Margfaldur meistari með skýr markmið

Bald­vin Þór Magnús­son er besti lang­hlaup­ari lands­ins í dag. Hann hugs­ar stöð­ugt um næsta skref.

Margfaldur meistari með skýr markmið

Baldvin Þór Magnússon er besti langhlaupari landsins í dag. Hann er nýbakaður Norðurlandameistari í 3.000 m innanhúss og bætti um leið eigið Íslandsmet. Hann tók þátt í Evrópumeistaramóti í 5.000 metra hlaupi, 23 ára og yngri, árið 2021 og vann til bronsverðlauna en hann hljóp á tímanum 13 mínútum og 45 sekúndum, sem var Íslandsmet og þriðji besti árangur á þessu móti. Hann á einnig Íslandsmet í 1.500 m, 3.000 metra hlaupi og innanhúss í 5.000 m. Hann á Íslandsmet innanhúss 1.500 mílu,  3.000 m, 5.000 m og utanhúss í 1.500 m, 3.000, 5.000 m og 10 km götu.

Á götunni setti Baldvin glæsilegt Íslandsmet í 10 km og varð þá fyrsti Íslendingurinn til að fara vegalengdina undir 29 mínútum. Baldvin stefnir lengra og segir mikilvægt að hlauparar setji sér markmið í þrepum og vinni að þeim til jafnvel nokkurra ára.

Atvinnuhlaupari

Baldvin Þór fæddist á Íslandi en flutti til Bretlands fimm ára gamall þar sem hann býr. Hann er mjög fjölhæfur hlaupari og hefur átt afar farsælan feril en hann stundaði háskólanám með hlaupunum og er núna útskrifaður með M.Sc.-gráðu í íþróttafræðum. Baldvin Þór stundar hlaup sem atvinnu og er einnig að þjálfa. Hann tryggði sér sæti á Evrópumeistaramótinu sem fór fram nýlega þegar hann varð Norðurlandameistari og náði þar langbesta árangri sem Íslendingur hefur náð á EM í víðavangshlaupum. Hann varð 16. af 82 keppendum. Baldvin hleypur bæði á braut og götu upp að 10 km og var valinn millivegalengda- og langhlaupari 2024 af Frjálsíþróttasambandi Íslands og hlaup.is og kosinn götu- og brautarhlaupari sama árs af lesendum hlaup.is 

Markmiðin þurfa að vera í þrepum

Það þarf margt til þess að verða afburða langhlaupari; aga, vilja og ástríðu, en ekki síður að setja sér markmið og stefna að þeim í ákveðnum þrepum. Líkamleg hlið og andleg eru einnig mikilvægar. Baldvin hefur unnið að markmiðum sínum með skipulögðum hætti og sífellt náð lengra og stefnt hærra. „Ég myndi segja að það sé mjög mikilvægt að vera tilbúinn til að gera þetta heils hugar og gefa hlaupunum langan tíma ef maður vill ná góðum árangri, það er lykilatriði en líka að gera hlutina rétt og þar er margt sem spilar inn í, hugarfarið er mikið atriði. Menn geta lent í meiðslum eða hreinlega misst hausinn eftir vonbrigði eða þegar eitthvað gengur ekki upp  eins og maður vildi og hafa þá ekki lagt 100% í hlaupin. Aginn er líka mjög mikilvægur ef fólk vill ná árangri.“ 

„Markmiðin þurfa að passa vel saman ár eftir ár og fara stigvaxandi
Baldvin Þór Magnússon
Íslandsmeistari í hlaupum

Og fleira hefur áhrif á hlaupaárangur. „Maður þarf að hafa gaman af þessu og njóta þess að hlaupa og þess vegna er félagsskapurinn mikilvægur í þessu hjá flestum, hann hjálpar verulega. Markmiðin þurfa að passa vel saman ár eftir ár og fara stigvaxandi en þau miðast við hvað maður vill ná út úr hlaupunum. Ef þú ert til dæmis með ákveðið markmið á þessu ári, þá þarftu að velta fyrir þér hvað væri raunhæft markmið fyrir þig á næsta ári ef þú vilt ná toppárangri eða jafnvel vinna aftur á bak. Hins vegar ef þú ert meira í hlaupum til að hafa gaman eða hlaupa einhverja 5 km þá er það annað mál.“

UndirbúningurEr í átta vikna æfingaferð í Pýrenneafjöllunum á mótum Spánar og Frakklands.

Baldvin stefnir að því að komast á Ólympíuleikana 2028. „Ef markmiðið er að vera þar þá þarf ég að hlaupa á undir 13 mín. í 5 km hlaupi eftir þrjú ár. Ég hef því markmið fyrir þetta ár og set mér markmið fyrir næsta ár og ef það allt gengur upp þá ætti ég að vera á góðum stað árið eftir, maður gerir þetta í stigum. Það þurfa allir að finna út hvað þeir vilja gefa mikið í hlaupin, eftir því hvað aðstæður leyfa og gefa tök á. Ég er heppinn því ég get gefið allt í hlaupin, en ef maður er með fjölskyldu og í fullri vinnu þá þarf maður að passa sig á að gera þetta á löngum tíma, hver og einn þarf að finna hvað passar honum. Það geta samt allir bætt sig.“ 

Hvernig æfirðu fyrir mót? „Til að toppa þá breytast æfingarnar þannig að maður fer í gegnum uppbyggingartímabil og í hágæða æfingar. Eins og ég hugsa þetta þá er fullt af æfingum sem byggja menn upp sem hlaupara lífeðlisfræðilega og svo eru aðrar æfingar sem undirbúa mann fyrir keppnina. Það er svolítill munur á hvernig maður tekur æfingar, t.d. ef maður vill vinna í mjólkursýruþröskuldi, sem er kannski ekki mjög mikil nákvæmnisæfing fyrir neina ákveðna keppnisvegalengd í en svo eru aðrar æfingar sem eru nákvæmar fyrir keppnisvegalengdina þína.“  

Lyftir til að halda sér heilum

Álagsmeiðsli herja á hlaupara eins og margt annað íþróttafólk og segir Baldvin að þau megi varast með styrktaræfingum. „Ég tek lyftingaræfingar en legg þær í aftursætið þegar keppni nálgast, lyftingaræfingar geri ég til að halda mér heilum og þær eru mikilvægar til að að ég geti gert sem mest á hlaupum.“ 

„Ef þú ert ekki með kolvetni í líkamanum mun hann ekki svara æfingunum sem skyldi
Baldvin Þór Magnússon
Íslandsmeistari í hlaupi

Kolvetnaríkt mataræðið er mikilvægt fyrir langhlaupara og það þarf að huga að réttri tímasetningu til að taka þau inn svo þau nýtist sem best. „Flestir hlauparar þurfa mun meira af kolvetnum en venjulegt fólk og það þarf að passa að borða kolvetni á réttum tíma þannig að það þarf að borða þau fyrir æfingar, á æfingum ef þær eru langar, en sjálfur tek ég eins mikið af kolvetnum og ég kemst upp með, og svo strax eftir æfingu. Það er mikilvægt að taka kolvetni á réttum tíma, það er ekki gott að vera með lágan blóðsykur og ef þú ert ekki með kolvetni í líkamanum mun hann ekki svara æfingunum sem skyldi og þá er maður heldur ekki jafntilbúinn fyrir næstu æfingu. Til að geta æft eins mikið og þú hefur tök á er gott að fylla alltaf á bensínið um leið og þú ert farinn að nota það.“  

Meiri taktík í hlaupum á braut 

Þrátt fyrir að hafa stundað mikið langhlaup þá viðurkennir Baldvin að sér finnist götu- og brautarhlaup í raun skemmtilegri, þau krefjist allt annarra þátta og séu mjög teknísk. „Hlaup á braut eru allt öðruvísi en langhlaupin, það þarf miklu meiri taktík í þeim,“ segir hann og viðurkennir að sér finnist skemmtilegra að hlaupa brautina og að hlaupa 1.500 m sé skemmtilegast. 

Hvað er fram undan hjá þér? „Núna er ég í æfingabúðum í Pýrenea-fjöllunum í Frakklandi og hef verið í tvær vikur og á sex vikur eftir, svo fer ég til Brussel í Belgíu og keppi þar í 5 km hlaupi og síðan í 1.500 m. Ég tek frekar langa keppnislotu og svo ætla ég að sjá til hvað verður hjá mér, hvort ég taki annað búst í háfjöllum eða smá hlé fyrir sumarið, ég hefði mátt gera betur í taktíkinni á Evrópumeistaramótinu þannig að ég ætla að vinna með það. Það sem maður þarf alltaf að hugsa um þegar maður hefur hlaupið í einhvern tíma er hvert næsta skref er og hverju maður getur breytt eða bætt við í æfingum sem líkaminn þarf á að halda, eða að bæta einhverju við og breyta einhverju, hvort sem það er í magni eða gæðum hlaupa.“

Kjósa
3
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Hlaupablaðið 2025

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár