Ég á afmæli í dag af því ég fæddist þann 13. apríl 1960. Og eins og stundum gerist á afmælisdögum, þá fór ég að hugsa um lífið og tímana og endaði á að því að velta fyrir mér hvernig lífið hefði orðið ef ég fæðst fyrr á tíð en ekki á tuttugustu öld.
Ef ég hefði til dæmis fæðst 500 árum fyrr, föstudaginn
13. apríl 1460
þá er alls ekki víst, og raunar alls ekki líklegt, að ég hefði lifað 65 ára afmælisdaginn minn. Ég hefði til dæmis vel getað dáið í seinni umferð svarta dauða 1494-1495.
En ef ég hefði skrimt af pláguna, þá hefði ég vissulega lifað viðburðaríka tíma. Sem stráklingur hefði ég frétt af viðureign Björns bónda og Ólafar ríku við Englendinga og í byrjun 15. aldarinnar hefðu gengið staflaust milli bæja æsilegar fréttir af viðureignum enskra, þýskra og danskra.
Og ef ég hefði náð að halda upp á 65 ára afmælið mitt 1525 þá hefði ég einmitt um þær mundir frétt að Jón Arason væri rétt ókominn til landsins frá biskupsvígslu í Danmörku, og það væri það helst að frétta að einhver ný kirkjuskipan væri að ryðja sér til rúms í Evrópu.
Það er ekki víst að ég hefði látið mig það miklu varða.
Eflaust hefði ég svo verið löngu dauður áður en endanlega skarst í odda með Jóni biskupi og Dönum 1550.
Ef ég hefði fæðst
13. apríl 1560
hefði ég heyrt á barnsaldri í rökkrinu á löngum vetrarkvöldum í baðstofunni heima (hvar, ó, hvar?!) hetjusögur af Jóni biskupi og hvernig hann stóð uppi í hárinu á Dönum, en þær sögur hefðu orðið æ fjarlægari eftir því sem ég stækkaði. Ef ég hefði náð að komast á fimmtugsaldurinn — en ætli fertugt hafi ekki verið um það bil meðalaldur Íslendinga þá? — þá hefði ég þurft að laga mig að nýrri verslunartilhögun, einokunarverslun Kristjáns 4. Danakóngs.
Og ég hefði eins og aðrir Íslendingar mátt stara út á sjóinn þar sem útlendingar sigldu á glæsilegum skútum en við hokruðum á okkar smábátum og máttum engin samskipti við þá eiga.
Það er mjög ólíklegt að ég hefði kunnað að lesa eða skrifa. Það verð ég að viðurkenna að mér þykir undarleg tilhugsun.
En stærstur hluti alþýðunnar kunni bara ekki þá list kringum aldamótin 1600.
Ef ég hefði hins vegar komið í heiminn
13. apríl 1660
hefði ég lifað heldur nöturlega tíma. Kuldi og harðindi og pestir allskonar léku Íslendinga illa á þeirri litlu ísöld sem geisaði. Til dæmis er meira en líklegt að ég hefði dáið úr kulda eða orðið hungurmorða í gríðarlegum harðindum rétt fyrir aldamótin 1700. Kannski hefði ég freistast til að stela mér til matar og setið í dýflissu með Jóni Hreggviðssyni, jafnvel húðstrýktur fyrir kóngsins makt.
En ef ég hefði lifað fram á 18. öld hefði ég horft á Árna Magnússon ríða í hlað að safna upplýsingum í jarðabók sína og líklega hefði ég lifað af stóru bólu sem drap þriðjung Íslendinga 1707-1709, alls 18.000 manns, því bólan drap aðallega ungt fólk en ég hefði þá verið kominn fast að fimmtugu.
Enn hefði ég verið ólæs og óskrifandi, nema náttúrlega ég hefði verið af auðugu fólki.
En ef ég hefði verið réttur og sléttur vinnumaður er raunar ekkert líklegra en ég hefði verið löngu drukknaður fyrir 65 ára afmælið mitt, því oft drukknuðu tugir og stundum jafnvel hundruð íslenskra sjómanna á hverju ári við sjósókn í þeim lítilfjörlegu bátsskeljum sem við sóttum sjóinn á.
Ef ég hefði fæðst
13. apríl 1760
eru meiri líkur en áður á að ég hefði lært að lesa, því blessaðir Danirnir voru nú farnir að bæta heilmikið menntunarstig sinnar voluðu þjóðar í Atlantshafinu, en hvort sú kunnátta hefði komið mér að miklu gagni er óvíst — því það er sennilegra en hitt að ég hefði dáið rúmlega tvítugur úr hungri í móðuharðindunum eftir Skaftárelda 1783 — nema náttúrlega ef ég hefði tilheyrt yfirstéttinni.
En ef ég hefði lifað þær hremmingar af hefði ég sennilega náð að harka af mér þangað til 1809 þegar ég hefði frétt furðu lostinn að danskur ævintýramaður hefði reynt að taka völdin í landinu af kónginum, en sú tilraun fór sem betur út um þúfur!
Og ef ég hefði náð að halda upp á 65 ára afmælið mitt 1825, þá hefði ég vísast verið búinn að heyra og jafnvel læra kvæðið Eldgamla Ísafold, þó ég ætti erfitt með að gera mér grein fyrir hver hún væri „fjallkonan fríð“ sem þar er kveðið um.
Ef ég hefði hins vegar fæðst
13. apríl 1860
og búið á Suðurlandi þá hefði ég kannski fengið að sjá kónginn Kristán 9. þegar hann kom í heimsókn á Þingvallahátíð, það er að segja ef ég hefði lifað fram á 14. ár sem alltaf var óvíst — enn dó fjöldi íslenskra barna á mjög ungum aldri og ef ég hefði lifað af fæðinguna sjálfa hefðu barnaveiki, lömunarveiki, mislingar, berklar og fleiri sóttir setið um mig.
Og nánast hvaða skráma sem er hefði líka getað gert út af við mig því fyrir daga pensillíns gat bráðdrepandi sýking hlaupið í jafnvel smæstu sár.
En ef ég hefði lifað, þá hefði ég á árunum upp úr tvítugu upplifað síðasta hrottalega harðindakafla Íslandssögunnar og kannski hefði ég þá verið svo illa leikinn að ég hefði hrökklast til Ameríku, and my descendants would now be living in Trump Country or, hopefully, Canada.
En ef ég hefði þreyð þorrann á Íslandi eru í fyrsta sinn meiri líkur en minni á að ég hefði náð 65 ára afmælinu mínu 1925 — það er að segja ef ég hefði ekki dáið í spænsku veikinni —, því þrátt fyrir allt var heilsugæsla farin að skána heilmikið og langlífi þar af leiðandi að aukast.
Það er meira að segja alls ekki óhugandi að ég hefði nýorðinn áttræður horft á breska dáta spóka sig á götum Reykjavíkur þegar allt breyttist.
Og ef ég hefði haft efni á hefði ég kannski tekið stöðvarbíl á Þingvöll 84 ára gamall og staulast við staf á Lögberg til að horfa á íslenska fánann dreginn að húni í fyrsta sinn.
Var í gær ađ kynnast gerfi greindinni persònulega.
Er því òttaslegin en samt átti ég von á einhverju ótrúlegu, ekki eins og amma sem átti ekki von á neinu sérstöku þegar hùn sá ljósiđ í perunni eđa heyrđi útvarpiđ. Afi lifđi bæđi á 19. alla 20. öld og 4 ár inn í þá 21. Hann var listamađur.
Þađ er ekki stađfest en hinduismin heldur því fram ađ sálin fæđist aftur og aftur á þessa jörđ á međan viđ eigum eitthvađ ògert hér.
Međ hjartans þakklæti fyrir þig og allar søgurnar sem ég les eftir þig en hef ekkert ađ gefa þér nema ađdáun.
Bestu kveđjur frá Kristjönu