Í dag urðu miklar breytingar á forystu á heimsvísu. Illskan er sigruð af hendi Guðs,“ voru skilaboð Repúblikans Marjorie Taylor Green við fráfall Frans páfa á mánudag, sem var almennt talinn vera auðmjúkur og réttsýnn maður.
Þingkonan hefur verið sögð „siðferðislega gjaldþrota“, „spillt“ og „beinlínis hættuleg“. Þrátt fyrir það hafa áhrif hennar innan Repúblikanaflokksins aðeins farið vaxandi. Orðræða hennar er birtingarmynd yfirstandandi menningarstríðs, þar sem tekist er á um mörk hins leyfilega í opinberri umræðu.
„Málfrelsi er grunnur lýðræðisríkis og Twitter er stafrænt torg þar sem tekist er á um málefni sem eru mikilvæg fyrir framtíð mannkyns,“ sagði Elon Musk þegar hann varði sex þúsund milljörðum íslenskra króna í kaup á Twitter. Sú upphæð hefði dugað sjö sinnum til að binda endi á hungur í heiminum, en hann hafði meiri áhuga á að ná tökum á markaðstorgi hugmyndanna, breytti Twitter í X og boðaði stefnubreytingu sem fólst í því að þar yrði enginn bannaður og öll orðræða leyfð. Fræðimenn bentu á að skilningur Musk á málfrelsi væri takmarkaður, fyrst og fremst í þágu hinna ríku og valdamiklu, sem vildu þagga niður í gagnrýnisröddum. Markaðsdrifnar hugmyndir um tjáningarfrelsi sem væru í raun leit að frelsi frá ábyrgð. „Málfrelsi fyrir einn getur verið hatursorðræða fyrir öðrum,“ útskýrði sérfræðingur í mannréttindum. Toxic Twitter, tísti Amnesty International.
„Ég elska þegar áætlun gengur upp,“ skrifaði rithöfundurinn JK Rowling um helgina, við mynd af sér með kokteil í hendi og púandi vindil um borð í snekkju við Bahamaeyjar. Rithöfundurinn var að fagna hæstaréttardómi í Bretlandi um að ákvæði jafnréttislaga um konur nái ekki til trans kvenna, dómi sem vegur að tilverurétti trans fólks.
„Toxic Twitter.“
Ófilteraður Trump
Þingkonan Marjorie Taylor Green þurfti margoft að undirgangast bann til lengri eða skemmri tíma á Twitter áður en Elon Musk eignaðist það. Hún var ein þeirra sem fjárfesti í Truth Social, samfélagsmiðli Trumps, sem færði sig þangað, þar sem hann gat gert það sem honum sýndist, eftir að hann var bannaður á samfélagsmiðlum fyrir að hvetja til árásar á þinghúsið í Washington. Þingkonan er enda harður stuðningsmaður Donalds Trump og skoðanabróðir. „Marjorie Taylor Green, ófilteraður Donald Trump,“ var eitt sinn fyrirsögn greinar sem birt var í Le Monde.
Nýlega talaði hún fyrir aðskilnaði ríkja í Bandaríkjunum, sem skipta ætti upp í rauð og blá ríki – og ef fólk myndi flytja úr bláum ríkjum í rauð ætti að svipta það kosningarétti.
Hún er andvíg fóstureyðingum, hefur lagt fram frumvörp sem draga úr réttindum hinsegin fólks og talað um „trans hryðjuverkamenn“. Hún er andstæðingur Nató, aðdáandi Pútín og hefur sakað fólk um andgyðinglegan áróður vegna gagnrýni á árásir Ísraela á Palestínu. Hún hefur kallað pólitíska andstæðinga geðveika og „litla tík“, sagt að kaþólsku kirkjunni sé stjórnað af Satan og glæpamönnum, verið ötull samsæriskenningasmiður sem hafnar þróunarkenningunni, loftslagsbreytingum og bólusetningum vegna heimsfaraldurs. Viðbrögðum til að fyrirbyggja útbreiðslu faraldurins líkti hún við ofsóknir á hendur gyðingum í helförinni - en baðst síðar afsökunar á þeirri samlíkingu. Demókrataflokknum hefur hún líkt við nasista og Trump við Jesús
Veruleikanum snúið á hvolf
Þegar Donald Trump tapaði forsetakosningunum árið 2020 studdi þingkonan tilraunir til að snúa niðurstöðum kosninganna honum í vil. Á þingi bar hún grímu með orðunum: Trump vann, kallaði eftir því að niðurstöður forsetakosninga yrðu ógiltar og deildi myndbandi þar sem því var haldið fram að fulltrúar alríkislögreglunnar kynnu að hafa átt aðild að árásinni. Og sagði að „Demókrata yrði að draga til ábyrgðar fyrir það pólitíska ofbeldi sem orðræða þeirra hvatti til.“
Þetta er kona sem vílar ekki fyrir sér að snúa veruleikanum á hvolf, dreifa villandi eða fölskum upplýsingum, jafnvel ósannindum. Hún gekk svo langt að leiðtoga Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings misbauð orðræðan: „Einhver sem hefur gefið í skyn að kannski hafi flugvél ekki verið flogið á Pentagon þann 11. september, að skotárásir á skóla hafi verið sviðsettar og að Clinton-hjónin hafi grandað flugvél JFK jr. lifir ekki í raunveruleikanum,“ sagði hann. Það var þá.
Nú á hún sviðið. Og aðrir eins.
Dreifa röngum upplýsingum
Áður hefði færslu sem hún skrifaði um að vísindamenn gætu stjórnað veðrinu verið eytt af Twitter. Nú rakar hún að sér lækum og fær tugþúsundir deilinga.
Greining New York Times á 50 þúsund færslum frá 100 áhrifamiklum notendum sem Twitter hafði lokað á vegna öfgafullra viðhorfa, hótana eða dreifingu rangra upplýsinga, en sneru aftur með Musk, sýndi að flestir héldu áfram þar sem frá var horfið að dreifa fölskum fullyrðingum og frásögnum um jaðarsetta hópa. Þeirra á meðal voru fjölmiðlamenn, stjórnmálamenn og meðlimir í innsta hring Trumps, sem voru gjarnan á bak við samsæriskenningar sem gengu manna á milli á samfélagsmiðli Musk.
Yfir helmingur þessara notenda, sem New York Times fylgdist með, tók þátt í að dreifa sögusögnum um að morðtilraun á hendur Trump í aðdraganda kosninga hefði verið skipulögð af valdamiklum Demókrötum. Samanlagt fengu þessar færslur þrjár milljónir deilinga á fyrsta sólarhringnum eftir skotárásina.
Á einum mánuði var færslum um „ólöglega innflytjendur“ sem væru að fremja kosningasvik, stela peningum skattgreiðenda og sagðir tengjast hryðjuverkum deilt 2,7 milljónum sinnum.
Sjálfur tekur Musk þátt í því að dreifa áróðrinum með því að lyfta þessum notendum, þannig að fjöldi fylgjenda þeirra hefur snaraukist síðan þeir sneru aftur. Tíu af vinsælustu notendunum sem New York Times fylgdist með fengu 26 milljónir nýrra fylgjenda eftir endurkomuna á Twitter, nú X. Trump var einn af þeim sem jók fylgi sitt verulega.
Lengi lifi konungurinn!
Forseti Bandaríkjanna þarf ekki lengur að nota jaðarmiðil til að deila sýn sinni á lífið. Hann handvelur blaðamenn sem eru hliðhollir honum og meinar þeim sem honum mislíkar um aðgengi að Hvíta húsinu. Og hefur nú fullt aðgengi að öllum samfélagsmiðlum, í gegnum eigin reikning og embættisins.
„Í dag er auðræði að myndast í Bandaríkjunum“
„Trump Gaza“ var myndband sem sýndi framtíðarhugmyndir forsetans um uppbyggingu á landsvæðinu, þaðan sem hann vildi flytja Palestínumenn og byggja upp lúxusferðaþjónustu, þar sem hann gæti notið lífsins með Elon Musk og seðlabúntum. Í annan stað deildi Hvíta húsið mynd af Trump með kórónu, með orðunum: „Lengi lifi konungurinn.“
Á innsetningarathöfn hans sátu tæknirisar fyrir aftan fjölskyldumeðlimi Trumps. Þeirra á meðal voru Elon Musk, sem er nú náinn samstarfsmaður forsetans. Mark Zuckerberg sem á Meta, Facebook, Instagram og WhatsApp var þar einnig. Sem og Jeff Bezos, eigandi leitarvélarinnar Google, Amazon og The Washington Post, sem hann beitti í þágu forsetans í aðdraganda kosninga og bannaði nýlega birtingu skoðanagreina sem ganga gegn stefnu hans. „Í dag er auðræði að myndast í Bandaríkjunum, byggt á gríðarlegum auði, valdi og áhrifum, sem bókstaflega ógnar öllu lýðræði okkar, grundvallarréttindum og frelsi, jöfnum tækifærum,“ varaði fráfarandi forseti við.
Áróðursmyndbönd Hvíta hússins
Instagram-reikningur Hvíta hússins er undirlagður færslum um ágæti forsetans og niðurlægjandi myndskeiðum af jaðarsettum einstaklingum. Forsetanum er stillt upp sem hetju en innflytjendum sem skúrkum. Undir eru gjarnan spiluð þekkt dægurlög: 🎶„Na na na na, na na na na, hey hey, goodbye,” var texti Hvíta hússins með myndbandi af hópi manna sem verið var að vísa úr landi.
Algengt er að þar séu birtar andlitsmyndir af fólki sem er verið að vísa úr landi. Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins hvatti fólk án landvistarleyfis til að fara sjálft úr landi, svo það myndi ekki enda í slíkum myndböndum. „Fun videos“, var orðalagið sem hún notaði. Ein færslan innihélt tvær myndir, önnur þeirra var teiknuð skopmynd og hin ljósmynd af konu í járnum, sem sögð var vera fentanyl-sali. Henni var deilt með orðunum „Bye-bye Rasha“👋
Í síðustu viku deildi Hvíta húsið mynd af forsíðu New York Times, þar sem fjallað var um mann sem var fluttur til El Salvador, þar sem hann situr í öryggisfangelsi fyrir hættulegustu glæpamenn landsins, þrátt fyrir að dómstólar hafi fyrirskipað stjórnvöldum að færa manninn aftur til landsins. Í færslunni var búið að krota með rauðum penna yfir hluta fyrirsagnarinnar: Senator Meets With Wrongly Deported Maryland Man in El Salvador. Með sama rauða penna hafði verið skrifað inn á myndina: „who is never coming back.“ Degi síðar birti Hvíta húsið mynd af forsetanum halda á ljósmynd af húðflúrum mannsins, sem hann fullyrti að væri tengdur glæpasamtökum: „If it looks like a duck, swims like a duck, and quacks like a duck, then it probably is a duck.“ Röksemdafærslan þarf kannski ekki að vera sterkari, í huga forsetans sem fullyrti nýlega að það væri ekki hægt að tryggja öllum réttláta málsmeðferð fyrir dómi.
Áður hafði Hvíta húsið birt mynd af fyrirsögn fréttar frá FOX þar sem haft var eftir þingmanni að dómarar í Bandaríkjunum séu að styðja hryðjuverkamenn, vegna dómsúrskurðar um að ríkisstjórninni væri óheimilt að byggja brottvísun fólks á lögum frá 1798.
Hámark illskunnar birtist líklega í ASMR færslu Hvíta hússins. ASMR er hugtak sem notað er til að lýsa ákveðnum hughrifum sem verða við ákveðið hljóð- eða sjónrænt áreiti. ASMR er vinsælt slökunarform á samfélagsmiðlum, þar sem það á að virka róandi á skilningarvitin. En ASMR færsla Hvíta hússins var af mönnum sem verið var að brottflytja. Hljóðin sem áttu að vekja þessi hughrif voru í keðjum sem bundnar voru um mennina, hendur þeirra og ökkla, og drógust eftir jörðinni þegar þeir voru leiddir um borð í flugvél.
Góða fólkið
Hér á landi hefur einnig verið tekist á um mörk hins leyfilega í opinberri umræðu, þótt ráðamenn hafi farið betur með vald en nú er gert í Bandaríkjunum.
Tíu ár eru liðin frá því að íslensk kona stofnaði síðuna Kæra Eygló, þar sem biðlað var til ráðamanna að leggja flóttamönnum frá Sýrlandi lið, þurfti átta sjálfboðaliða til að halda hatursorðræðu frá síðunni. Oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórn brást við með því að stilla flóttamönnum og íslenskum gamalmennum upp sem andstæðingum, með yfirlýsingu um að það væri mikilvægara að huga að öldruðum Íslendingum en erlendu flóttafólki. Síðar voru þeir sem vildu rétta út hjálparhönd og teygja sig til hinna jaðarsettu, með mannúð að vopni, stimplaðir og uppnefndir: „Góða fólkið“.
Framtakið markaði ákveðin kaflaskil í íslenskri samfélagsumræðu. Á næstu árum átti það margoft eftir að gerast að fjöldi fólks tók sig saman á samfélagsmiðlum og krafðist breytinga í krafti fjöldans. Samfélagsmiðlar voru vopn í höndum fólks sem vildi réttlátara samfélag, en með auknum áhrifum jókst sömuleiðis andstaðan við áherslur þeirra. Fólkið sem var fyrirferðarmikið í baráttu fyrir betra samfélagi fyrir alla en ekki bara suma, var haft að háði og spotti. Óþolið hefur farið vaxandi á undanförnum árum og mánuðum. „Það má aldrei segja þetta, það má ekki tala um þetta, þú ert sek um hugsanaglæp hér og hugsanaglæp þar,“ var tilfinningin sem verkalýðsforingi lýsti á dögunum, kona sem er sjálf ötul baráttukona fyrir auknum réttindum þeirra sem verst standa í íslensku samfélagi, en langþreytt á fyrirferð þessa hóps sem hefur farið mikinn í opinberri umræðu. „Fólk vill bara fá að tala, einmitt frjálst, vill fá að koma skoðunum sínum á framfæri.“
Á síðastliðnum áratug hefur „góða fólkið“ náð yfirhöndinni í opinberri umræðu og tapað henni aftur.
Þótt Íslendingar búi við annan veruleika en Bandaríkjamenn þá er ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri þróun sem birtist á samfélagsmiðlum varðandi mörk hins leyfilega í opinberri umræðu. Það sem leyfist í dag hefði þótt óhugsandi fyrir nokkrum árum síðan. Og við getum ekki látið sem það sé okkur óviðkomandi.
Í úttekt Heimildarinnar um stöðu kvenna á Íslandi varaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir við því að áhrif ráðamanna í Bandaríkjunum og hugmyndir þeirra smitist til Íslands. „Það mun gera það. Við sáum að þegar nýfrjálshyggjan fór á flug í Bandaríkjunum smitaðist hún yfir til Evrópu og þaðan til Íslands. Þær hugmyndir fengu talsvert vægi.
Þetta nýja öfgafulla hægri sem við sjáum í Bandaríkjunum er hugmyndafræði sem teygir anga sína mjög víða og mun finna sér leið inn í pólitíkina. Þetta er hugmyndafræði sem byggir á því að might is right, rétti hins sterka, að það eigi að stjórnast með valdinu en ekki samlíðan. Þessar hugmyndir eru á öndverðum meiði við femínisma sem byggir á rétti einstaklingsins til þess að vera hann sjálfur, njóta virðingar og frelsis og samlíðanar milli fólks.“
Þrátt fyrir yfirlýsta málfrelsisstefnu Musk þá er frelsið ekki allra. Reikningum blaðamanna hefur verið lokað vegna gagnrýninnar umfjöllunar. Blaðamönnum er sömuleiðis meinað að spyrja spurninga eða mæta á blaðamannafundi í Hvíta húsinu, enda er búið að marka þá stefnu að það sé heiður en ekki réttur blaðamanna að spyrja forsetann spurninga.
Á sama tíma hefur valdamesta fólk heimsins óheftan aðgang að almenningi, til að miðla eigin sýn á veruleikann – sama hversu trufluð hún er.
„Lengi lifi konungurinn.“
Athugasemdir (1)