Einkavæðing almannaþjónustu hefur lengi verið á dagskrá hér á landi eins og víðar. Sýnist sitt hverjum um ágæti hennar. Talsmenn einkavæðingar telja hana leiða til hagræðingar og bættrar þjónustu en aðrir benda á slæma reynslu af lélegri þjónustu, niðurníðslu innviða og háum arðgreiðslum til einkaaðila.
Auk almennra álitamála um einkavæðingu tengjast sérstök atriði eignarhaldi og rekstri einkaaðila á samfélagslega mikilvægum innviðum svo sem samgöngumannvirkjum, orkuverum og veitum. Nefna má það að halda starfsemi í gangi bresti einkaaðila getu til þess af rekstrarlegum ástæðum eða vegna ytri áfalla. Hvaða skyldur hafa einkaaðilar í slíkum tilvikum og hver eru úrræði stjórnvalda til að tryggja almannahagsmuni? Dæmi þessa eru augljós þegar litið er til jarðhræringa á Reykjanesi.
„Þrátt fyrir þá fjárhagslegu hagsmuni var ákveðið að kostnaður við varnargarðana yrði alfarið lagður á almenning í landinu“
Vegna þeirra voru byggðir varnargarðar um mannvirkin á Svartsengi. Kostnaður við gerð þeirra samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga er áætlaður um 3 mrd. kr. Tilgangurinn með þeim er að reyna að koma í veg fyrir það tjón sem eyðilegging raforkuvers og veitna á svæðinu kynni að valda. Er þar augljóslega um almannahagsmuni að ræða. En framkvæmdin þjónar einnig fjárhagslegum hagsmunum einkafyrirtækja sem í Svartsengi starfa, HS Orku og Bláa lónsins og gerir þeim kleift að afla áfram tekna fyrir eigendur sína. Þrátt fyrir þá fjárhagslegu hagsmuni var ákveðið að kostnaður við varnargarðana yrði alfarið lagður á almenning í landinu.
HS Orka varð til við skiptingu Hitaveitu Suðurnesja í tvö hlutafélög árið 2008. Magma Energy, sænskt félag í eigu kanadísks félags keypti hlut í HS Orku árið 2009 og hafði eignast það að fullu 2011 en seldi þá hluta þess til Jarðvarma, félags í eigu 14 lífeyrissjóða sem eiga nú helming í því á móti breskum fjárfestingasjóði MIRA.
„Ekkert sýnist hindra eigandann til að gera það sem honum sýnist“
Væri HS Orka í félagslegri eigu væri sjálfgefið að fyrirtækið og félagslegir bakhjarlar þess myndu bera skaðann og gera allt sem unnt er til að sjá neytendum fyrir áframhaldandi þjónustu. En hvað á við þegar fyrirtækið eru í einkaeigu og þá einnig með tilliti til þess að hluti eigendanna er erlendur fjárfestingasjóður? Er HS Orka eða eigendur hennar skuldbundnir til þess að veita áfram þá þjónustu sem þeir yfirtóku með kaupum á félaginu eða geta þeir einfaldlega dregið sig til baka og hætt starfsemi þakklátir fyrir þann arð sem þeir höfðu notið árum saman? Ekkert bendir til þess að að hugað hafi verið að þessu við sölu á HS Orku og ekkert sýnist hindra eigandann til að gera það sem honum sýnist.
Bygging varnargarða í Svartsengi var nauðsynleg til að gæta hagsmuna almennings og sjá til þess að íbúar á svæðinu yrðu ekki sviptir húshitun og rafmagni en það að láta almenning alfarið kosta framkvæmdina, þótt hún sé að hluta til þess að tryggja tekjuöflun einkafyrirtækja á staðnum, hlýtur að orka tvímælis. Með því víkja stjórnvöld sér undan því að svara með rökum spurningunni um ábyrgð einkaaðila á almannaþjónustu sem hann hefur tekið að sér að veita og fengið greitt fyrir. Réttur til nýtingar á náttúruauðlind í eigu þjóðarinnar var í þessu tilviki látinn í hendur einkaaðila og þarf meðal annars að svara því hvort einstök sveitarfélög geti framselt einkaaðilum, þar með talið erlendum aðilum, nýtingarrétt á náttúruauðlindum.
