Ólátabelgurinn á Amalienborg

Átján ára af­mæli þyk­ir að öllu jöfnu ekki ástæða til mik­illa há­tíða­halda. Öðru máli gegn­ir þó ef um er að ræða danska prins­essu. Isa­bella, dótt­ir dönsku kon­ungs­hjón­anna, er orð­in 18 ára og kom­in í tölu full­orð­inna.

21. apríl árið 2007 kom stúlka í heiminn, á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn, dóttir Friðriks, þáverandi krónprins og ríkisarfa, og Mary krónprinsessu. Fyrir áttu hjónin soninn Kristján (Christian) og dóttirin nýfædda yrði því númer tvö í erfðaröðinni í fyllingu tímans. Stúlkan fæddist kl. 16.02 síðdegis, vó 3.350 grömm og var 50 cmllöng.

Degi síðar, klukkan 12 á hádegi, var hleypt af 21 fallbyssuskoti (púðurskoti) í Sixtus-virkinu á Hólmanum í Kaupmannahöfn og á sama tíma 21 skoti á Krónborg á Helsingjaeyri. Þennan dag var sömuleiðis Dannebrog flaggað á öllum opinberum byggingum í landinu og enn fremur strætisvögnum, allt samkvæmt hefðinni. Ein breyting hafði þó verið gerð á þessari hefð sem hafði lengi ríkt.

Áður en Kristján prins fæddist, og ekki var vitað um kynið, var reglum breytt þannig að hleypt skyldi af 21 skoti, hvort sem nýfædda barnið væri stúlka eða drengur. Fram að því hafði verið hleypt af 21 skoti ef drengur kom í heiminn en 17 ef nýfædda barnið væri stúlka.

Isabella Henrietta Ingrid Margrethe

Hjá dönsku konungsfjölskyldunni eru ýmsar hefðir sem fast er haldið í. Þegar kom að því að skíra prinsessuna 1. júlí 2007 fékk hún fjögur nöfn eins og Kristján bróðir hennar og faðirinn Friðrik. Isabella Henrietta Ingrid Margrethe. Síðar fengu yngri systkin hennar, tvíburarnir Vincent og Josephine, einnig fjögur nöfn.

Margrét Þórhildur drottning heitir fjórum nöfnum, Jóakim, bróðir Friðriks konungs, sömuleiðis og það gera líka börn hans. Þótt flestum kunni að finnast fjögur nöfn nægilegt, og kannski meira en það, hefur þó orðið samdráttur í nafnafjöldanum. Þegar Friðrik (Friðrik IX), móðurafi núverandi konungs, var skírður fékk hann sjö nöfn og faðir hans Kristján X hét sex nöfnum.

Prinsessan var eins og áður sagði skírð 1. júlí 2007, sú athöfn fór fram í hallarkirkjunni við Fredensborg á Sjálandi. Sú stutta var í skírnarkjól sem gerður var fyrir skírn langalangafa hennar, Kristjáns X, árið 1870, og skírnarfonturinn á sér langa sögu en hann hefur verið notaður við allar skírnir í dönsku konungsfjölskyldunni síðan árið 1671.

Skírskotun til sögu og ættar

Nöfnin fjögur sem prinsessan ber, Isabella Henrietta Ingrid Margrethe, hafa skírskotun til sögu fjölskyldunnar, Isabella (eða Elísabet) af Austurríki, Henrietta er móðurnafn Mary drottningar, Ingrid var langamma (móðir Margrétar Þórhildar) og síðasta nafnið í rununni er nafn ömmunnar Margrétar.

Rétt er að nefna að við fæðingu fékk hin óskírða prinsessa titilinn ,,Hendes Kongelige Højhed“. Ári síðar ákvað Margrét Þórhildur drottning að bæta við titlana á sonum sínum, mökum þeirra og afkomendum, Isabella ber því nú titilinn ,,Hendes Kongelige Højhed Prinsesse Isabella til Danmark, komtesse af Monpezat“. Með þessu vildi Margrét Þórhildur heiðra fjölskyldu Henriks eiginmanns síns og föður sona þeirra. Að Isabella skuli titluð prinsesse til Danmark merkir að hún er í erfðaröðinni til þjóðhöfðingjans. Móðir hennar, Mary, er dronning af Danmark og því ekki í erfðaröðinni.

Ólátabelgurinn á Amalienborg

Konungshjónin, þau Friðrik og Mary, hafa alla tíð lagt áherslu á að halda börnum sínum utan sviðsljóssins ef svo mætti að orði komast. Ekki væri verið að taka af þeim myndir í tíma og ótíma til að birta í fjölmiðlum og að daglegt líf barnanna væri í föstum skorðum. Á myndum sem teknar voru við ýmis tækifæri af fjölskyldunni þegar prinsessan var á barnsaldri mátti glöggt sjá að hún var uppátækjasöm og fjölmiðlar kölluðu hana gjarnan, í gamni, krudtuglen på Amalineborg – ólátabelginn.

