Búið er að birta Írisi Helgu Jónatansdóttur, meintum eltihrelli í Reykjanesbæ, ígildi nálgunarbanns sem er kennt við Selfoss-leiðina. Það var gert um síðustu helgi. Selfoss-leiðin tekur til Garps Ingasonar Elísabetarsonar, sem hefur kært Írisi Helgu fyrir umsáturseinelti, eftir að þau höfðu stutt kynni í byrjun síðasta árs.
Íris Helga heldur því hins vegar fram í viðtali í hlaðvarpinu Fullorðins hjá Brotkasti, sem og í samskiptum við Heimildina, að hún hafi aldrei átt í þeim samskiptum sem Garpur lýsir, utan vinsamlegra orðaskipta á samfélagsmiðlum.
Rannsókn Heimildarinnar hefur leitt í ljós að minnst níu manns hafa sakað Írisi Helgu um áreiti eða umsáturseinelti. Elsta málið varðar par um fertugt, en þau hafa beðist undan að tjá sig vegna málsins. Þau leituðu fyrst til lögreglu árið 2022 og hafa síðan kært Írisi Helgu. Af þeim málum sem hafa verið tilkynnt lögreglu er mál þessa fólks lengst komið.
Tveir leituðu til lögreglu um helgina
Annar maður, Sölvi Guðmundsson, var í sambandi með Írisi Helgu í um ár, og hefur mátt þola svæsið umsáturseinelti nafnlausra reikninga á samfélagsmiðlum. Áreitið nær einnig til unglingsdóttur Sölva sem steig fram á samfélagsmiðlum í síðustu viku og birti alls kyns áreiti sem hún hafði orðið fyrir, og voru sum skilaboðin í nafni Írisar Helgu.
Þá birtist póstur á samfélagsmiðlasíðu bæjarfélagsins þar sem stúlkan býr, og þar var því haldið fram að hún væri týnd og mynd birt með. Það reyndist uppspuni en færslan var ekki í nafni Írisar Helgu.
Bæði Sölvi og Garpur hafa leitað til lögreglu um síðustu helgi vegna þess að áreitið hefur haldið áfram samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar. Báðir hafa þeir kært Írisi til lögreglu vegna áreitisins.
Selfossleiðin
Selfoss-leiðin svokallaða felur í sér samkomulag milli lögreglu og sakbornings og er notuð í þeim tilvikum þar sem lögregla telur að friðhelgi brotaþola megi vernda með vægari hætti en nálgunarbanni eða brottvísun af heimili, þegar um heimilisofbeldi er að ræða, en þó er um ígildi nálgunarbanns að ræða. Verði brotið gegn því eru afleiðingar ekki jafn afgerandi og þegar um eiginlegt nálgunarbann er að ræða.
Þessi leið hefur verið notuð og er í þróun hjá lögreglunni á Suðurlandi og hefur gildi fyrir dómi. Með Selfoss-leiðinni er sakborningi gefinn kostur á að undirrita yfirlýsingu við lok skýrslutöku af honum, þegar sakarefni hefur verið borið undir hann og honum gefinn kostur á að taka afstöðu til þess.
Íris Helga hefur hins vegar neitað að hún hafi undirritað skjalið. Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar hefur lögregla nú birt henni skjalið og hefur það því gildi.
Athugasemdir