun árið 1960. Eldri byggingin var árið 1999 flutt til (það gerði stór vörubíll með 600 hjól!) og er nú notuð við sérstök tækifæri, til dæmis þegar þjóðhöfðingjar heimsækja landið. Við hlið gömlu flugstöðvarinnar stendur flugskýli frá tímum síðari heimssstyrjaldar, byggt úr timbri. Síðan hefur flugstöðin verið stækkuð margoft. Sú bygging sem kannski flestir farþegar þekkja og nefnist terminal 3 var tekin í notkun árið 1998. Sá tónn sem á upphafsárum var sleginn með metnaðarfullri hönnun hefur einkennt flugstöðvarbyggingarnar allar götur síðan. Árið 2028 verður tekin í notkun ný flugstöðvarbygging, 60 þúsund fermetrar, til viðbótar við þær sem fyrir eru.
Stærsti flugvöllur á Norðurlöndum
Kastrup, eins og flugvöllurinn er iðulega kallaður, er sá fjölfarnasti á Norðurlöndum. Á síðasta ári, 2024, fóru um 30 milljónir farþega um völlinn, að meðaltali um 82 þúsund manns daglega. Aukningin frá árinu áður var um 12 prósent og yfirstjórn flugvallarins býst við umtalsverðri aukningu á næstu árum. Frá Kastrup er flogið til 175 áfangastaða, vinsælustu áfangastaðir í Evrópu eru London, Osló, Stokkhólmur, Amsterdam og París. Af áfangastöðum utan Evrópu trónir Doha á toppnum en þar á eftir koma Bangkok, New York, Dubai og Los Angeles.
Alls fljúga 60 flugfélög til og frá Kastrup, fyrir utan 7 fragtflugfélög. Alls starfa um 23 þúsund manns á flugvallarsvæðinu, sem er stærsti vinnustaður landsins.
Í desember 2024 keypti danska ríkið, sem áður átti 39,9 prósent hlutabréfa í flugvellinum, 59,9 prósent til viðbótar og á því nær öll hlutabréfin. Seljandinn var APT lífeyrissjóðurinn. Það er þó ekki stefna ríkisins að eiga svo stóran hlut til langframa.
Athugasemdir