„Ekkert bendir til þess að aðkoma fyrirtækjanna í Svartsengi að kostnaði við gerð varnargarðanna hafi verið könnuð“
Við þær aðstæður sem upp voru komnar hefðu stjórnvöld getað krafist þátttöku fyrirtækjanna í kostnaði við framkvæmdir með tilliti til fjárhagslegra hagsmuna þeirra, samið við þau um greiðslu kostnaðar eða eftir atvikum samið um eða yfirtekið hlutdeild í fyrirtækjunum. Fordæmi fyrir slíkum viðbrögðum má til dæmis sjá í yfirtöku þýska ríkisins á gasfélaginu UNIPER, sem komst í þrot eftir innrás Rússa í Úkraínu. Ekkert bendir til þess að aðkoma fyrirtækjanna í Svartsengi að kostnaði við gerð varnargarðanna hafi verið könnuð. Í ársreikningum þeirra er áhrifa eldsumbrotanna á starfsemina getið en ekkert minnst á þátttöku í kostnaði við að tryggja rekstrarhæfni þeirra og virðast þau líta svo á að stuðningur ríkisins í því efni sé sjálfsagður.
Í ársreikningum HS Orku vekur hins vegar athygli að nýverið tók fyrirtækið lán hjá eigendunum sínum, fjárfestingasjóðnum MIRA og Jarðvarma, samlagshlutafélagi 14 íslenskra lífeyrissjóða, að fjárhæð 38 milljón bandaríkjadala, jafngildi um 5,5 mrd. kr1. Lánið er kúlulán til 7 ára með 10,9 prósent ársvöxtum sem bætast árlega við höfuðstólinn. Ekki kemur fram hver tilgangur með lántökunni sé en á þessum 7 árum mun HS Orka greiða eigendunum sínum 5,3 mrd. kr. í vexti sem dragast frá skattskyldum tekjum fyrirtækisins á tímabilinu og lækka með því skatta þess um rúmlega 1 mrd. kr. Sú búbót leggst við arðgreiðslur félagsins sem verið hafa um 5,5 mrd. kr. að meðaltali á árunum 2017 til 20222.
Það er ekki nýtt að nota bókhaldsfléttur til þess að hafa skatttekjur af íslenska ríkinu. Álverin hafa til dæmis ekki greitt tekjuskatt hér á landi áratugum saman af þeim ástæðum. Það nýja í þessu tilviki er röskleg framganga íslenskra borgara í verknaðnum. Framkvæmdastjóri HS Orku, vel tengdur í íslenskt atvinnulíf og reyndur á þessum vettvangi, og helmingur stjórnar félagsins eru íslenskir svo og stjórn Jarðvarma og stjórnir lífeyrissjóðanna sem eiga Jarðvarma. Íslenskir stjórnendur félaga í erlendri eigu hafa jafnan verið viljugir til svona verka en undrun vekur að stjórnir 14 íslenskra lífeyrissjóða, skipaðar fulltrúum stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins taki þátt í gjörningum með þeim tilgangi einum að hafa skatttekjur af ríkinu og skaða þannig almenning í landinu, þar með talið sjóðfélaga lífeyrissjóðanna.
Gengið var frá þessari málamyndalántöku áður en eldsumbrotin á Reykjanesi hófust. Í greinargerð með ársreikningnum fyrir árið 2023 kemur fram að HS Orka hefur engar fjárhagslegar ráðstafanir gert í tilefni af þeim og telur það væntanlega ekki nauðsynlegt og segir félagið vera að fullu tryggt gegn vá sem stafa kann af eldsumbrotum. HS Orka virðist treysta því að íslenska ríkið noti áfram almannafé til að verja félagið áföllum og gengur út frá því að sá velvilji breytist ekki þótt félagið seilist á sama tíma með vafasömum hætti í vasa ríkissjóðs eftir meira fé.
Höfundur er hagfræðingur og fyrrv. ríkisskattstjóri
Athugasemdir (1)