Isabella var á leikskóla Garnison-kirkjunnar í Kaupmannahöfn og árið 2013 hóf hún nám í Tranegårdskólanum í Hellerup. Árið 2020 byrjaði hún, ásamt systkinum sínum, 12 vikna námsdvöl í svissneskum heimavistarskóla. Kórónaveiran setti strik í þann reikning. Í mars árið 2022 tilkynnti Amalienborg (Kongehuset) að prinsessan myndi hefja nám í 9. bekk heimavistarskólans Herlufsholm – Herlufsholm Kostskole – en Kristján bróðir hennar var nemandi í skólanum. Af því varð þó ekki því að í heimildamynd um skólann, sem danska sjónvarpsstöðin TV2 sýndi þá um vorið, var dregin upp dökk mynd af starfseminni. Þar viðgengist einelti og ofbeldi, jafnvel af kynferðislegum toga. Myndin vakti mikla athygli og þau Friðrik og Mary hættu við að senda Isabellu þangað og jafnframt hætti Kristján prins í skólanum.

Isabella fór í 9. bekk í Ingrid Jespersens Gymnasieskole á Austurbrú í Kaupmannahöfn og lauk þar grunnskólaprófi. Hóf að því loknu nám við Øregård Gymnasium í Hellerup og ef allt fer samkvæmt áætlun lýkur hún stúdentsprófi sumarið 2026. Hvað þá tekur við er ekki vitað en hefð er fyrir því að ungmenni úr konungsfjölskyldunni dveljist um tíma erlendis að loknu stúdentsprófi. Kristján krónprins, bróðir Isabellu, var í þrjá mánuði í Austur-Afríku að loknu stúdentsprófi frá Ordrup Gymnasium í Charlottenlund sumarið 2024 og Friðrik kóngur dvaldi í Mongólíu eftir stúdentsprófið.

Afmælið

Eins og fyrr var nefnt varð Isabella 18 ára 21. apríl síðastliðinn. Samkvæmt hefðinni í konungsfjölskyldunni var haldið upp á það með myndarlegum hætti enda marka tímamótin upphaf fullorðinsáranna.

Afmælistilstandið hófst við ráðhúsið í Árósum 11. apríl. Mörg hundruð manns sungu afmælissönginn fyrir utan ráðhúsið og síðan hófst tveggja klukkustunda skemmtun í ráðhúsinu. Fjölmörg skemmtiatriði voru í boði þar sem ungt fólk var í aðalhlutverkunum og svo var auðvitað boðið upp á afmælisköku. Þarna flutti Isabella sína fyrstu opinberu ræðu og minntist margra góðra stunda sem fjölskyldan hefði átt saman á Marselisborg, sem er í eigu konungsfjölskyldunnar, og þar dvelst fjölskyldan löngum á sumrin.

Hinn 15. apríl var röðin komin að Kaupmannahöfn. Þar var sérstök hátíðardagskrá í Konunglega leikhúsinu, tónlist, dans, stutt leikatriði svo eitthvað sé nefnt. Danska sjónvarpið, DR, var með margra klukkustunda útsendingu í tilefni dagsins. Hátíðardagskráin var sýnd beint og svo var rætt við fjölda fólks sem spáði í hin konunglegu spil, eins og einn fjölmiðill orðaði það. Sunnudagskvöldið 20. apríl, daginn fyrir afmælið, var veisla á Amalienborg, fyrst innandyra í einni höllinni (höll Friðriks VIII) og síðar í garðinum. Meirihluti gestanna var ungt fólk og í garðinum var boðið upp á pylsur og samlokur.

Meðal gjafa sem prinsessan fékk var hárskraut – diadem eins og það heitir á dönsku. Diadem er eins konar spöng, hefur verið kallað ennisdjásn. Þessa gjöf fékk prinsessan frá ömmu sinni, Margréti Þórhildi. Ennisdjásnið er gamalt. Ingiríður, móðir Margrétar Þórhildar, kom með það þegar hún flutti til Danmerkur og giftist Friðriki IX. Til er ljósmynd af Ingiríði frá árinu 1928 þar sem hún ber ennisdjásnið. 

Ekki að ástæðulausu

Í dönskum fjölmiðlum hefur talsvert verið fjallað um allt tilstandið í kringum afmælið. Thomas Larsen, blaðamaður og rithöfundur, sem er sérfróður um málefni konungsfjölskyldunnar, segir það þjóna ákveðnum tilgangi. Verið sé að kynna prinsessuna til leiks ef svo megi segja. Thomas Larsen segir að verkefnin sem „tilheyra“ konungsfjölskyldunni séu svo mörg að nauðsynlegt sé að þau hvíli ekki öll á herðum konungshjónanna og krónprinsins Kristjáns.

Thomas Larsen bendir á að Benedikte prinsessa hafi á undanförnum árum verið stoð og stytta Margrétar Þórhildar, systur sinnar. Hann segir greinilegt að ætlun konungshjónanna sé að fela Isabellu ýmis verkefni sem fari fjölgandi með tíð og tíma.

Erfitt að vera númer tvö

Cecilie Nielsen, sagnfræðingur og starfsmaður danska útvarpsins, sagði í viðtali að nú fái Isabella hlutverk sem mörgum hefur reynst erfitt. Að vera númer tvö í erfðaröðinni þýðir að viðkomandi þarf að vera við því búinn að taka við hlutverki sem númer eitt, en búast jafnframt við að til þess komi aldrei. „Undirbúa sig undir eitthvað sem aldrei verður,“ eins og Cecile Nielsen komst að orði. Hún nefndi í þessu sambandi Jóakim, yngri bróður Friðriks, og Harry, yngri son Karls Bretakonungs.

Ef Kristján, eldri bróðir Isabellu, eignast afkomanda, eða afkomendur, breytist erfðaröðin og Isabella færist neðar.

Í lokin má geta þess að tilkynnt hefur verið að fæðingardagur Isabellu, 21. apríl, verði framvegis fánadagur í Danmörku.

Kjósa
17
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

„Ég vildi ekki vera stelpan sem öskraði stopp“
2
Skýring

„Ég vildi ekki vera stelp­an sem öskr­aði stopp“

Yf­ir helm­ing­ur þeirra sem vinna inn­an sviðslista á Ís­landi hafa orð­ið fyr­ir kyn­ferð­is­legri áreitni í starfi eða í tengsl­um við það. Á ís­lensk­um vinnu­mark­aði al­mennt er sú tala 16%. Hver er staða nánd­ar­þjálf­un­ar á Ís­landi? „Ég var svo varn­ar­laus, þar sem leik­stjór­inn (kk) sam­þykkti þetta allt,“ kom fram í einni sög­unni í yf­ir­lýs­ing­unni Tjald­ið fell­ur ár­ið 2017. Hér er rætt er við leik­ara og aðra sem þekkja til.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Margeir fær milljónir í bætur – Hafði áreitt samstarfskonu hjá lögreglunni
3
Fréttir

Mar­geir fær millj­ón­ir í bæt­ur – Hafði áreitt sam­starfs­konu hjá lög­regl­unni

Ís­lenska rík­ið þarf að greiða Mar­geiri Sveins­syni að­stoð­ar­yf­ir­lög­reglu­þjóni miska­bæt­ur fyr­ir að hafa færð­ur til í starfi eft­ir að sam­starfs­kona hans sak­aði hann um of­beldi og áreitni. Lög­reglu­stjóri til­kynnti hér­aðssak­sókn­ara um hugs­an­lega refsi­verða hátt­semi Mar­geirs en mál­inu var vís­að frá.

Mest lesið í mánuðinum

Hefði ekki dottið í hug að ráða sjálfan sig
2
Viðtal

Hefði ekki dott­ið í hug að ráða sjálf­an sig

Bogi Ág­ústs­son hef­ur birst lands­mönn­um á skján­um í yf­ir fjóra ára­tugi og flutt Ís­lend­ing­um frétt­ir í blíðu og stríðu. Hann seg­ir heim­inn hafa breyst ótrú­lega mik­ið til batn­að­ar á þess­um ár­um en því mið­ur halli á ógæfu­hlið­ina í rekstri fjöl­miðla á Ís­landi. Af öll­um þeim at­burð­um sem hann hef­ur sagt frétt­ir af lögð­ust snjóflóð­in fyr­ir vest­an ár­ið 1995 þyngst á hann. Enn þann dag í dag man hann hvernig var að þurfa að lesa upp nöfn þeirra sem dóu í flóð­inu á Flat­eyri.
Hver er Jón Óttar? - „Ég hef sjálfur fylgst með fólki mánuðum saman“
3
Fréttir

Hver er Jón Ótt­ar? - „Ég hef sjálf­ur fylgst með fólki mán­uð­um sam­an“

Jón Ótt­ar Ólafs­son, einn þeirra sem stund­aði njósn­ir fyr­ir Björgólf Thor Björgólfs­son ár­ið 2012, gaf út glæpa­sögu ári síð­ar þar sem að­al­sögu­hetj­an er lög­reglu­mað­ur sem stund­ar hler­an­ir. Jón Ótt­ar vann lengi fyr­ir Sam­herja, bæði á Ís­landi og í Namib­íu, en áð­ur hafi hann ver­ið kærð­ur af sér­stök­um sak­sókn­ara, sem hann starf­aði fyr­ir, vegna gruns um að stela gögn­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár